Undanfarnar tvær nætur hef ég gleypt í mig sjónvarpsseríuna Narcos á Netflix en þar er rakin saga kókaínbarónsins Pablo Escobar í Kólumbíu á níunda áratugnum. Þessi tími markar einnig upphaf fíknistríðsins undir stjórn bandarískra stjórnvalda. Þættirnir hafa ekki bara skemmtanagildi heldur eru þeir ágæt skoðun á þessu tímabili í sögu Kólumbíu.
Pablo Escobar hafði furðulega drauma um að verða forseti og leiðtogi fólksins en var almúgamaður og átti því ekki greiða leið að stjórnmálum þó hann væri tilbúinn að greiða nær óendanlegt fjármagn til að komast til valda. Eftir að hann gafst upp á pólitískum ferli hélt hann kólumbísku þjóðinni í heljargreipum á einum blóðugasta tíma í sögu landsins.
En það er upphafslag þáttanna eftir Pedro Bromfman sem mig langaði til að tala um. Lagið er ákaflega ágengt og grípandi, svo mjög að ég varð að skilja um hvað væri sungið. Það er söngvarinn Rodrico Amarante sem orti ljóðið og flytur það óviðjafnanlega.
Lagið getið þið heyrt hér:
Textinn er svona á spænsku:
TUYO
Soy el fuego que arde tu piel
soy el agua que mata tu sed
el castillo, la torre yo soy
la espada que guarda el caudal
tu el aire que respiro yo
y la luz de la luna en el mar
la garganta que ansío mojar
que temo ahogar de amor
y cuales deseos me vas a dar?
Dices tu, „Mi tesoro basta con mirarlo
Tuyo será, y tuyo será“
Ég er EKKI þýðandi en get kraflað mig fram úr spænsku og hér er hrá merkingarþýðing á ljóðinu.
ÞITT eða ÞINN
Ég er eldurinn sem kveikir í þér
ég er vatnið sem slekkur þorsta þinn
ég er kastalinn og varðturninn
sverðið sem gætir fjársjóðsins
þú ert loftið sem ég anda að mér
ljós tunglsins á haffletinum
kverkarnar sem ég þrái að væta
sem ég óttast að drekkja í ást
Og hvaða þrám muntu fylla mig?
Þú segir „Gullið mitt
þú þarft ekki annað en nefna það
Það verður þitt, og það verður þitt
Það kom í ljós við nánari eftirgrennslan að höfundur hafði móður Pablo Escobar í huga þegar lag og ljóð var samið. Kona sem elur upp lítinn dreng sem verður skrímsli. En ljóðið er ekki dæmigerð barnagæla, langt í frá. Alls ekki heldur hefðbundið ástarljóð þar sem ástin er hrein og tær – það er stjórnsamur elskandi sem talar. Í ljóðinu er einhverskonar ógn, jafnvel hótun. Allt eða ekkert. Og eitthvert loforð um að í heljargreipum þessa undarlega sambands muni sá sem talað er til fá allar þrár sínar uppfylltar.
Jæja, fleira var það ekki en nú langar mig ósegjanlega til að einhver almennilegur þýðandi til dæmis Kristín Svava Tómasdóttir þýði þetta ljóð á sönghæfa íslensku og einhver frábær íslenskur söngvari eða söngkona – því ekki væri síðra að heyra það flutt af kvenrödd – syngi það við fyrstu hentugleika inn á disk. Kannski Sigurður Guðmundsson, Valdimar eða Sigríður Thorlacius, Salka Sól? Sendi þetta bara út í andrúmslofið …