Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fýlubíllinn Volkswagen

$
0
0

UPPFÆRT: Martin Winterkorn, aðalforstjóri Volkswagen, sagði upp störfum síðdegis. Rúv greindi frá.

Bílaframleiðandinn Volkswagen hefur viðurkennt að hafa svindlað á mengunarprófum fyrir a.m.k. 11 milljón bíla um allan heim. Ekki fæst enn upp gefið hvar svindlbílarnir voru seldir en ljóst er að þá er að finna víða í Evrópu, auk Bandaríkjanna, sem afhjúpuðu þessi einstæðu afglöp.

Umhverfisstofnun Bandaríkjann (EPA) hefur þegar fyrirskipað VW að innkalla um 500.000 bíla af eftirtöldum tegundum og árgerðum:

Golf (2010-’15)
Passat (2012-’15)
Jetta (2009-’15)
Bjalla (2012-’15)
Audi A3 (2010-’15)

Allar þessar gerðir eru búnar 2ja lítra EA-189 dísilvél með stjórntölvu sem virðist hafa verið breytt til að falsa niðurstöður mengunarmælinga. Sérstakur hugbúnaður skynjar þegar verið er að mæla útblástur vélarinnar og setur mengunarvarnir hennar á full afköst. Í þessum ham er vélin einhver hreinasta dísilvél heims. En um leið og mælingu er lokið dregur tölvan úr mengunarvörnum, vélin losar allt að 40 sinnum meira magn nituroxíðs (NO og NO2) og stenst ekki lengur kröfur EPA.

Forstjóri Volkswagen hefur kallað svindlið „slæm mistök fárra starfsmanna“ og biður um áframhaldandi traust.

Forstjóri Volkswagen hefur kallað svindlið „slæm mistök fárra starfsmanna“ og biður um áframhaldandi traust.

Markmiðið með þessum æfingum var að gera vélina öflugri, sprækari og endingarbetri. Búnaðurinn sem hreinsar eitraðar lofttegundir úr útblæstrinum dregur úr afli vélarinnar og minnkar snerpu, þannig að hönnuðir VW ákváðu einfaldlega að slökkva næstum alveg á honum nema þegar verið væri að mæla bílinn.

Nituroxíð (NO og NO2) eru eitraðar lofttegundir sem valda ósonmengun (súru lyktinni á götum stórborga), ertingu í öndunarfærum, astma, lungnaþembu og öðrum kvillum.

Svindlið er hrikalegt áfall fyrir Volkswagen, sem hafa lagt áherslu á umhverfisvæna ímynd og samfélagslega ábyrgan rekstur. Búast má við holskeflu málaferla, sekta, skaðabóta og innkallana víða um lönd með tilheyrandi kostnaði og álitshnekki. VW hefur þegar eyrnamerkt 6,5 milljarða evra (um 930 milljarða króna) til að standa straum af lagfæringum og sektum og hlutabréf í fyrirtækinu hafa fallið um meira en 30% frá því á föstudag. Flest bendir til að dagar forstjórans, Martins Winterkorn, séu taldir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283