Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Maður hjálpar ekki barni sem liggur á götunni „seinna“

$
0
0

Lítil stelpa blæs sápukúlur og hlær, hún komst til Búdapest frá Röszke í gær, móðir hennar segir að fjölskyldan verði vonandi komin til Austurríkis á morgun. Lestin ætti að leggja af stað snemma á morgun. Litla stelpan veit ekki í hvaða landi hún er og á ekkert nema þetta skemmtilega leikfang, og reyndar eitt í viðbót, það er að segja stimpilinn að vera flóttamaður.

Ég spyr mömmu hennar hvernig Röszke hafi verið, hún lítur undan og hristir höfuðið. Röszke er versti staður sem hún hefur komið til, á eftir Kobane, þar sem heimilið hennar var eitt sinn en varð að rústum einum.

12014972_10206981674316845_326197994787225405_o

Ungversk kona við hliðina á mér muldrar með sorgarrödd: „Þessi litla stúlka ætti löngu að vera komin í háttinn.“ Öll börn sem eru hér ættu að vera á allt öðrum stað, að leika sér í garðinum, á íþróttaæfingu eða að æfa sig að telja í fangi foreldra sinna.

Sjálfboðaliðar eru á fullu að sortera föt og skó. Ung stelpa skoðar vandlega hvaða skópar hún ætti að velja sér og mátar þau. Hún sýnir systur sinni og þær flissa og hlaupa til foreldra sinna, ánægðar með rautt skópar. Óhreinan fatnað taka sjálfboðaliðar með sér heim til að þvo og þurrka því flóttafólkið streymir að stöðinni blautt og þreytt.

11951718_10206981676636903_2534997042347079521_o

Ungversk heimilislaus kona er þar líka, hún er feimin og vill ekki taka frá flóttamönnum en sjálfboðaliði labbar til hennar og hjálpar henni að finna eitthvað notfæft í hennar stærð. Annar sjálfboðaliði, kona leitar að barnaskóm, móðir eins barns er hrædd við að koma og leita sjálf. En fólkið hjálpar henni og þó þau hafi ekkert sameiginlegt tungumál þá brosa þau. Því það er hægt að hjálpa bæði flóttamönnum og þeim sem búa hér fyrir, það þarf ekki að vera bara annar hópurinn. Oftast eru það einmitt þau sem hjálpa flóttamönnum sem aðstoða samlanda sem þurfa á hjálp að halda.

Við það fólk sem röflar um að hér sé ekkert stórmál á ferðinni, engar hörmungar, þá mæli ég með því að það kaupi flugmiða til Búdapest og sjái að fátækt á Íslandi er ekki í líkingu við það sem þau upplifa.

11227959_10206981685997137_2246936225408122676_o

Samstaða þeirra sem vilja hjálpa er mikil, þó það sé ekki nema nokkur kíló af eplum sem gömul kona kemur með, eða hársnyrtir að klippa frítt allan daginn svo tíminn líði hraðar fyrir þá sem bíða eftir lestinni. Margir koma með stóra flutningabíla af teppum, fötum og mat, allir reyna að hjálpa til. Því gott fólk er að finna alstaðar.

En sjálfboðaliðarnir eru einir, engin stofnun eða samtök bakvið þá, og maður er hættur að spyrja sig hvar stjórnvöld séu. Þau líta á flóttafólk sem skepnur eða tækifæri til að bæta fylgi sitt. Mannúð og góðvild hafa þau ekki. Þetta óendanlega hatur og mannvonska lýsir þeim sjálfum. Þetta lýsir þeirra innra manni, þau sýna enga miskunn og vægð gagnvart fólki sem ekki er frá sama landi og þau.

12017488_10206981687597177_4626334417702366305_o

Barnalæknir sem ég þekki fór daglega að lestarstöðvum Búdapest til að hlúa að fólki. Þegar hlutirnir versnuðu í Röszke keyrði hún niðureftir. Henni var meinaður aðgangur að flóttamannabúðunum. Flóttafólk reynir allt til að komast hjá því að fara í búðirnar og þá er þeim hleypt á ekrur sem líkjast mest drullusvaði. Hún labbaði í áttina til fólksins en lögreglumennirnir bentu henni á að fara ekki nálægt þeim: „Þau munu rífa þig í tætlur.“ Hún hlustaði ekki á þá og sinnti sínum siðferðislegu skyldum.

Ofan á þær ómannúðlegu aðstæður sem eru í Röszke bætist við illska margra borgara. Þeir gefa flóttafólki appelsínusafa blandað með hægðalyfi og hóta fólki sem hjálpar þeim, útnefna lögreglumenn sem spreyja piparúða á börn hetjur þjóðarinnar.

Lögreglan drottnar yfir flóttamannabúðunum, þangað fá blaðamenn og læknar ekki að fara. Einu uplýsingarnar sem síast úr búðunum eru með hjálp falinna myndavéla. Þau myndbönd eru ekki glæsileg, yfirráð lögreglunnar eru algjör og hún sýnir flóttafólki enga samúð.

Ég fæddist í einu landi, ólst upp í öðru og varð ástfangin af því þriðja. Hvaðan er ég þá? Hvers lensk er ég? Ég veit það ekki sjálf og það skiptir mig í raun engu máli. Ég vel ekki vini mína eftir þjóðerni, mínir bestu vinir koma frá mjög mismunandi löndum og menningarheimum. Þau eiga þó eitt sameiginlegt: að vera mannvinir.

Þetta snýst ekki um að flokka fólk eftir því hvar það fæðist eða hvernig það er á litinn. Heldur um að átta sig á því að það er samfélagsleg skylda okkar allra að hjálpa fólki í neyð.

11953364_10206981675316870_3044793349753055145_o

Undanfarnar vikur hef ég komist að því hverja er vert að þekkja og hverja ekki. Fólk röflar um að frekar ætti að hjálpa fólkinu heima, en ef þú sérð sveltandi barn í blautum fötum að krókna úr kulda, skiptir þá máli hvort þú sérð þetta barn í Reykjavík eða í sumarfríinu þínu erlendis? Spyrðu barnið hvaðan það sé? Hjálparðu bara ef barnið er íslenskt en horfir annars í hina áttina og labbar áfram?

Ég upplifi þessa sorg og vonleysi fólks á staðnum. Það er ekkert sjónvarp á milli veruleikans og mín, þetta gerist í „beinni“. Ég get ekki slökkt á fréttatímanum og gert eitthvað annað. Því hörmungarnir gerast hér og nú, og maður bíður ekki með að rétta hjálparhönd ef hún þarf að berast um leið.

11935162_10206981683957086_7997058482856014931_o

Maður hjálpar ekki barni sem liggur á götunni „seinna“, því ef litla barnið fær ekki hlý föt NÚNA þá lifir það nóttina ekki af.

Barnið mun deyja, vegna þess að við sögðum: „Æ, við hjálpum bara á morgun – eða þegar það hentar okkur.“

Eitt það mikilvægasta sem ég hef lært þessar vikur er að það er miklu betra að gefa en þiggja. Að veita hjálparhönd er ein besta tilfinning sem til er, og vonandi munu sem flestir upplifa þá tilfinningu.

 

Lesið meira eftir Önnu hér. Anna Dalmay er ungversk en ólst upp á Íslandi. Anna er í Ungverjalandi um þessar mundir og starfar með sjálfboðaliðum sem liðsinna flóttafólki þar. Anna hyggst safna fjármunum á Íslandi til að geta betur aðstoðað fólk á flótta og munum við flytja ykkur fréttir af þeirri söfnun og því hvernig hægt er að leggja störfum hennar lið. 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283