Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Raw sushi – blómkálsgrjón – raw tómatsósa – raw alfredosósa

$
0
0

Um daginn fór ég á tvö matreiðslunámskeið á Gló. Já, mér finnst ótrúlega skemmtilegt að læra eitthvað nýtt og spennandi í matargerð. Kate Magic, einn reyndasti hráfæðisfrömuður Bretlands, kenndi á þeim báðum. Þar var sko enginn nýgræðingur á ferð. Hún hefur verið á hráfæðislínunni í tæp þrjátíu ár og alið syni sína þrjá upp á hráfæði. Annað námskeiðið var um gerð raw súkklaðis og það seinna um gerð hráfæðis á bæði auðveldan og fljótlegan hátt.

Á súkkulaðinámskeiðinu fór Kate meðal annars yfir hollustu kakóbaunarinnar og gerð raw súkkulaðis. Fyrir mig var þetta súkkulaðinámskeið frelsun. Því eins og ég hef áður sagt elska ég súkkulaði og var alltaf að leita leiða til að geta gætt mér á því með góðri samvisku. Nú hef ég fundið hana. Í næstu færslu ætla ég að deila með ykkur uppskrift að súkkulaði. Getið látið ykkur hlakka til.

IMG_2986

Á seinna námskeiðinu kenndi Kate gerð hráfæðis á bæði auðveldan og fljótlegan hátt. Mér fannst ótrúlegt að fylgjast með henni útbúa og handleika matinn, það var eins og það væri alveg sérstakt samband þar á milli. Kate stóð fyrir framan hópinn, galdraði fram hvern réttinn eftir annan og fræddi okkur um leið hvernig hægt væri að nota þá á marga vegu. Til dæmis. Þú ert að koma dauðþreytt/ur heim eftir langan vinnudag. Allir svangir og þú ert bara ekki í stuði til að verja löngum tíma í eldhúsinu. En ef þú átt alfredosósuna (sósurnar geymast í viku) í krukku inn í ísskáp og kúrbít, ca ½ stykki á mann, getur þú útbúið gómsætan raw pastarétt, á eigum við að segja tveimur mínútum. Hvernig? Þú skerð kúrbítinn niður í ræmur og blandar alfredosósunni saman við. Fullkomin máltíð.

Ég ætla nú ekki að líkja mér við Kate en ég á alltaf til í ísskápnum heimatilbúið pestó, hnetusmjör eða eitthvað annað sniðugt, sem gott er að grípa í við matseldina. Mér finnst líka ótrúlega þægilegt eftir að ég er með mat sem þarf að dúlla við að hafa þá eitthvað í matinn næstu daga þar sem ég get notað restina af dúlleríinu. Til dæmis eftir að hafa útbúið þessi fínu grjón og sósurnar í sushiið notaði ég það sem meðlæti með fiski daginn eftir og inn í grænmetis tortillur daginn þar á eftir. Ótrúlega gott. Þá tók eldamennskan mig innan við hálftíma.

 Við vorum fjögur sem gæddum okkur á raw sushiinu: Ég, Rúnar maðurinn minn, sú næstyngsta og mamma. Við erum á aldursbilinu frá þrítugu upp í sjötíu og fimm. Það er vægt til orða tekið en við vorum öll mjög hrifin. Hvert okkar borðaði um það bil sjö bita. Mér hefði þótt spennandi að sjá hvernig Hrafntinna, tveggja ára barnabarnið, hefði gert þessu skil. Henni verður boðið í sushi næst þegar það verður á borðum.

Ég verð bara að segja ykkur að mér fannst vinnan við sushiið svo sannarlega fyrirhafnarinnar virði.

Þið verðið að afsaka að ég nota ýmist hrá eða raw. Það er með ráðum gert. Ekki alls fyrir löngu bauð ég upp á hráfæðisköku í matarboði. Einn gesturinn spurði út í kökuna. Þegar ég upplýsti hann um að þetta væri hráfæðiskaka fannst honum það hljóma það illa að hann hafði engan áhuga á að smakka, þrátt fyrir að kakan væri mjög falleg.

Raw blómkálsgrjón

Góð með öllu því sem hrísgrjón passa með.

DSC_0123

Innihald:

  • 500 g blómkál.
  • 1 bolli sesamfræ.
  • 1 bolli kókosflögur.
    • Ég nota lífrænar
  • 4 msk. sesamolía.
    • Ég nota lífræna.
  • 1 msk. hrísgrjóna edik.
  • 1 msk. tamarisósa.
    • Ég nota lífræna og glútenlausa.
  • 1 tsk.  hunang.
    • Ég nota lífrænt villiblóma.

Aðferð:

  • Skerið blómkálið fyrst í tvennt, skerið stilkinn frá.
  • Skerið síðan aftur hvorn helming í tvennt.
  • Setjið fjórðung í einu í matvinnsluvélina og látið vélina vinna.
    • Grjónin voru tilbúin eftir 20 sek.
      • Ég taldi upp að tuttugu í huganum 😉
  • Setjið grjónin í stóra skál.
  • Mixið sesamfræin í matvinnsluvél og hellið yfir grjónin.
  • Mixið kókosflögurnar í matvinnsluvél og hellið yfir grjónin.
  • Bætið restinni af hráefunum saman við og blandið öllu vel saman.
    • Ég gerði það í höndunum.

DSC_0169

Spíruð sólblómafræ

Ekki láta spírunina vaxa ykkur í augum. Endilega prófið og upplifið gleðina sem hún veitir. 

Innihald.

  • 1 bolli sólblómafræ.
  • Vatn

Aðferð:

  • Leggið sólblómafræin í bleyti í 4–6 tíma.
    • Látið vatnið fljóta yfir fræin.
  • Hellið vatninu af fræjunum og skolið vel.
    • Nauðsynlegt að nota sigti.
  • Setjið fræin í lokað ílát í um það bil sólarhring.
  • Fræin eru farin að spíra þegar lítið skott er farið að myndast á endanum á því.

Tímalengdin er ekkert heilög. Leggið fræin t.d. í bleyti áður en þið farið í vinnu. Já, ég veit að það er brjálað að gera við að koma sér og börnunum út á morgnana. Eða bara þegar hentar. Börnunum finnst líka ótrúlega gaman að fylgjast með spíruninni.

Raw alfredosósa

Sósan er ótrúlega góð bæði sem ídýfa, dressing og sósa með raw pasta.

Ég notaði hana með fiski, það kom vel út.

DSC_0170

Innihald:

  • 1 bolli spíruð sólblómafræ.
    • Ég notaði lífræn
  • 3 stk. döðlur.
    • Ég notaði lífrænar.
  • 1 tsk. grænmetiskraftur.
    • Ég notaði lífrænan, glútenlausan.
  • ¼ bolli ólívu olía.
  • 1 stk. sítróna.
    • Ég notaði lífræna.
  • ½ bolli vatn.

Aðferð:

  • Allt sett í matvinnsluvél og unnið vel saman.
  • Tekur tvær til þrjár mínútur.
DSC_0181

Svörtu flögurnar ofan á sósunni er lavasalt.

Raw tómatsósa

Þessi er líka góð á pítsu, lasanja, taco og með fiski.

Innihald:

  • 3 stk. tómatar.
  • 1 bolli sólþurrkaðir tómatar.
  • 3 msk. ólívu olía.
  • 1 tsk. akasíu hunang.
  • 1 tsk. chilli duft.
  • Flögu salt.
  • 1 tsk. balsamic edik.

Aðferð:

  • Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og unnið vel saman.
  • Tekur tvær til þrjár mínútur.

DSC_0193

Svörtu flögurnar ofan á sósunni er lavasalt.

Raw sushi.

Nori blöð, gulrætur, raw blómkálsgrjón, raw tómatsósa og raw alfredosósa.

DSC_0228

Aðferð:

  • Leggið noriblað á bretti og raðið innihaldinu á það.
  • Ég smurði fyrst alfredosósunni, lét grjónin ofan á hana, raðaði gulrótarstrimlum þar yfir og að lokum raw tómatsósunni.
  • Gott að bleyta hliðarnar á nori blöðunum.
    • Ég hafði vatn í glasi og bleytti með fingrunum.
  • Rúllið upp.
    • Kate kenndi snilldaraðferð á námskeiðinu. Hún klippti rúlluna niður, og það gerði ég líka.
  • Skreytið toppinn með spírum.

DSC_0247

Njótið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283