Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Afleiðingar upplausnarinnar“

$
0
0

Í dag eru sex ár síðan ég flutti utan. Þá hafði ég í 11 mánuði beðið þess að einhver merki væru um að eitthvað myndi lagast – var fram á síðustu stundu tilbúin til þess að hætta við að fara – en engin slík merki var að sjá.

Í gær sá ég eftirfarandi í leiðara Morgunblaðsins, um frábært framtak íslenskrar konu: „Hér á landi fer engin umræða fram um ástæður flóttamannasprengjunnar. Eingöngu kjánaleg yfirboð og samkeppni um það hver sé snjallastur við að finna greiðustu leiðina til að sökkva Íslendingum á kaf í afleiðingar upplausnarinnar. Slík tilþrif hafa sést áður.“

Ég fór að hugsa um hversu stórkostlegt það hefði verið fyrir Ísland, að hafa nú haft mann í brúnni sem hefði séð fyrir „afleiðingar þeirrar upplausnar“ sem varð í Hruninu og komið þannig sínu eigin fólki til hjálpar. Fólki sem jafnvel hafði borgað launin hans um áratugaskeið.

Þá mundi ég að annar ritstjóra Morgunblaðsins er Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára, en Davíð gegndi stöðu aðalbankastjóra Seðlabankans 2005 til 2009. Til marks um það traust sem Davíð naut, má nefna að hann var sá stjórnmálaleiðtogi sem Íslendingar sögðust treysta best til þess að leiða sig út úr kreppunni í könnun sem Viðskiptablaðið lét gera fyrir sig í október 2009, rúmu ári eftir hrunið.

Til marks um öndverð sjónarmið má nefna að tímaritið Time nefndi Davíð á lista yfir 25 einstaklinga á alþjóðavettvangi sem bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu. Í mars 2009 var Davíð Oddsson valinn versti Seðlabankastjóri í Evrópu af Dagens Nyheter í Svíþjóð, og sagt að hann kenndi öllum um það sem illa fór nema sjálfum sér.

Screen Shot 2015-09-01 at 20.42.26

Ég veit að fátt ‘flóttafólk’ var í betri aðstöðu en ég, sem kunni málið í því landi sem ég var að fara til, var með kennitölu og vinnuferil þar – fyrir nú utan það að eiga bæði fyrir flugfarinu og gámnum. Engu að síður fór ég með mikla sorg í hjarta.

Draumurinn um að búa í landinu mínu var brostinn, eftir að óreiðumönnum hafði verið leyft að láta greipar sópa og tæma alla okkar sjóði. ‘Afleiðingar upplausnarinnar’ fyrir flest okkar, voru þær að húsnæðislánin tvöfölduðust, margir misstu vinnuna, enn fleiri urðu gjaldþrota og sumir tóku líf sitt.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283