Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hleypur á snærið hjá Staksteinahöfundi

$
0
0

Nokkuð er nú langt um liðið síðan ég hætti daglegum lestri á mínu gamla blaði, Morgunblaðinu. En þar steig ég mín fyrstu skref í blaðamennsku fyrir margt löngu og á mestmegnis góðar og skemmtilegar minningar um.

Þó að á Morgunblaðinu séu ennþá nokkrir ágætir pennar innanborðs nenni ég ekki – frekar en svo ótalmargir aðrir – að ergja mig á leiðurum, Reykjavíkurbréfum og Staksteinum, sem þó að nafnlaus séu, bera oftast ótvíræð höfundareinkenni þess ágæta manns sem varð til þess að tíu þúsund manns sögðu upp áskrift að blaðinu daginn sem hann settist þar í ritstjórastól.

Ekki að það virðist skipta hann eða núverandi eigendur blaðsins nokkru máli. Því er haldið á floti af símalandi gullkvörn. Hverjum er ekki sama um lesendur og áskriftir í dag?

Geðvonska, biturleiki, (yfir hverju, nákvæmlega?) og oft á tíðum alvarlegri raunveruleikafirring en einn ritstjóri getur gert sig sekan um, bera þar oftast meinta fyndni höfundar ofurliði. Að ekki sé talað um nýja skopmyndateiknarann, sem mætti halda að væri hinn ágæti maður sjálfur. En er a.m.k. svo innilega ófyndinn að sumir vildu helst geta sært Sigmund heitinn upp úr gröfinni, enda var hann þúsundfalt betri á sínum verstu dögum – þó að mistækur væri á stundum.

Þegar Morgunblaðið var borið ókeypis í hús til mín í liðinni viku hafði þó Staksteinahöfundur farið svo fram úr sér í misskilningi og hótfyndni þar að lútandi, að jafnvel ég gat ekki hætt að hlæja.

11940224_10153224257668843_1565170206_n

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem á annað borð fylgist með breskri pólitík að framboð hins „ógnvekjandi“ vinstrisinnaða Jeremy Corbyns, (já, vinstrisinnaður maður með þrjátíu ára þingsetu að baki hyggur á leiðtogaframboð í Verkamannaflokknum, þvílík undur og stórmerki á okkar dögum!), veldur skelfingu og uppnámi meðal Neo-Thatcherista flokksins á borð við Tony Blair og núverandi forystu. Hvernig þeirri forystu hefur farnast undanfarið er síðan önnur saga. Spurning samt hvort kjósendur Verkamannaflokksins ættu að hlusta á varnaðarorð frá þessum mönnum.

Hér er það sem hinn þekkti og mikilsmetni rannsóknablaðamaður John Pilger hefur að segja um Corbin:

„Venjulegt fólk um heim allan er ráðvillt yfir því að skoðanir þess skuli ekki speglast í stjórnmálamönnum, sem á þó að heita að það hafi valið sér sjálft. Skyndilega er kominn á sjónarsviðið maður, sem fyrst og fremst er óspilltur. Hann er væn manneskja, misnotar ekki fólk, stundar ekki leiki, langar ekki í stríð við önnur lönd, vill ekki varpa sprengjum á þau, vill ekki sjá fátækt – og kærir sig ekki um að þeir fáránlega ríku stingi af með skrilljónir. Hann hefur gefið fólki von og jafnvel trú á að breytingar séu hugsanlega mögulegar.“

Nema hvað, að loksins gaf Jeremy Corbyn almennilegt færi á sér. Hann sagðist nefnilega vilja leggja það til að sérstakir lestarvagnar fyrir konur yrðu hafðir í breskum járnbrautum til að draga úr kynferðislegri áreitni.

Þetta fannst Staksteinahöfundi ótrúlega fyndið og asnalegt. Sennilega álíka fáránlegt og ef indverskur stjórnmálamaður hefði lagt til að þarlendar konur fengju far með sérstökum strætisvögnum til að forðast morð og raðnauðganir.

Dæmin sem Staksteinahöfundur telur upp, um ökubann kvenna í Sádi-Arabíu, inngöngu kvenna í Rotary á Íslandi o.s.frv. sýna svo vel hvað hann er með puttann á púlsinum.

Hann hefur þó varla mikla reynslu af að ferðast með almenningsfarartækjum í erlendum stórborgum. Og enn minni reynslu af því að verða fyrir óþægilegri og jafnvel stórhættulegri kynferðislegri áreitni á slíkum ferðalögum.

Lítil hætta er á því að hinn ágæti höfundur Staksteina hafi lent í því að á honum væri káfað í yfirfullri lest á annatíma, eða að dónakall með tólin úti og hina hendina fyrir aftan bak, (hnífur? byssa?) valsaði upp að honum, einum í lestarvagni, þar sem hann gat sér enga björg veitt.

Nei, svoleiðis er svo ótrúlega fyndið að það tekur engu tali. Sýnir bara hvað þessi Corbyn er mikill vitleysingur og afturhaldsseggur, að láta sér detta það í hug að konur geti, enn þann dag í dag, verið í hættu fyrir árásum á almannafæri.
————————————————-

Það rifjast upp af þessu tilefni að fyrir nokkrum árum datt einhverjum sú fásinna í hug að hafa sérstök bílastæði fyrir konur, næst útgangi bílakjallarans undir Hörpu.

Það ætlaði allt vitlaust að verða! Enda varð víst ekkert af þessari ágætu hugmynd.

Er einhver að láta sér detta í hug að kona, ein á ferð seint að kvöldi, sé hugsanlega meira útsett fyrir árásum, t.d. ein lengst inni í dimmum bílakjallara, en stór og stæðilegur karlmaður?

Nei, það er væntanlega svona álíka mikill djókur, samkvæmt brandarahöfundi Staksteina, og að kona verði fyrir árás í Rótaríklúbbi Reykjavíkur. Um hábjartan dag …


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283