Ásta Guðrún Helgadóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarps þingflokks Pírata um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Um er að ræða frumvarp um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð sem gerir ráð fyrir að refsivert verði fyrir ráðherra að gefa Alþingi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum í máli sem Alþingi hefur til meðferðar og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á því. Frumvarpið var fyrst lagt fram á síðasta þingi af Jóni Þór Ólafssyni en nú tekur Ásta að sér að fylgja því eftir.
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.:
Markmið þessa frumvarps er að festa upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi betur í sessi en ráðherrar starfa í umboði Alþingis. Ráðherraábyrgð skiptist í tvennt þ.e. annars vegar svokölluð lagaleg ábyrgð en í henni felst refsi- og bótaábyrgð ráðherra vegna embættisverka þeirra. Hins vegar hin svokallaða pólitíska eða þinglega ábyrgð sem byggist á þingræðisreglunni. Í henni felst að Alþingi getur fundið að embættisfærslu ráðherra eða samþykkt á hann vantraust, sem leiðir þá til þess að hann verður að víkja
Lög um ráðherraábyrgð ná ekki til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá, gefur því villandi upplýsingar eða leynir það upplýsingum við meðferð máls. Ráðherrar hafa því ekki nauðsynlegt aðhald og geta freistast til að gefa Alþingi rangar upplýsingar eða setja þær fram á villandi hátt eða leyna það mikilvægum upplýsingum. Þetta getur leitt til óvandaðrar meðferðar mála og orsakað fullkominn trúnaðarbrest milli Alþingis og ráðherra. Verði frumvarpið að lögum verður refsivert fyrir ráðherra að gefa Alþingi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Í þessu felast tvær reglur. Fyrri málsliður 2. gr. frumvarpsins varðar nákvæmni þeirra upplýsinga sem þingmenn eða þingnefndir kalla eftir hjá ráðherra og getur varðað hvaða opinbera málefni sem er án þess að vera bundið við tiltekið þingmál sem til meðferðar er á Alþingi. Samkvæmt ákvæðinu er lagt til að refsivert verði að svara fyrirspurnum og öðrum upplýsingabeiðnum með villandi eða röngum upplýsingum. Síðari málsliður 2. gr. varðar upplýsingar sem ráðherra ber að veita að eigin frumkvæði og hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi og er lagt til að refsivert verði að leyna upplýsingum sem honum ber að veita af þessu tilefni.
Frumvarpið í heild: Upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.