Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Passíusálmar unga fólksins

$
0
0

Systursonur minn sem er sálfræðingur lýsti einu sinni fyrir mér á myndrænan hátt hvernig kona sem var sjúklega hrædd við köngulær yfirsteig ótta sinn með hugrænni atferlismeðferð. Hann upplifði þetta þegar hann var í framhaldsnámi sínu úti í Kaupmannahöfn og fékk að fylgjast með í gegnum gler ásamt öðrum samnemendum.

Þar leiddi reyndur sálfræðingur konuna, sem gat varla litið myndir af köngulóm án þess að svitna, inn í herbergi þar sem köngulóin var á borði undir glerkúpli og með stanslausu tali við konuna tókst sálfræðingnum að leiða hana að kúplinum, láta hana svo stugga við köngulónni með visakortinu sínu og loks gat hún látið köngulóna skríða á handarbakinu og upp framhandlegginn. Þetta tók auðvitað einhverja stund en aðferðin var s.s. að tala til óttann og svara spurningum „hans“ með rökrænum hætti.

Auðvitað er þetta flókið ferli og ekki á færi leikmanns að útskýra það til hlítar en í mjög grófum dráttum felst hugræn atferlismeðferð í því að læra að ávarpa ótta sinn og svara spurningum hans, fyrst þarf maður að komast að því með hjálp fagaðila hvað búi að baki óttanum og svo er hægt að hefjast handa við að tala skrattann til.

Hugræn atferlismeðferð er mjög dýrmætt bjargráð við margvíslegum sálrænum kvillum, hún gagnast við ýmiss konar fóbíum, sbr. köngulóarfóbíu, flugfóbíu, innilokunarfóbíu, lofthræðslu, svefnleysi, samskiptavanda, áfallastreituröskun o.fl. en svo er hún ekki síður góð við sjálfsprottnum kvíða og þunglyndi sem svo margir eru að glíma við og er að verða eitt helsta heilsufarsvandamál heims.

Ef vel tekst til getur hugræn atferlismeðferð skilað jafn góðum árangri og lyf og jafnvel betri því hún hjálpar fólki að komast að rótum vandans og snúa valdahlutföllunum við. Stundum þarf hins vegar að nota lyf til að gera fólk móttækilegt fyrir meðferðinni því sá sem er í djúpu þunglyndi eða örvæntingarfullum kvíða mun að líkindum ekki hafa eirð né orku til að takast á við samtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Þess vegna eru lyfin líka nauðsynleg, jafnvel lífsnauðsynleg.

Sumir vilja þó meina að oft sé ekki verra að sjúklingurinn komi í mestri vanlíðaninni til sérfræðings þannig að hægt sé að snúa á vandann á meðan hann er sýnilegur, þetta er þó sjálfsagt umdeilt eins og svo margt í þessum bransa. Bransa hinna ósýnilegu áverka.

Nú er HAM, eða hugræn atferlismeðferð, tiltölulega nýlegt meðferðarform, a.m.k. hér á landi en engu að síður byggir hún á öruggum rannsóknum og hefur algjörlega sannað gildi sitt á svo mörgum sviðum. Vandinn er hins vegar sá að sálfræðikostnaður er ekki niðurgreiddur hér á landi sem gerir það aftur að verkum að of fáir hafa efni á að nýta sér þetta dýrmæta bjargráð.

Nú er ég ekki rétta manneskjan til að útlista inntak hugrænnar atferlismeðferðar en ég hvet lesendur til að kynna sér þetta á netinu enda koma upp fjölmargar síður þegar hugtakið er gúglað.

Ég fór hins vegar að hugsa hvort þessi aðferð sé kannski útbreiddari í samfélaginu en við gerum okkur grein fyrir, þ.e.a.s. hvort hún sé í raun okkar ómeðvitaða bjargráð nú þegar allt ratar á netið og við getum litið allan heiminn þaðan eins og geimfarar á tungli.

Ég hef reyndar líka hugsað hvort Jesús hafi fundið þessa aðferð upp af því að hann var alltaf að hjálpa fólki að yfirstíga ótta sinn, hvort sem sá ótti fólst í fordómum gagnvart eigin aðstæðum eða annarra. Að vísu eru eigin aðstæður mjög oft annarra og í því er heilmikil sáluhjálp fólgin og á það benti Jesús oftar en ekki. En alla vega þá finnst mér svo dýrmætt að fylgjast með yngri kynslóðum þessa lands og orðræðu þeirra á opinberum vettvangi, þau eru að yfirstíga svo margar hindranir og lyfta öðrum með sér yfir þröskuld þagnarinnar með því að deila persónulegri reynslu á uppbyggilegan hátt.

Um daginn las ég grein á Freyjur.is eftir unga stúlku sem heitir Þuríður Sigurðardóttir en þar greinir hún frá kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir sem barn, unglingur og síðar ung kona, frásögnin sem ber heitið „ Ég misnotaði engan“, er mjög blátt áfram og heiðarleg en skilur fyrst og fremst eftir tilfinningu fyrir því að hún sem þolandi sé sigurvegari í lífinu. Og það er svo ótrúlega mikilvægt fyrir þau sem sitja enn í þögninni með sambærilega reynslu.

Önnur ung stúlka að nafni Silja Björk Björnsdóttir sagði frá annars konar reynslu á sama vef en hún gerði tilraun til sjálfsvígs fyrir um ári síðan eftir djúpstætt þunglyndi og lagðist inn á geðdeild  og hefur síðan þá fetað brekkuna upp á við og náð fótfestu með þeim ráðum sem eru í boði. Hennar pistill skildi eftir sömu tilfinningu, að það væri von í öllum aðstæðum og að það að leggjast inn á geðdeild væri jafn eðlilegt og að fá umbúðir utan um fótbrot.

Högni Egilsson, söngvari í hljómsveitinni Hjaltalín, hefur líka komið fram og talað  opið um geðhvarfasýki sína með látlausum og eðlilegum hætti. Þetta eru aðeins þrjú dæmi af mörgum sem ég man eftir í fljótu bragði.

Einhverjir túlka sjálfsagt þessa þróun sem svo að vandamálum heimsins fari fjölgandi meðan staðreyndin er sú að þau eru jafn mörg í dag og fyrir hundrað árum, í dag eru þau hins vegar sýnilegri og þar af leiðandi meðfærilegri. Yngri kynslóðir hafa nú sent þögninni langt nef og varla er til nokkuð undir sólinni sem ekki má ræða, sem er frábært.

Það er hugræn atferlismeðferð með ómeðvituðum hætti. Ég hugsa að eldri kynslóðir súpi oft hveljur yfir hispursleysinu en um leið getur verið að hinar yngri séu að lina margra ára gamlar þjáningar hinna eldri, innbundar í ótta og heftingu sem er lærð í annars konar tíðaranda. Þetta er eins konar víxlmótun kynslóðanna sem snýr að því að gangast við tilfinningum sínum og aðstæðum. Þá segja einhverjir „á að vera að básuna öllum sínum einkamálum fyrir framan alþjóð?“  Nei, það á ekki að gera nema tilgangurinn sé að miðla von, það er ekkert til sem heitir tilfinningaklám ef þar leynist von. Von sem er birt upp úr þjáningu getur hreinlega orðið öðru fólki lífgjöf.

Leyfum því unga fólkinu okkar að skrifa sína eigin Passíusálma sem munu ekki verða til minna gagns en hinir fyrri.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283