Fyrir nokkru birtum við viðtal við Philippu Kempson á eyjunni Lesbos en hún og eiginmaður hennar hafa búið á eyjunni í 16 ár og undanfarna mánuði hafa þau hjónin ásamt dóttur sinni og sjálfboðaliðum tekið á móti flóttafólki en ríflega 35.000 manns hafa komið í land á eyjunni skammt frá heimili þeirra hjóna. Philippa gagnrýndi í viðtalinu harðlega hjálparstofnanir og sagði:
„Bæði Sameinuðu þjóðirnar UNHRC og Rauði krossinn ICRC hafa verið hér frá upphafi að fylgjast með, þeir eru mjög góðir í því að fylgjast með og skrifa skýrslur en beint starf þeirra er ekkert. Við höfum fengið fjölda fyrirspurna frá læknum sem vilja koma og aðstoða en hjálparstofnanirnar vilja ekki einu sinni koma að því að skipuleggja starf þeirra lækna sem bjóða vinnuframlag. Í raun og sann hef ég ekki hugmynd um hvað þeir þykjast vera að gera. Þetta er alveg skelfilegt.“
Hjónin Philippa og Eric eiga fullt í fangi með að sinna öllu því flóttafólki sem kemur og hafa þau hjónin unnið algert þrekvirki í mótstöðu við stjórnvöld og þrátt fyrir litla aðstoð. Nú hafa velgjörðarmenn þeirra sett upp vefsíðu þar sem hægt er að fylgjast með starfi þeirra og styrkja hjálparstarfið.
Fréttir af starfi þeirra Philippu og Eric hafa náð eyrum fjölmiðla víða um heim og nú síðast var það Channel 4 Bretlandi sem sótti hjónin heim.