Bjarney Bjarnadóttir skrifar:
Ég hef verið að velta fyrir mér þessari umræðu með að stækka stúkuna í Laugardalnum og langar eiginlega bara að koma þessu frá mér. Ef KSÍ hefur tök á að eyða eigin peningum í þetta, þá frábært, go for it! En ef ekki, þá hef ég þetta að segja:
Eins og margir vita þá lést móðir mín fyrir mánuði síðan eftir stutt en erfið veikindi. En þegar maður hugsar til baka þá er margt sem hefði mátt betur fara og undir lokin þá höfðu þau atriði töluvert mikið vægi.
Hún vann í mörg ár í einu eldhúsi Landspítalans. Síðustu árin þá var hún að fá lungnabólgu mjög reglulega, sem við teljum að megi að einhverju leyti rekja til þess að eldhúsið var undirlagt í myglusvepp. Það hversu veikbyggð lungun voru, var mjög veigamikill þáttur í því að hún gat ekki undirgengist aðgerð sem hefði að öllum líkindum bjargað lífi hennar.
Síðustu árin var mamma mjög kvalin, var með mikla verki í baki og í rifbeinum. Iðulega var henni sagt að þetta væri gigtin/millirifjagigtin, og hún send heim með meira og sterkara íbúfen. Í vor kom það svo í ljós að hún var með krabbamein í hryggnum og var þrí-rifbeinsbrotin útaf meinvörpum. Hefði í alvörunni ekki verið hægt að splæsa á hana röntgenmyndatöku þarna einhvers staðar á leiðinni? Og nota bene, þetta uppgötvast EFTIR að hún var búin að fara í stóra aðgerð vegna brjóstakrabbameins, af hverju var ekki búið að athuga hvort það hefði dreift sér víðar? Ég er ekki viss um að hún hefði endilega lifað lengur, en hún hefði þá allavega ekki þurft að vera svona kvalin síðustu ár ævi sinnar.
Þegar hún lá inn á spítala síðustu vikurnar þá sá ég alveg að allir voru að gera sitt besta, en á meðan ástandið er svona, fjársvelti, undirmönnun og ofálag, þá er það besta bara ekki nógu gott. Það var ýmislegt sem mér fannst hefði mátt betur fara, en það er ekki við fólkið á gólfinu að sakast.
Ef forgangsröðunin verður í alvörunni sú að ráðist verður í að byggja nýja stúku á Laugardalsvellinum, af því að tvisvar til þrisvar á ári þá er hópur fólks rosalega bitur yfir að þurfa að horfa á leikinn í sjónvarpinu, frekar en að lappa upp á heilbrigðiskerfið, þá veit ég ekki hvort ég hafi hreinlega lyst á að búa hérna lengur.