Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Yfirvöld hafa ekki tíma fyrir hælisleitanda sem er að svelta sig í hel

$
0
0

Daginn eftir að Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði við fyrirspurn á Alþingi að Ítalía og Ungverjaland teldust ekki örugg lönd til að senda hælisleitendur til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, hætti Iz El Din Med Mouhammed, hælisleitandi frá Súdan, að matast í mótmælaskyni vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála um að umsókn hans um hæli hér á landi fengi ekki efnislega umsögn heldur yrði hann sendur aftur til Ítalíu.

Ólöf Nordal hefur í tvígang sagt Alþingi að Ítalía teljist ekki öruggt land og ekki sé óhætt að senda hælisleitendur þangað.

Upphafleg ákvörðun um að mál Mouhammeds yrði ekki tekið til efnislegrar athugunar á Íslandi er frá janúarlokum. Mouhammed hefur verið undir eftirliti lækna frá 18. september vegna hugurverkfallsins og sjálfsmorðshættu. Mouhammed hyggst höfða dómsmál til að fá ákvörðunum þessum hnekkt og hefur  óskað eftir frestun á því að ákvörðunin komi til framkvæmdar.

Í bréfi til kærunefndar er óskað flýtimeðferðar á úrskurði um frestun réttaráhrifa sökum þess að hann neiti að matast og ætli sér frekar að deyja hér á landi en að snúa aftur til Ítalíu. Nefndin taldi sig ekki hafa tíma til að taka erindið fyrir en afgreiddi önnur erindi.

Bréfið var sent í lok septembermánaðar en þá hafði Mouhammed ekki matast í hálfan mánuð. Kærunefndin fundar tvisvar í mánuði en á fundi nefndarinnar 6. október var mál Mouhammeds ekki tekið til skoðunar sökum tímaskorts nefndarinnar. „Þessi maður gæti goldið fyrir með lífi sínu er ég hrædd um,“ segir Katrín Oddsdóttir, lögmaður Mouhammed, er Kvennablaðið bar málið undir hana.

Oddný Mjöll Arnardóttir

Oddný Mjöll Arnardóttir

Oddný Mjöll Arnardóttir, varaformaður nefndarinnar, neitaði að tjá sig við Kvennablaðið er leitast var upplýsinga um hvort og þá hvernig störfum nefndarinnar væri forgangsraðað. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um einstök mál en neitaði einnig að tjá sig almennt um starfsemi nefndarinnar eða reglur. Að lokum sleit Oddný sambandi og skellti á. Kvennablaðið spurði hvort ummæli innanríkisráðherra úr pontu Alþingis um Ítalíu og Ungverjaland hefðu engin áhrif á ákvarðanir Útlendingastofnunar og kærunefndar, hvernig kærunefndin forgangsraðaði vinnu sinni og hvort hælisleitendur í sjálfsmorðshugleiðingum eða hungurverkfalli væru ekki teknir framfyrir í röðinni. Í tilfelli Mouhammeds má svo bæta við að lögmenn hans óskuðu flýtimeðferðar vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi væri komin. Sú beiðni var hunsuð af kærunefndinni.

Á flótta frá átta ára aldri

Mouhammed er fæddur í Darfur-héraði í Súdan en kom til Íslands frá Ítalíu. Hann hefur verið á flótta frá átta ára aldri og við komuna hingað til lands sagðist hann vera á átjánda ári. Sem slíkur nýtur hann sérstakrar verndar sem fylgdarlaust barn. Íslensk yfirvöld féllust ekki á þá frásögn Mouhammeds og óskuðu eftir tannrannsókn. Niðurstaða rannsóknarinnar var að hann væri líklega 19,7 ára gamall en með skekkjumörkum upp á um 16 mánuði. Tekið er fram í niðurstöðu rannsóknarinnar að ekki sé hægt að útiloka að hann sé undir 18 ára aldri. Svo virðist þó að hann hafi á engu stigi málsins fengið að njóta vafans og fengið málsmeðferð í samræmi við fylgdarlaust barn. Fylgdarlaus börn eru talin sérstaklega viðkvæmur hópur og eru oft fórnarlömb misnotkunar og ofbeldis. Það er af þeim sökum sem auknar skyldur eru á herðum yfirvalda komi upp slík tilvik upp.

Lifði á götunni á Ítalíu

Við skýrslutöku lýsti Mouhammed aðstæðum sínum þar sem hann bjó á götunni á Ítalíu. Hann hafi þurft að leita sér matar í ruslatunnum. Mouhammed sagði einnig frá mikilli samkeppni um hvern einasta matarbita og að sökum þess hve smágerður hann er hafi honum oft verið ýtt frá tunnum þar sem finna mátti mat. Á Ítalíu hafi hann því oft mátt búa við sult svo dögum skipti. Mouhammed hefur ekki formlega menntun og er hvorki læs né skrifandi. Útlendingastofnun ákvað í lok janúar á þessu ári að taka mál hans ekki til efnislegrar athugunar heldur endursenda Mouhammed til Ítalíu. Ákvörðun stofnunarinnar var kærð til Kærunefndarinnar sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar.

Katrín Oddsdóttir

Katrín Oddsdóttir

Skortur á mannúð

„Það gengur ekki að manni, sem er samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga mjög veikur, sé haldið í óvissu um það svo vikum skipti hvort hann skuli endursendur í ömurlegar aðstæður á Ítalíu,“ segir Katrín. „Það er í raun ómannúðlegt að mínu mati. Ákvarðanir stjórnvalda í máli hans taka því miður ekkert tillit til þeirra gríðarlegu breytinga sem átt hafa sér stað í Evrópu síðustu vikur og mánuði. Fólk má ekki gjalda þess að stjórnvöld séu sein að meðtaka þann raunveruleika sem blasir við og jafnast á við alvarlegar náttúruhamfarir.“

Steinunn Þóra Árnadóttir

Steinunn Þóra Árnadóttir

Mikill vandi í Ítalíu

Innanríkisráðherra Ólöf Nordal sagði á Alþingi þann 17. September að Ítalía og Ungverjaland teldust ekki örugg lönd. „Það er ekki óhætt að senda fólk til baka þangað,“ sagði ráðherra í svari við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingkonu VG, um beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar í ljósi þess gríðarlega fjölda hælisleitenda sem leitað hafa til Evrópu undanfarið. Íslenskum stjórnvöldum ætti að vera vel kunnugt um ástand mála á Ítalíu. Í byrjun árs komu þangað 116.000 manns frá svæðum utan Evrópu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í byrjun september að Ítalía væri ekki í  stakk búin til að ráða við þann gríðarlega fjölda umsókna um hæli sem fyrir liggja. Unnið er að neyðartillögu um hvernig takast megi á við álagið sem fylgir mikill aukningu hælisleitenda að undanförnu. Ráðherra lagði áherslu á að Dyflinnarreglan yrði ekki aftengd tímabundið. „Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur Íslendinga að vera hluti af því hvernig menn taka slíkar ákvarðanir þar, og hérna erum við að vinna með sama hætti og þau ríki sem við vinnum mest með. Við fylgjumst reyndar grannt með en á þessum tímapunkti erum við ekki tilbúin til að taka Dyflinnarreglugerðina úr sambandi,“ sagði Ólöf.

Schengen og Dyflinnarreglan

Þjóðverjar hafa þegar í raun aftengt Schengen-samstarfið tímabundið með upptöku eigin landamæraeftirlits. Tilkynnt var um þá ákvörðun nokkrum dögum áður en ráðherra lét ummælin falla. Þýskaland hefur einnig ákveðið að taka Dyflinnarreglugerðina úr sambandi tímabundið og er hætt að senda flóttafólk frá Sýrlandi aftur til þess Evrópulands sem það kom fyrst til. Þjóðverjar hafa um leið hætt að framfylgja reglum um að sé hælisleitanda hafnað um hæli í einu Evrópusambandsríki geti sá hinn sami ekki sótt um í öðru Evrópuríki. Ljóst er að hælisleitendur sem ekki eru frá Sýrlandi finna einnig fyrir óviðunandi aðstæðum í löndum þar sem álag er mikið og því ætti staðan sem upp er komin að vera tekin til athugunar í tilvikum allra hælisleitenda.

Helgi Hrafn Gunnarsson

Helgi Hrafn Gunnarsson

Frestaði brottflutningi tveggja hælisleitenda

Aðeins tveimur vikum eftir ummæli Ólafar á þingi staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að tveimur hælisleitendum yrði vísað úr landi og þeir sendir aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Annar þeirra er Ganverji en hinn samkynhneigður Nígeríumaður sem óttast að verða refsað fyrir kynhneigð sína í heimalandinu. Innanríkisráðherra fór þess á leit við Útlendingastofnun að bíða með að senda hælisleitendur til Ítalíu á meðan farið sé betur yfir mál þeirra í ráðuneytinu og ástandið í landinu enn ótryggt og ekki öruggt. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, 5. október síðastliðinn. „Hvað gerum við núna fyrst senda á þessa tvo menn úr landi til lands sem við vitum að er óöruggt?“ spurði Helgi. „Við vitum að þeir koma til með að búa á götunni, bókstaflega, róta í ruslatunnum ef vel fer, þ.e. ef þeir verða ekki sendir til baka sem yrði tilfellið ef Ítalía hefði burði til að meðhöndla mál þeirra.“ Ráðherra svarði fyrirspurninni á þá leið að ekki væri rétt að senda hælisleitendur til Ítalíu sökum álags.

„Það er rétt að ég lýsti því yfir á Alþingi 17. september að álagið í þeim löndum Evrópusambandsins sem snúa að ytri landamærum væri með þeim hætti að menn hefðu áhyggjur af því að ekki væri öruggt að senda menn til baka þangað,“ svaraði ráðherra. „Það sem ég var að meina 17. september var að sjálfsögðu það að við séum ekki að senda menn til baka til efnislegrar meðferðar,“ sagði hún ennfremur og bætti við: „Ég hef vegna þessa máls sagt að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir þessa hluti eins og við höfum verið að gera fram til þessa og passa okkur á því að við steypum fólki ekki í óöruggt umhverfi innan landa sem menn eru ekki öruggir um að séu í lagi. Ég hef þess vegna óskað eftir því við Útlendingastofnun að hún bíði með að vísa þessum hælisleitendum á brott til Ítalíu þar til búið er að leggja almennilegt mat á það hvernig þetta er núna á grundvelli Schengen-ríkjanna og þá sérstaklega í samhengi við fund sem ég sæki á þeim vettvangi í þessari viku.“

Fundurinn sem um ræðir fór fram 9. október síðastliðinn – skömmu eftir að fundur kærunefndar fór fram – en ekki er minnst á ákvörðun um Ítalíu í tilkynningu ráðuneytisins um fundinn.

Fyrirspurnir hunsaðar:

Kvennablaðið leitaði svara hjá Útlendingastofnun, Kærunefnd Útlendingamála, innanríkisráðuneytinu, aðstoðarmanns ráðherra og ráðherra sjálfum. Fyrirspurnir voru almennt hunsaðar. Blaðið hafði beint samband við ráðherra í gegnum Facebook en fékk engin viðbrögð önnur en sjálfvirkan stimpil um að ráðherra hefði séð skilaboðin og kosið að hunsa þau. Formaður Kærunenfndar er í fríi og því var ekki unnt að fá samband við hann. Kvennablaðið gerði þó tilraun til þess í gegnum síma og textaskilaboð. Skúli Á Sigurðsson svarar fjölmiðlum fyrir hönd Útlendingastofnunar en blaðamanni Kvennablaðsins reyndist ekki fært að ná í hann símleiðis og tölupósti var ekki svarað.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283