Auðunn Atlason leyfði okkur að deila þessu með lesendum okkar en Auðunn er búsettur í Vín:
„Austurríkismenn eru í sjokki yfir fréttunum um flóttamennina, 71 talsins þar af 4 börn, sem fundust látnir í yfirgefnum flutningabíl skammt utan við Vínarborg í fyrradag.
Allt í einu færðist dauðinn í Miðjarðarhafinu yfir á miðevrópska hraðbraut.
Umræðan hefur verið yfirveguð og alvarleg og stjórnvöld leita nú allra leiða til takast betur á við flóttamannastrauminn til og í gegnum Austurríki. En hversu mikið er nóg?
Einn austurrískur stjórnmálamaður birti í morgun myndir á facebooksíðunni sinni af líkum barna sem drukknuðu í gær á leið frá Líbíu – myndir sem eru víða á internetinu – og sagði nauðsynlegt að horfa á þær.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa í kommentakerfinu. Margir tóku undir en enn fleiri gagnrýndu hann fyrir að birta myndir af líkum; sögðu það smekklaust. Hann svaraði um hæl og sagði smekklaust að láta sem ekkert sé. Ég er sammála honum.
Það minnsta sem við getum gert er að sýna að við vitum að allt þetta flóttafólk dó á leiðinni til betra lífs. Ef við horfum í hina áttina, þá fyrst er útilokað að við finnum lausnir.
Ef við látum sem ekkert sé, hvað er þá líka orðið um manneskjuna/mennskuna í okkur sjálfum?
Þá hljótum við að þurfa að spyrja okkur „Hvað dó eiginlega inni í okkur – og hvenær?“ fyrst við getum afgreitt svona hörmungar svona létt.
Svo fyrsta skrefið er að viðurkenna stöðuna. Og staðan er dauði. Í þúsundatali, líka smábörn. Drukknun og köfnun. Það verður að koma í veg fyrir það.“
Facebookfærsla stjórnmálamannsins Matthias Strolz:
Ich will erkennen. Ich werde mich nicht abfinden. Mein Europa ist anders.Schauen wir hin, nicht weg. Es ist die letzte…
Posted by Matthias Strolz on Friday, 28 August 2015