Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Málfluningur án rökstuðnings

$
0
0

Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður sendi nýlega grein í Viðskiptablað Morgunblaðsins undir flokknum „lögfræði“. Titill greinarinnar var „sjóræningjar í sjávarútvegi“. Í greininni var að finna ýmsar áhugaverðar fullyrðingar en lítið um rökstuðning. Í grófum dráttum lýsir efni greinarinnar misskilningi á því hvernig innri virkni kerfa og jákvæðir styrkingarskilmálar (e. positive feedback loop) virka. Það er til dæmis ekki hægt að bera saman það leigukerfi sem stefna Pírata fjallar um við það gallaða leigukerfi sem virkar innan núverandi kvótakerfis. Í rökfræði myndi slíkur samanburður kallast strámaður. Já, núverandi leigukerfi er hræðilegt en það þýðir ekki að opinn og aðgengilegur leigumarkaður verði það.

Fullyrðingar án rökstuðnings eru frekar gagnslausar nema þær séu augljóslega sannar eða augljóslega skoðanir og miðað við þær fullyrðingar sem Haukur lætur frá sér í greininni þá dauðlangar mig til þess að heyra rökstuðning hans. En rökin eru ekki auðfundin sem lætur fullyrðingar hans hljóma bara eins og skoðanir. Tónninn sem er settur í upphafi greinar gefur það til kynna að minnsta kosti.

Að mínu mati er stefnan ekki nægilega vel úthugsuð og getur fært sjávarútveginn aftur um áratugi, fyrir daga kvótakerfisins.

Þarna kemur allavega augljóslega fram að þetta sé hans skoðun, þó hvernig hann dragi þessa ályktun sé hana ekkert frekar útskýrða. Ég get ómögulega séð hvernig Haukur kemst að þessari niðurstöðu. Því hefði verið heppilegt ef hann hefði útskýrt mál sitt aðeins betur.

Samstaða hefur ríkt meðal landsmanna um að reka eigi íslenskan sjávarútveg sem samkeppnishæfa atvinnugrein í fremstu röð í heiminum án ríkisstyrkja. Þetta hefur gengið eftir undanfarna áratugi, …

Það getur vel verið, ég hef engan áhuga á að reyna að lesa hug fólks um hvort þessi samstaða sé raunveruleg eða ekki. Í sjálfu sér lítur þetta ekki út fyrir að vera slæmt markmið, samkeppnishæf atvinnugrein án ríkisstyrkja. Það má auðvitað minnast á að í núverandi kerfi þá eru aflaheimildirnar _gefnar_. Ef það er ekki ríkisstyrkur þá veit ég ekki hvað. Jú, einhverjir hafa keypt af öðrum réttinn til að fá gefins aflaheimildir, samt ríkisstyrkur. Það er innheimt veiðigjald sem hægt er að fá helmingsafslátt eða gjöldin felld niður (með samþykki alþingis). Sjávarútvegsstefna Pírata byrjar allavega ekki á því að _gefa_ aflaheimildirnar.

Athugasemdin um áratugi er auðvitað ýkjur, augljóslega.

Nokkur stöðugleiki hefur ríkt í greininni með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á íslenskt efnahagslíf

Einhverjir kynnu að þakka þann stöðugleika því hvernig farið hefur fyrir genginu frá því eftir hrun, sem og óvæntum veiðum á makríl. Þarna væri kjörið tækifæri til þess að sýna einhver gögn þessari fullyrðingu til stuðnings – semsagt að þessi stöðugleiki sé ekki bara gengisfalli að þakka eins og svo oft áður.

Íslenskur sjávarútvegur er nútímalegur og vel rekinn og sýna tölur Eurostat að íslenskur sjávarútvegur er sá eini í heiminum sem skilar meiru til samfélagsins en hann fær í formi ríkisútgjalda.

Var ekki búið að útskýra að það eru útgjöld hjá ríkinu að _gefa_ aflaheimildirnar? Fyrir þá sem hafa áhuga þá er Haukur að vísa í Eurostat tölur um sjávarútveg. Nákvæmlega hvaða gögn það eru sem sýna hversu íslenskur sjávarútvegur er nútímalegur og vel rekinn er ekki alveg augljóst, nánari tilvísun væri vel þegin.

Þetta [að bjóða aflaheimildir til leigu] felur í sér upptöku núverandi aflaheimilda af hálfu ríkissins svo að ríkið geti boðið upp heimildirnar til leigu á opnum markaði.

Ég skil ekki af hverju þetta felur í sér upptöku, aðallega út af fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Svo ákvarðar ráðherra heildarafla með reglugerð. Hvað þarf að afturkalla?

Stefna Pírata gerir í raun mjög litla og einfalda breytingu á núverandi kerfi. Í stað þess að _gefa_ kvótann og innheimta svo veiðigjald eftir einhverjum kúnstarinnar reglum eftir á, þá er aflaheimild leigð út. Ekkert vesen með útreikning veiðigjalda eða hvaða afslætti hinn eða þessi eigi að fá.  Þetta kerfi er einfaldara í eftirliti og ekki eins íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Það er auðveldara að gera áætlanir og auðveldara að laga sig að aðstæðum með stuttum fyrirvara.

… allir ríkisborgarar á EES-svæðinu, t.d. Spánverjar, megi taka þátt í opnu uppboði aflaheimilda í krafti markaðsforsendna og fá í kjölfarið að veiða fiskinn við strendur landsins. [?]

Mjög góð spurning. Af hverju væri uppboð á aflaheimildum eitthvað öðruvísi gagnvart jafnræðisreglunni en að gefa aflaheimildir?

Skoðum aðeins hinn möguleikann, svona að gamni. Ef Spánverjar geta veitt fiskinn á hagkvæmari hátt en við – með okkar vel rekna og nútímalega sjávarútveg, er þá ekki eitthvað að? Ég meina, ef við erum svona vel rekin og nútímaleg og skilum hagnaði umfram ríkisstyrki þá hljótum við að geta boðið betur en aðrir? Eða erum við ekki svona vel rekin og nútímaleg? Hvort er það, ég skil ekki.

reynsla þeirra sem hafa byggt útgerð sína alfarið á leigu aflaheimilda … ekki er rekstrargrundvöllur

Ég var þegar búinn að útskýra þetta í upphafi greinar. Leigukerfi undir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er augljóslega ekki það sama og ef aflaheimildir eru boðnar upp á opnum og aðgengilegum markaði.

þeir sem alfarið byggja á leigukvóta hafa ekki sömu hvata til umgengni um fiskistofnana … sterkur grunur um … brottkast

Af hverju hafa þeir sem eru með leigukvóta ekki sömu hvata? Ég hefði haldið að ef þú ætlir að byggja alfarið á leigukvóta þá viljir þú hafir starf á næsta ári líka, og árin þar á eftir líka. Ef leigukvótaaðilar fara illa með auðlindina þá verður ekkert til þess að leigja seinna. Kvótakerfið, hvort sem aflaheimildir eru gefnar eða leigðar af hinu opinbera, er líka bremsa sem kemur í veg fyrir ofveiði. Það er enginn munur á fólki sem leigir kvóta eða ekki, hvort tveggja er fólk. Hvatinn í hvoru tilvikinu fyrir sig er að sjá til þess að það sé framtíð innan greinarinnar fyrir sjálfa sig og aðra.

Varðandi brottkastið, ef það er einhver munur á brottkasti í leigukvóta og gjafakvóta, þá er það út af því hversu hátt verð þarf að greiða fyrir leigu. Hvernig er réttlátt að eigandi auðlindarinnar _gefi_ aflaheimild sem er síðan leigð áfram fyrir 50 – 70% af aflaverðmætinu? Ólafur Jónsson nefnir 230 kr per kíló sem selst á 400 kr. hámark (67,5%) sem passar við aðrar heimildir. Ef leiguútgerð skrimtir fyrir þetta verð þá er það ágætis vísbending hvað hámark leiguverðs á opnum markaði væri.

Það má því færa sterk rök fyrir því að stuðlað sé að miklum skammtímasjónarmiðum með ríkis- og markaðsleigunni.

Frábært, ég er búinn að bíða eftir þessu alla greinina. Því miður endar málsgreinin þarna og engin „sterk rök“ er að finna í þeirri síðustu. Það verða engin rök til úr þurru lofti. Ég auglýsi hér með eftir sterkum rökum.

Það er gríðarlega mikilvægt að atvinnugrein eins og íslenskur sjávarútvegur búi við stöðugt lagaumhverfi sem hægt er að stóla á að haldi velli. 

Það er alveg satt, á við um allt lagaumhverfið ef satt skal segja. Sjávarútvegurinn, hvað þá hinn íslenski er ekkert undanskilinn því.

Fjárfestar í greininni verða að gera byggt fjárfestingar sínar á traustum lagagrundvelli til lengri tíma litið í stað þess að þurfa að hafa áhyggjur af stöðugum breytingum á regluverki. Verði reglum hins vegar breytt verða fjárfestar einnig að geta treyst því að nýrra breytinga sé ekki að vænta innan skamms tíma.

Breytingarnar eru í raun voðalega litlar. Í stað þess að _gefa_ aflaheimildirnar þá eru þær leigðar sem kemur í staðinn fyrir flókna veiðigjaldaútreikninga – sem hafa möguleika á afslætti eða niðurfellingu. Allt til þess að afkoma ákveðinna aðila sé tryggð. Að afkoma fjárfesta (bankanna) sem koma að þeim viðskiptum sé tryggð.

Af hverju þarf að (ríkis)tryggja afkomu eins eða annars? Hvað gerist ef fjárfesting stendur ekki undir sér? Verður einhver gjaldþrota? Hvað er svona alvarlegt við það? Sama hvernig fer fyrir rekstraraðilum vinnslu eða útgerðar þá verður samt siglt og veitt. Aflanum verður samt skilað á markað og í vinnslu. Slæmar fjárfestingar fá að hverfa og lagalegur ríkisstyrkur (sem er ekki reiknuð í upphæðum en telst tvímælalaust sem styrkur) verður óþarfur.

Í allri umræðunni um sjávarútveginn og hversu mikilvæg sjávarútvegsfyrirtækin eru þá hefur alltaf gleymst að minnast á, það kemur maður í manns stað. Það er eitt hundrað prósent öruggt að sama hver fer á hausinn þá verður fiskurinn veiddur, settur á markað, unnið úr honum og afurðin seld. Ég neita að hlusta á þennan hræðsluáróður um „of stór til þess að falla“ – til þess að réttlæta áfram ríkisstyrktan sjávarútveg.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283