Sýningin Afrekskonur í Ráðhúsi Reykjavíkur er samspil margra ólíkra sýninga sem hafa verið settar upp og/eða eru yfirstandandi í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Markmiðið er að sýna gestum hvað konur á Íslandi hafa áorkað í gegnum tíðina og að þeir finni fyrir kvenorku inn að beini.
Ásýnd kvenna: Sýningin byggist á skjölum og ljósmyndum kvenna varðveittum á Borgarskjalasafni Reykjavíkur frá árunum 1910-1920 þegar konur voru að fá kosningarétt og kjörgengi. Ásýnd kvenna er ekki ætlað að rekja sögu kvenna, heldur fremur gefa áhorfandanum tilfinningu fyrir konum og lífi þeirra á þessum tíma.
Konur fylkja liði: Á þessari sýningu er gerð tilraun til að gera grein fyrir þeim fjölmörgu kvennahópum sem hafa haft áhrif á samfélagið með samstöðuna að vopni.
Konubókastofa gefur gestum tækifæri til að glugga í bækur um konur og eftir konur.
Í krakkahorninu er hægt að velta fyrir sér spurningum varðandi hlutverk kynjanna og leikföngum í því samhengi.
Kynleikar: Samsýning fjórtán listamanna. Listamennirnir fjalla í verkum sínum á ýmsan hátt um margbreytilegar hliðar femínismans og upplifun á sinni verund í femínísku samhengi. Mörk líkamans og sjálfið er kannað, sem og hugleiðingar um einstaklinginn í samfélagi sem mótar stöðugt kynin með einum eða öðrum hætti.
Konur í sögu bæjarins: Á sýningunni er gengið um þorpið Keflavík á fyrstu áratugum 20. aldar í fylgd Mörtu Valgerðar Jónsdóttur. Hún hafði þann hátt á að fara hús úr húsi og segja frá íbúunum eins og þeir komu henni fyrir sjónir í minningunni. Hún segir frá vinnu, áhugamálum, heilsu, útliti, persónuleika og atburðum í lífi þessa fólks. Afraksturinn er fjölbreyttur og sýnir þverskurð af samfélaginu.
Vér heilsum glaðar framtíðinni: Farandsýning Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafn sem sett er upp í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Árið 1915 var kosningaréttur rýmkaður verulega, en þá fengu allar konur og karlmenn 25 ára og eldri kosningarétt, þó með þeim takmörkunum að miða skyldi við 40 ára aldur kvennanna og þeirra karlamanna sem ekki höfðu kosningarétt áður.
Bronsstyttur borgarstjóra Reykjavíkur: Níu leikskólar í Reykjavík tóku þátt í verkefni með okkur þar sem þau bjuggu til hálsmen sem munu prýða borgarstjórana.
Veggir úr sögu kvenna: Sýning um sögu kvennabaráttunnar á Íslandi frá Kvenréttindafélagi Íslands.
Á meðan á sýningu stendur verður haldið áfram að safna afrekssögum af konum í gegnum netfangið afrekasyning@reykjavik.is og á www.afrekskonur.is. Sýningin verður opin í september og verða viðburðir allan mánuðinn tengdir afrekskonum. #afrekskonur
Sýningin stendur til 30. september og er opin alla daga vikunnar skv. opnunartíma Ráðhússins.