Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Vangaveltur um fátækt og flóttafólk

$
0
0

Í ljósi umræðunnar um flóttafólk undanfarið þá langar mig að segja eftirfarandi:

Ég hef verið fátæk á Íslandi. Ég hef ekki haft efni á að fara með börnin mín til tannlæknis og ég hef þurft að minnka matarinnkaup til þess að geta keypt lyf handa þeim. Ég hef verið í þeirri aðstöðu að eiga yfirleitt aldrei fyrir nauðsynjum eftir miðjan mánuð og að hafa þurft að velja hvaða reikninga ég læt sitja á hakanum þennan mánuðinn.

Ég hef neitað sjálfri mér um flest allt til þess að eiga mat ofan í börnin mín og þau hafa misst af skólaferðum og afþreyingu vegna þess að ekki hefur verið til peningur. Ég hef misst húsið mitt á uppboði, fengið hnút í magann ef dyrabjöllunni var hringt eftir kvöldmat því þá var það líklega stefnuvottur vegna skuldar. Ég hef mætt of oft til sýslumanns í árangurslaust fjárnám og svona mætti lengi telja.

EN ÉG HEF EKKI þurft að skýla börnunum mínum frá byssukúlum, ég hef EKKI þurft að sofa með þau utandyra í stríðshrjáðu landi, ég hef EKKI þurft að ganga með svöng og veik börnin mín í fanginu í marga daga eigandi von á að vera skotin þá og þegar og ég hef EKKI lagt lífið í sölurnar til þess að komast til einhvers ókunnugs lands – já bara einhvers, til þess að bjarga lífi mínu og barnanna minna.

Hættum að bera saman okkar vandamál, sem vissulega eru til staðar, við þau vandamál sem blasa við flóttafólki frá þessum stríðshrjáðu löndum. Munum að þetta er fólk eins og við. Fólk sem er vant því að vinna fyrir sér, fólk sem var, eins og við, fyrir svo stuttu síðan í hefðbundnu strögli við að borga af íbúð, kaupa í matinn og hjálpa til við heimanám. Það er ekki verið að „flytja inn útlendinga sem eru bara að koma til að vera á bótum“ !

Hérna á öldum áður, þótti sjálfsagt að hjálpa þeim sem minna máttu sín. Fátæklingar og aðrir sem þurftu á að halda, voru teknir inn á heimilin, gefinn matur og einhver flík jafnvel þótt heimilisfólk ætti ekki mikið. Þarna var það manngæska sem réði ferðinni og sú grunnhugsun að setja ekki sínar þarfir ofar annarra.

Við erum rík þjóð þó svo að það sé ansi margt sem þarf að bæta og breyta í okkar samfélagi. En við erum bara að tala um, í þessu samhengi, vandamál af svo allt annarri stærðargráðu en okkar.

Við þá sem segja að við eigum fyrst að taka til heima hjá okkur áður en við förum að hjálpa öðrum, vil ég segja að ég er alveg sammála. Tökum til í okkur sjálfum og lítum inn á við, hvert og eitt okkar. Búum okkur til ný viðmið í forgangsröðun og þá sjáum við kannski að við erum vel aflögufær og að sum okkar þurftu bara aðeins að dusta rykið af kærleikanum og gera smá raunveruleikatékk.

Það er augljóst að þessi gamla hugsun um að hjálpa þeim sem minna mega sín er enn lifandi, það má greinilega sjá á ýmsum samfélagsmiðlum þar sem hundruðir manna hafa staðið upp og boðið fram aðstoð sína, heimili sín og síðast en ekki síst, boðið ást sína, umhyggju og kærleik.

Vel gert við!!!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283