Eitt virðist sameina alla flokka í íslenskum stjórnmálum; sú djúpstæða trú að Sjálfstæðismenn séu réttbornir til valda. Sniðgöngumálið sýnir þetta svart á hvítu. Íhaldsflokkarnir, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn, settu allt í gang. Pískuðu upp spuna og lygar, beittu fyrir sig kerfinu, fjölmiðlunum sínum og fyrirtækjum. Dagur B. Eggertsson brást ekki við með því að standa fast á sínu. Hann benti ekki á glæpi Ísraelsríkis eða hræsni Sjálfstæðismanna þegar kemur að frjálsum viðskiptum. Vitnaði ekki til þeirrar staðreyndar að Ísland viðurkennir Palestínu sem sjálfstætt ríki og ætti því að sjálfsögðu ekki að láta innrásaher annars ríki afskiptalausan. Í staðinn leyfði hann andstæðingum að skilgreina umræðuna. Stökk á vagninn og sagði tillöguna illa undirbúna, misskilda og að ætlunin hafi verið önnur. Lyppaðist einfaldlega niður. Að sjálfsögðu á Dagur að segja af sér fyrir klúðrið.
Þáttur ríkisstjórnarinnar í málinu er þó sóðalegri. Í lýðræðisríki væri iðnaðaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra ekki stætt. Utanríkisráðherra fyrir að fara gegn utanríkisstefnu samþykktri af Alþingi – og honum sjálfum. Forsætisráðherra fyrir að fara langt út fyrir valdsvið sitt, fabúlera og tala gegn utanríkistefnu landsins. Og síðast en ekki síst iðnaðarráðherra sem var fljót til fabúleringa en lítið til í að nefna raunveruleg dæmi. Sem betur fer hafa Íslendingar ekki valið braut þess pólitíska óstöðuleika sem fylgir ábyrgum ráðherrum sem starfa í umboði löggjafans. Þau eru því örugg, þrátt fyrir að hafa miskunnarlaust beitt stöðu sinni í flokkspólitískum tilgangi.
Mistök Dags og meirihlutans felast fyrst og fremst í því að þau eru aular. Það er hreint út sagt ótrúlegt að þau hafi haldið að hægt væri að samþykkja slíka ályktun án þess að slíku fylgdi herferð á móti. Sniðganga virkar og í tilfelli Ísraels hafa slíkar aðgerðir þegar haft gríðarleg áhrif. Ísrael eyðir miklu fé og pólitískum áhrifum til að vinna gegn þeim. Reykjavíkurborg hefur unnið gríðarlegan skaða með því að draga ályktunina til baka. Það er uppgjöf og áfall fyrir Sniðgönguhreyfinguna, BDS, sem hefur hingað til mátt þola hreint út sagt ótrúlegar árásir af hálfu Ísraela.
Reykjavíkurborg er nú fyrirmynd fyrir Ísrael um hvernig brjóta skuli beinar aðgerðir á bak aftur. Árum saman var samúð með málstað Palestínumanna útmáluð sem öfgafull vinstriskoðun á jaðri íslenskra stjórnmála. Hætt er við að viðbrögð borgarstjórnarmeirihlutans verði til þess að opna aftur á slíka narratífu.
Fyrir það á Dagur að segja af sér og meirihlutinn að skammast sín.
Vert að muna
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi gegnt hlutverki Ísrael-lobbýs Íslands. Söguleg tengsl flokksins við Ísrael eru svo mikil að Sjálfstæðisflokkurinn var í raun gerandi í stofnun ríkisins. Árið 1947 var Ísland eitt þeirra ríkja sem ljáðu skiptingu bresku Palestínu stuðning sinn. Svæðinu yrði skipt í ríki gyðinga annars vegar og ríki araba hins vegar. Tillagan var borin upp og samþykkt 29. október 1947. Ísland og Ísrael áttu náin og vinsamleg samskipti næstu árin og lengi vel voru Íslendingar meðal helstu stuðningsmanna Ísraelsríkis. Í sáttanefnd um Palestínu í kringum stofnun Ísraels sat Thor Thors, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann var framsögumaður niðurstöðu nefndarinnar. Thor var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 1933 til 1941. Flokkurinn hefur alltaf staðið með Ísrael í allri sinni pólitík.
Árið 2011 lýsti Alþingi yfir viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu og utanríkisstefna landsins á að taka mið að því. Íslensk utanríkisstefna segir semsagt að Palestína sé fullvalda og sjálfstætt ríki. Þar af leiðir að opinber afstaða Íslands er að Ísrael sé innrásaríki og að hernám Ísraels sé brot gegn fullveldi Palestínu. Einn flokkur greiddi ekki atkvæði með viðurkenningunni: Sjálfstæðisflokkurinn sem sat hjá. Formaður flokksins sagði við umræður að hann teldi nokkuð halla á málstað Ísrael í umræðunni.
Þótt vissulega séu nokkur ár síðan samþykktin fór í gegn er þetta enn utanríkisstefna Íslands. Það er því hreint út sagt ótrúlegt að stjórnarflokkarnir tveir hafi leyft sér að nota utanríkisráðuneytisvefinn til að lýsa sniðgöngutillöguna í andstöðu við íslenska utanríkisstefnu. Í fyrsta lagi er það efnislega rangt og ennfremur kjaftæði á tæknilegum forsendum. Innkaupastefna sveitastjórnarstigsins er ekki mótuð af utanríkisstefnu landsins. Sniðganga sveitarfélaga kemur málinu því varla við. Þá eru þvingunaraðgerðir almennt hluti af utanríkisstefnu Íslands. Í þriðja lagi er Palestína sjálfstætt og fullvalda ríki samkvæmt íslenskri utanríkisstefnu. Það leiðir af sér að Ísrael er innrásar- og hersetuland. Það er ekkert kannski, mögulega og ef til vill um það.
Stjórnarandstaðan hlýtur að gera mál úr því á Alþingi og spyrja hvers vegna Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra heimilaði slíka yfirlýsingu. Við það tækifæri er ágætt að muna að ráðherrar eiga að fylgja boðum Alþingis. Íhaldsflokkarnir tveir hafa þó aldrei haft sérstaka trú á því og Gunnar Bragi hefur reyndar gengið hvað lengst í þeim málum. Sjálfstæðismenn hafa svo ítrekað opinberað virðingarleysi sitt fyrir lýðræði og stjórnskipan í tengslum við landsdómsmálið þar sem Geir H. Haarde var dæmdur fyrir brot á stjórnarskrá. Í höndum Sjálfstæðismanna hefur það orðið að einhverju fáránlegu formsatriði sem engu skipti. Annað dæmi er svo algjört virðingarleysi flokksins gagnvart nýrri stjórnarskrá.
Næst var það svo ríkisstjórnin í heild sem lýsti sig í andstöðu við sniðgönguna. Ríkisstjórnin sem tók lengsta sumarfrí ríkisstjórnar í áratugi sá ástæðu til að senda út tvær fréttatilkynningar til að gagnrýna málið, þar á meðal eina eftir sérstakan fund á laugardagsmorgni.
Árið 2011 var Ísrael ekkert sérstaklega sátt við viðurkenningu á fullveldi Palestínu. Þá eins og núna voru stuðningsmenn Palestínu sakaðir um gyðingahatur og hroka. Árið 2012 tók Shimon Peres, þá forseti Ísrael, það sérstaklega fram að samskipti Íslands og Ísrael væru í kaldara lagi er hann tók við trúnaðarbréfi sendiherra Íslands gagnvart Ísrael. Hann bætti við að færi væri til að bæta úr því. Viðurkenning Alþingis á sjálfstæði Palestínu ári áður hafði ekki orðið til þess að sætta Ísraelsmenn sérstaklega.
Sjálfstæðisflokkurinn er að hluta kristilegt stjórnmálaafl
Hvítvínsþambandi humarætur í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins vilja iðulega ekki kannast við að Sjálfstæðisflokkurinn séu kristin stjórnmálasamtök. Slíkt þykir auðvitað ferlega lummó og ónútímalegt í dag. Þeir sem ekki aðhyllast afneitunarisma í stjórnmálum þekkja hins vegar áhrif trúarinnar innan flokksins. Innan flokksins starfar áhrifamikil kristin fylking og þrátt fyrir að mikið hafi verið gert úr því að ályktun um kristin gildi sem ramma lagasetningar í landinu hafi verið samþykkt en svo felld seinna á landsfundi 2013 þá fór minna fyrir því að kristin gildi standa enn í ályktun flokksins. „Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá,“ segir í trúmálaályktun allsherjar- og menntamálanefndar flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins að hluta flokkur veraldarhyggju.
Trúarbrögð, einkabíllinn og snjómokstur eru málefni sem trylla grasrót flokksins í Reykjavík. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur sjálfur fengið að finna fyrir því vegna stefnu núverandi meirihluta gegn óheftu aðgengi kirkjunnar manna að grunnskólabörnum. Þess vegna er óskiljanlegt að meirihlutinn hafi ekki verið undir það búinn að samþykktinni yrði svarað af fullri hörku.
Auðvitað lýkur pólitískri afgreiðslu sniðgönguályktunarinnar ekki með atkvæðagreiðslu í borgarstjórn.
Þáttur Bjarkar Vilhelmsdóttur
Unnið hefur verið að tillögu um sniðgöngu í marga mánuði. Það að breyta slíkri samþykkt í eitthvert skraut fyrir fráfarandi borgarfulltrúa er fullkomnlega óeðlilegt. Ég efast um að almenningur sé skotinn í slíkri stjórnsýslu. Björk skildi borgarfulltrúa eftir í súpunni. Erfitt er að ímynda sér að Björk hafi ekki gert sér grein fyrir að slíkri ályktun yrði svarað og það að hörku. Um leið afhjúpaði Björk raunar hvað borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar er einangraður og vanur því að tengja framhjá flokknum sínum. Hvers vegna var tillaga sem þessi ekki borin undir bakland borgarfulltrúanna? Hvenær var málefnafundur um þessa afstöðu haldinn hjá Samfylkingunni? Björk fer úr stjórnmálum eins og hún kom inn í þau – sem einyrki. Við búum við fulltrúalýðræði á Íslandi en ekki beint lýðræði. Að tengja framhjá flokkunum sem kjörnir fulltrúar starfa fyrir er því beinlínis brot á samningnum. Það er ekkert lýðræðislegt við að vinna stefnumótunarvinnu utan flokkanna í losaralegum samtökum út í bæ. Á meðan við búum við flokkakerfi og fulltrúalýðræði á að vera hægt að ganga út frá því að stefnumótunarvinnan fari fram í flokkunum. Það þarf svo engan Machiavelli til að átta sig á að þegar samþykkja á tillögur sem þessa er ágætt að hafa flokkinn með sér og já, gera ráð fyrir að vera sjálf í vinnunni næstu daga. Björk ákvað hins vegar að tilkynna samþykktina í fjölmiðlum sem sína síðustu og skella í atkvæðagreiðslu sinn síðasta dag. Borgarstjórnarmeirihlutinn samþykkti tillöguna nánast sem virðingavott við störf Bjarkar án mikillar umhugsunar. Þetta eru ótrúleg vinnubrögð! Um síðustu helgi var svo haldinn flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar. Flokkstjórn er æðsta vald flokksins milli landsfunda. Sá fundur fór fram líkt og samþykktin hafi ekki átt sér stað. Hvarflaði virkilega ekki að Samfylkingunni að samþykkja stuðningsyfirlýsingu? Þrátt fyrir allt fúskið í kringum málið er líkt og flokkurinn hafi enn trúað því að hann stæði utan málsins.
Sniðgönguhreyfingin og Ísrael
RT: A national student group in Britain that voted to boycott Israel – refused to boycott ISIS. This is BDS.
— Benjamin Netanyahu (@netanyahu) June 3, 2015
Sniðgönguhreyfingin hefur undanfarið ár náð miklum árangri víða um heim. Hreyfingin hefur ekki aðeins náð eyrum ábyrgra neytenda heldur yfirvalda – og það sem verst kemur niður á Ísrael – kirkjur, háskólar og fjárfestingasjóðir eru farin að hlusta. Bandarískir háskólar léku á sínum tíma mikilvægt hlutverk í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku. Þeir eiga mikla sjóði sem þeim er ætlað að fjárfesta með. Þegar nemendur stærri háskóla tóku að krefjast þess að skólarnir drægju fé út úr fyrirtækjum með tengsl við Suður-Afríku hafði það veruleg áhrif á suðurafrísk stjórnvöld í átt að afnámi aðskilnaðarstefnunnar. Viðbrögð Ísraels við árangri Sniðgönguhreyfingarinnar, BDS, hafa aukist jafnt og þétt. Í mars notaði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, opinbera heimsókn til Kanada sem tækifæri til að ljúga því upp á bresk stúdentasamtök, sem samþykkt höfðu sniðgöngu á Ísrael, að samtökin hefðu neitað að samþykkja samskonar sniðgöngu gegn ISIS. Netanyahu endurtók lygina á Twitter. Hið rétta er að í september 2014 var ályktun um stuðning til handa Kúrdum til umræðu á fundi samtakanna. Sú tillaga var felld með þeim skilyrðum að hún skyldi endurrituð og borin upp á næsta fundi. Ástæðan var sú að tillagan var sögð hvetja nemendur til að njósna hver um annan. Virkar fáránlegt í íslenskum veruleika en njósnir eru mjög í tísku hjá Bretum þegar kemur að öllu sem viðkemur múslimum.
Fáránlegt og ekki fáránlegt í íslensku samhengi… tja? Þeir eru reyndar til þingmenn íhaldsins sem vilja njósna smá um ‘múslimista’ Aðrir vilja reyndar bara skella öklabandi á hælisleitendur. Þá þarf sko enga fjandans rannsókn.
Í desember samþykktu stúdentasamtökin svo stuðning til handa Kúrdum þar sem ISIS var fordæmt og um leið aðrir sem brotið hafa á réttindum Kúrda en berjast nú gegn ISIS.
Borgarstjórnarmeirihlutinn átti að læra af þessu atviki og öðrum svipuðum. Fyrst forsætisráðherra Ísrael nennir að eyða tíma sínum í að ljúga upp á og jaðarsetja hóp stúdenta við öll tækifæri og jafnvel í opinberum heimsóknum erlendis þá er auðvitað augljóst að ísraelsk yfirvöld og tengdir þrýstihópar nenna að spyrna gegn sniðgöngu höfuðborgar.
Ógeðsleg stjórnmál
Sniðgöngumálið sýnir líka hvers skonar ógeðsstjórnmál fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna eru tilbúnir að stunda. Öllu var teflt fram. Fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og dósent við Háskóla Íslands mætti í fjölmiðla og talaði um barnaskap. Það skal tekið fram að Stefanía Óskarsdóttir talar hér sem stjórnmálafræðingur og að mínu viti er greiningin rétt. Auðvitað var þetta barnaskapur! Það er hins vegar rétt að benda á þessi tengsl fyrst RÚV sá enga ástæðu til að gera það. Morgunblaðið, undir stjórn Davíðs Oddssonar, fór hamförum með hverri frétt á eftir annarri af öllum hliðum málsins – eða hvað? Blaðinu tókst af ótrúlegri natni að þefa uppi alla þá sem fundu tillögunni eitthvað til foráttu en minntist varla á þá sem henni fögnuðu. Ögmundur Jónason átti greiðan aðgang að Morgunblaðinu í andstöðu sinni við Icesave en því var ekki að skipta hér. Morgunblaðið einbeitti sér að neikvæðum landsbyggðafréttum, kjarkleysi borgarstjórnarinnar (sem passaði vel í áróðursstríðið), hvað Brynjar Nílesson var ósáttur, og hvað Brynjari Níelssyni fannst aftur um málið, að hinn bandarísk íslenski Einstök-bjór yrði fjarlægður úr sölu einstakra verslana, og svo var auðvitað að fjalla um #boycottIceland. Sú frétt er reyndar nokkuð merkileg því á þeim tíma sem hún var skrifuð mátti finna fleiri tvít um Íslandssniðgöngu vegna hvalveiða en Ísrael. Morgunblaðið hefur þó engan sérstakan áhuga á skaðlegum áhrifum hvalveiða á ímynd Íslands. Auðvitað varð svo að heyra í sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, sem fann fyrir álagi í vinnunni. Nýstofnuð Facebook-síða gegn sniðgöngunni fékk athygli en hana stofnaði Ívar Halldórsson, útvarpsmaður á Bylgjunni. Ívar segist í fréttinni ekki hafa nein bein tengsl við Ísrael en eigi nokkra vini þaðan. Nú má vera að bein tengsl séu ekki til staðar en Ívar hefur nú verið nokkuð virkur í að dreifa boðskap Ísrael á netinu undanfarin ár. Síðan ógurlega hefur í dag um 1200 meðlimi – það var nú allt læk-fljótið. Minni áhuga hafði Morgunblaðið á bréfi Ísraela sem kvöttu borgina til að draga sniðgönguna ekki til baka*. Séum við að telja læk sem einhverja pólitíska mælistiku má svo benda á að íslenska sniðgönguhreyfingin hefur rúmlega tvöfalt fleiri læk en vandlætingarherferðin gegn ályktuninni.
Það er ekki nóg að málgagnið sé í herferð, og allar mögulegar og ómögulegar kanónur séu dregnar fram, Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kallaði meirihlutann nasista í nafni góðrar stjórnsýslu, auðvitað. Svona bulli á að svara af hörku og ekki bara í andsvari á borgarstjórnarfundi. Auðvitað á látunum ekki að linna fyrr en Áslaug hefur beðist afsökunar og forusta flokksins hennar með.
Kurteisi í einu landi
Íhaldsflokkarnir hafa árum saman stundað þann leik að saka alla aðra um ókurteisi en stunda sjálfir ógeðslega tuddapólitík. Á sama tíma og fulltrúar Framsóknarflokksins gráta einelti stunda þær miskunarlaust að jaðarsetja minnihlutahópa. Taka þátt í herferð gegn öryrkjum og útlendingum og nota hvert tækifæri til að snúa út úr og skekkja. Íhaldið er með þráhyggju yfir ókurteisi á samfélagsmiðlum en þó aðeins þegar það hentar eigin málstað – semsagt þegar þau þefa vinstrislagsíðu í meintri ókurteisi. Alltaf skulu vinstriflokkarnir spila með þessum skilyrta tilvistarrétti. Sjálfstæðismenn börðust í heilt ár – og berjast enn – við að verja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, í einhverri ömurlegustu valdníðslu seinni ára en Samfylking, Björt Framtíð, VG og Píratar börðust ekki gegn mannréttindabrotum Ísrael í meira en viku. Forysta Samfylkingarinnar, VG og Bjartrar Framtíðar ættu að velta fyrir sér hvort hörmulegt gengi flokkanna geti haft eitthvað með það að gera að þau standa ekki nægilega á sínu. Nú á það víst að vera ótrúlega gamaldags og lummó pólitík að standa á sínu – ég veit, ég veit. Ég held samt að fólk nenni einfaldlega ekki að vera endalaust í lúseraliðinu. Píratar ættu svo um leið að velta fyrir sér hvort endalaus uppgjöf sé líkleg til að viðhalda stuðningi við flokkinn.
Meintar breytingar á utanríkisstefnu
Alvarlegast er hvernig íhaldsflokkunum tveimur var heimilað án raunverulegrar áskorunar að endurskilgreina íslenska utanríkisstefnu. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fékk að fabúlera um að refsiaðgerðir og sniðgöngur virkuðu ekki heldur frjáls viðskipti. Þessu hefði auðvitað átt að svara fullum hálsi. Í fyrsta lagi eru refsiaðgerðir hluti af utanríkisstefnu Íslands en rúmlega 30 ríki falla undir slíkar aðgerðir. Það eru friðsamlegar aðgerðir en ekki stríðsyfirlýsing eins og hægrihaukarnir vilja meina. Skárra væri það nú ef herlaust Ísland væri í stöðugum stríðsyfirlýsingum um allan heim. Það er einmitt vegna þess að frjáls viðskipti eru hvetjandi sem viðskiptaþvinganir virka – sóknina eftir þeim má vel nýta til aukinna mannréttinda. Það þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti því að mannréttindum og bisness sé blandað saman. Í tilfelli Halldórs er þessi afstaða í sniðgöngumálinu sérstaklega heimskuleg þar sem hann er jú formaður Sambands sveitarfélaga sem árum saman hefur stundað eigin utanríkisstefnu og rekið ‘sendiskrifstofu’ í Brussel. Það er enda í samræmi við þá staðreynd að íslensk sveitarfélög eru því sem næst meðlimir ESB. Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar kallaði Halldór þetta að „naga þröskulda„ í Brussel.
Ef íslenska vinstrið tryði því ekki að Sjálfstæðismenn ættu í raun heimtingu á að stjórna umræðunni væri flokkurinn undir miskunarlausum árásum fyrir hræsnisfulla afstöðu sína gegn frjálsum viðskiptum og endalausa hentistefnu í utanríkismálum. Flokkurinn væri líka stundum krafinn svara um hvers vegna frelsiselskandi þingmenn samþykktu lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingana þvert á þá tiltrú sína að slíkar aðgerðir virki ekki neitt.
Vinstrið gæti um leið tekið sig til og spurt hvers vegna Sjálfstæðismenn trúa því svo innilega að viðskiptaþvinganir og sniðgöngur virki ekki neitt í ljósi þess að þeir gefa sig alltaf ef fréttist af slíku gagnvart Íslandi? Er Sjálfstæðisflokkurinn eina stjórnmálaafl heimsins sem telur efnagsþvinganir slæmar? Flokkurinn ætlaði að missa vitið yfir því þegar Rússar hættu að kaupa fisk frá Íslandi. Hvernig komast þeir upp með þessa hræsni? Trúa retórískt ekki á sniðgöngur og viðskiptabönn en eru svo sjálfir sönnun þess að slíkur þrýstingur virkar og það hratt. Í Ísraelsniðgöngunni ætlaði svo allt um koll að keyra vegna afbókunar hjá WOW-Air og hættu á minni sölu bjórs. Samt er það nú svo að svona þvinganir virka bara ekki neitt sko – hafa engin teljandi áhrif.
Semsagt flokkur sem áratugum saman hefur boðað einkavæðingu, hernaðarsinnaða utanríkisstefnu og kjörbúðalýðræði telur að máttur sniðgöngu sé raunar enginn. Viðbrögð vinstrisins er að jánka og draga tillöguna til baka en ekki að efast um hryggjarstykkið í frjálshyggju flokksins. Það að kjósa megi með veskinu…
Íhaldið kann að djöflast
Íhaldið kann þá list að djöflast. Flokkarnir djöfluðust allt kjörtímabil vinstristjórnarinnar þangað til vinstri flokkarnir fóru að trúa því að allar aðgerðir kjörtímabilsins hefðu verið ómögulegar. Þar til Samfylkingin og VG trúðu því að ekkert hefði verið gert fyrir skuldara þrátt fyrir að skuldaniðurfelling síðasta kjörtíambils sé langtum meiri en stóra ‘leiðréttingin’. Trúðu því að þau hefði hækkað skatta á launafólk þrátt fyrir að meirihluti almennings greiddi lægri tekjuskatt en áður. Trúðu því að vinstristjórnin hefði ein og óstudd keyrt heilbrigðiskerfið fram á brún þrátt fyrir að kerfið hafi búið við samfeldann niðurskurð frá aldamótum. Trúðu því að íhaldið hefði kosið burt Icesave þrátt fyrir að borgað hafi verið af Icesave undanfarin ár og nú síðast 20 milljarðar. Og núna þurftu þeir ekki að djöflast nema svona dagpart til að rífa upp sárin hjá borgarstjóra þannig að allur vinstrimeirihlutinn í borginni féll eins og spilaborg að skoðun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Svo spyrja menn sig hvers vegna VG, Björt Framtíð og Samfylking mælast svo lágt í skoðanakönnunum. Lúserar eru bara ekki aðlaðandi. Það er nú öll ráðgátan.
Uppfært: *Morgunblaðið fjallaði um bréfið um miðjan dag í gær í lítilli frétt. Áhuginn var því ekki enginn en lítill.