Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ég elska hljóðbækur

$
0
0

Nú er nýliðinn bókasafnsdagur og því langar mig að nefna að ég er mikill bókaormur og sæki því bókasafnið reglulega auk þess sem ég kaupi alltaf slatta af bókum mest megnis til gjafa handa vinum og vandamönnum.

Eins og flestar íslenskar konur er ég önnum kafin það gerir atvinnuþátttakan, heimilisstörfin, fjölskyldan, líkamsræktin og hin ýmsu félagsstörf. Þess vegna hef ég takmarkaðan tíma til lestrar á öllum þeim fjölda sem út kemur af góðum bókum ár hvert.

Ég kynntist Hljóðbókasafninu eða Blindrabókasafninu eins og það hét áður fyrir mörgum árum vegna þess að barnið mitt er lesblint. Það átti rétt á að fá námsefnið á hljóðbók og svo gat það líka fengið hljóðbók til að hlusta sér til ánægju. En það var ekki bara barnið sem hlustaði, öll fjölskyldan naut bókmenntanna, barnabóka jafnt sem annarra fagurbókmennta. Nú er barnið mitt fullorðið og flutt að heiman og enginn rétthafi að Hljóðbókasafni Íslands lengur á mínu heimili.

Nokkrar bækur eru gefnar út í formi hljóðbóka ár hvert en þær eru allt of fáar. Á bókasafninu sem ég sæki er einn lítill rekki með hljóðbókum og er ég fyrir löngu búin að hlusta á allar áhugaverðar bækur þar. Hljóðbókasafn Íslands gefur út nær allar bækur sem út koma hvert ár, en þar á ég ekki rétt vegna þess að ég hef ágætis sjón og er vel læs. Ég er sæmilega laus við athyglisbrest og er hvorki gömul, né fötluð.

Stærsti kostur hljóðbóka er að þeirra er hægt að njóta á meðan heimilisstörfin, eru unnin, líkamsræktin stunduð, við akstur á milli staða og ekki síðst þegar unnin eru hin ýmsu einhæfu verkamannastörf. Nú er ég á leið í berjamó og hef ekkert nýtt að hlusta á en ég á Dísusögu eftir Vigdísi Grímsdóttur, keypta af Skynjun sem er fyrirtæki er selur bækur á rafrænu formi.

Hljóðbókasafn Íslands er fyrirtæki sem þyrfti að nýta miklu betur fyrir allan almenning og þá að sjálfsögðu gegn sanngjörnu verði þannig að höfundar og lesarar nytu góðs af. Ég gæti vel hugsað mér að greiða í árgjald réttmæta upphæð sem gæti t.d.verið 10 – 20 þúsund krónur á ári. Tæknin býður og er löngu tilbúin. Nú þurfa Hljóðbókasafn Íslands og Rithöfundasafn Íslands að nútímavæðast og tengjast almenningi í landinu á réttan hátt.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283