Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Himneskar mæðgur

$
0
0

Mæðgurnar Solla Eiríks og Hildur voru að senda frá sér sína fyrstu matreiðslubók saman, Himneskt – að njóta. Sollu þarf vart að kynna, en saman halda mæðgurnar úti vefsíðunni www.mæðgurnar.is. Himneskt gefur bókina út.Í þessari fallegu matreiðslubók deila mæðgurnar himneskum uppskriftum af hjartans ástríðu. Í fyrrihlutanum má finna fjölbreyttar uppskriftir fyrir allar máltíðir hversdagsins, sem og hátíðleg tilefni. Kaflarnir heita Árbítur, Að heiman, Skálin, Samverustund og Til hátíðabrigða.

unnamed (3)

Seinnihlutinn er tileinkaður árstíðunum og fær hver árstíð sinn kafla: Vor, Sumar, Haust og Vetur. Þar fjalla mæðgurnar um ýmis árstíðabundin verkefni og gefa uppskriftir sem eiga sérstaklega vel við á ákveðnum tímum árs. Þar má sem dæmi finna uppskriftir fyrir grillveislu og lautarferð að sumarlagi, leiðbeiningar fyrir haustuppskeruna, berjauppskriftir og fleira haustlegt. Að ógleymdum jólamatseðlinum og ýmsum hollráðum fyrir veturinn. Mæðgurnar leggja sig fram við að veita lesendum innblástur í átt að grænum og umhverfisvænum lífsstíl, ásamt því að deila ljúffengum og heilnæmum uppskriftum. Við heyrðum örstutt í Sollu.

Hæ, Solla, og til hamingju með bókina ykkar! Hvernig var nú að vinna að bók í samstarfi við dóttur þína?

Það var alveg frábært að vinna þessa bók í samstarfi við Hildi. Við eigum margar líkar hliðar en líka margar ólíkar svo við erum að mörgu leyti fullkomið par, sem bætum hvor aðra upp.

Var samkomulagið alltaf gott?

Já, okkur kemur mjög vel saman og nutum þess að vinna svona mikið saman. Við erum kannski ekki alltaf sammála en eigum auðvelt með að finna sameiginlega lausn.

Hvað ert þú sjálf búin að vera grænmetisæta lengi?

Ég gerðist grænmetisæta 1980, þegar Hildur var 3 mánaða.

Hvað varð til þess að þú hættir að neyta dýraafurða?

Ég var með mikið ofnæmi, sérstaklega fyrir fiski og mjólkurvörum, og síðan varð mér illt af kjöti. Ég fór til náttúrulæknis sem setti mig á sérstakt mataræði og ég kaus að fylgja því. Þetta nýja mataræði fór mjög vel í mig og ég ákvað að halda því áfram. Og núna 35 árum síðar finnst mér þetta enn jafn spennandi. Sérstaklega þegar úrvalið af hráefninu er orðið einstaklega gott og fjölbreytt.

Hvernig verður þér innanbrjósts þegar þú sérð fréttir eins og þær sem við höfum verið að sjá af illri meðferð dýra á búum hérlendis?

Mér finnst alveg skelfilegt að þetta viðgangist og á eiginlega ekki til orð yfir þessari meðferð.

unnamed (1)

Nú er það almennt talið að það sé svo dýrt að vera grænmetisæta, er það svo?

Það þarf alls ekki að vera svo. Ef maður er duglegur að matbúa frá grunni, t.d. sjóða sínar baunir sjálfur, er skipulagður og nýtinn þá getur alveg verið ódýrara að vera grænmetisæta.

Hvað ráðleggurðu þeim sem vilja fikra sig í átt að heilsusamlegra mataræði?

Byrja á að hafa 1 grænan dag í viku. Minnka neyslu á mjög unnum vörum sem og minnka neyslu á djúpsteiktum mat, drekka sódavatn og vatn í staðinn fyrir gos, auka neyslu á grænmeti með matnum og sem millimál. Vera dugleg að smyrja nesti, nota heilbrigða skynsemi og hlusta á kroppinn.

unnamed (2)

Þessar uppskriftir í bókinni eru svo girnilegar, en eru þær einfaldar?

Þessar uppskriftir eru flestar mjög einfaldar, einfaldleikinn er galdurinn á bak við góða uppskrift.

Getur hver sem er eldað upp úr bókinni?

Já, það getur hver sem eldað uppskriftir okkar mæðgna. Bara að bretta upp ermarnar.

Segðu okkur aðeins frá útliti bókarinnar, því öll útfærsla og myndefni er alveg sérlega fallegt. Var þetta samstarfsverkefni ykkar mæðgna með hjálp ljósmyndara?

Þessi bók er samstarfsverkefni okkar mæðgna, Unnar Valdísar stílista og snillings, Einar á Leynivopninu er grafískur hönnuður og Addi Photo tók þessar gullfallegu ljósmyndir.

unnamed

Nú er sagt að börnin manns kenni manni mikilvægar lexíur í lífinu, hvað hefur hún Hildur þín kennt þér?

Hún Hildur mín hefur kennt mér mjög margt og í hvert skipti sem við hittumst læri ég eitthvað nýtt af henni. Af henna læri ég nægjusemi, kærleika, þolinmæði, umhyggju og að sjá verðmætin í augnablikinu. Hún gerir mig svo miklu, miklu ríkari.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283