Hefur þú fengið það á tilfinninguna að þú sért að breytast í mömmu þína?
Manstu þegar þú varst unglingur og mamma þín var að „tuða“ í þér og þú lofaðir sjálfri þér því að þú myndir aldrei verða svona? Aldrei!
En viti menn (og konur); þarna er hún mætt sprækari en nokkru sinni fyrr og það í þinn eigin líkama. Og áður en þú veist af taka varirnar sjálfstæða ákvörðun, hreyfast líkt og þú sért andsetin og út úr þér kemur nöldur og tuð. Hvað er málið? Er það eitthvert lögmál að við konur breytumst í mæður okkar þegar vissum aldri er náð? Verðum við allar „pínulítið“ fúlar með aldrinum?
Ekki að það sé svona slæmt að líkjast móður sinni – síður en svo. En að þetta, sem við lofuðum sjálfum okkur að við myndum aldrei verða, skuli þurfa að fylgja með í pakkanum. Vill virkilega einhver kona verða fúl og gömul? Flestar viljum við eflaust verða gamlar, en ég efast um að við viljum verða fúlar. Kannski eru þetta ákveðin álög sem lögð eru á þær sem komnar eru á ákveðinn aldur. Svona eins og í ævintýrunum, nema það er enginn prins sem kyssir okkur svo við breytumst í hoppandi kátar konur. Eða hvað? Getur verið að hamingjan spili þarna inn í? Og er það nokkuð meðvituð ákvörðun að vera fúll?
Eins fúlt og það hljómar þá virðist fleira fara í taugarnar á okkur þegar við eldumst. Sumir verða miklir „besserwisserar“ sem þykjast allt vita og finnst allir aðrir vera tómir vitleysingar. Við þekkjum flestar svona einstaklinga. Stundum erum það við sjálfar sem erum þessar fúlu manneskjur. Ég hef alveg staðið sjálfa mig að því að vera nokkuð fúl og pirra mig á fáránlegustu hlutum. Einhvern tímann í fyrra var ég til dæmis að vafra á netinu og eftir að hafa lesið blogg, athugasemdir á facebook og fleira í þeim dúr, komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væru bara allt tómir vitleysingar. Það sem fólk gat bullað og látið frá sér. En svo sat ég aðeins og hugsaði; bíddu, bíddu, bíddu, þegar allir aðrir eru orðnir vitleysingar er þá ekki eitthvað að hjá manni sjálfum? Þarna var tímabært að líta í eigin barm.
Auðvitað var þetta blessaða fólk ekki eintómir vitleysingar, ég var bara ekki sammála þeim og lét skoðanir þeirra pirra mig. Stundum er bara svo erfitt að láta hlutina ekki pirra sig. Þetta á ekkert eingöngu við okkur konur frekar en karla, en við erum samt viðkvæmari fyrir skapsveiflum af líffræðilegum ástæðum.
Konur á öllum aldri geta kennt líkamsstarfseminni um skapsveiflur einu sinni í mánuði en konur sem komnar eru á vissan aldur hafa miklu betri afsökun. Þær geta átt við skapsveiflur að stríða ansi oft og mjög óreglulega. Hormónar leika þarna stórt hlutverk. Það er ekkert grín þegar hormónarnir hlaupa endurtekið með skapið bæði í hæstu hæðir og dýpstu lægðir – sem sagt stanslaus rússibanareið. Ekkert skrýtið þótt allir í kringum mann verði vitleysingar. En karlmenn geta svo sannarlega líka verið fúlir og nöldrað, en þeir hafa ekki jafn góða afsökun fyrir því og við konur.
Mig langar sko alls ekki að verða þessi fúla kona. Konan sem treðst fram fyrir röðina í fiskbúðinni, konan sem labbar frekar á fólk en að víkja, konan sem kann ekki að þakka fyrir sig, konan sem er með samanherptar varir af pirringi, konan sem nöldrar út í eitt, konan … æ, þið skiljið hvað ég meina.
Ég ætla þess vegna að reyna eins og ég get að vera káta konan. Þessi sem kann að gleðjast, brosa og bjóða góðan daginn, þessi sem þakkar fyrir sig með brosi, þessi sem lítur frekar undan en að pirra sig, þessi sem fær broshrukkur af því hún brosir svo mikið – já þessi sem er hamingjusöm.
Svo ef þið sjáið mig einhvers staðar, með samanherptar varir af pirringi að nöldra og troðast, viljið þið þá vinsamlegast hnippa í mig og brosa!