Í Íslandsheimsókn sinni kom Bill Gates við í Múlakaffi. Þar snæddi hann hádegisverð ásamt lögreglumönnum, hjúkrunarfræðingum og öðrum úr alþýðustétt. Af tilviljun fór þá fram launakönnun meðal matargestanna.
Launameðaltal matargesta sýndi að kaupmáttur almennings var einn sá besti á byggðu bóli. Matarkostnaður var óverulegur hluti af ráðstöfunartekjum.
Glöggir lesendur átta sig á að atvik þetta er uppdiktuð dæmisaga. Þeir vita að lögreglumaður með 284.000 kr. í veskið á mánuði borðar ekki úti í hádeginu. Ekki heldur íslenskur hjúkrunarfræðingur. Þessar stéttir nota örbylgjutækni og breyta afgöngum gærdagsins í hádegismat. Borinn fram í endurnýttu ísboxi.
Fréttatilkynning Landsbankans frá fyrra ári er hins vegar ekki uppdiktuð dæmisaga.
„Húsnæðiskostnaður ekki hár hér á landi“ er yfirskriftin. Fram kemur að íslenskur húsnæðiskostnaður (sem hlutfall af ráðstöfunartekjum) er næstlægstur á Norðurlöndum. Hæstur er hann í Danmörku, eða um fjórðungur ráðstöfunartekna. Á Íslandi er meðaltal húsnæðiskostnaðar 16,5 prósent af ráðstöfunartekjum.
Markaðskorn Arion banka taka í sama streng. Bankinn telur húsnæðiskostnað á Íslandi vera á pari við Evrópulönd, eða ívið lægri. Þessi kostnaður hefur minnkað, var kominn niður í 21,4% af ráðstöfunartekjum á Íslandi árið 2014.
Niðurstaða Arion er svohljóðandi: Húsnæðiskostnaður, (sem hlutfall af ráðstöfunartekjum) „kallar alls ekki á sérstaka íhlutun hins opinbera á leigumarkaði“. Svo mörg voru þau orð.
Ályktun Landsbankans endar hins vegar á þessa leið: „Húsnæðisbyrði leigjenda hefur hins vegar aukist töluvert á þessum tíma, eða um 5% af ráðstöfunartekjum.“ Ekki fylgir sögunni frá, og upp í hvaða prósentu af ráðstöfunartekjum „húsnæðisbyrðin“ ( leigan) er komin.
Athyglisvert er að í glerhvelfingum greiningardeildanna virðist leiga ekki skilgreind sem húsnæðiskostnaður. Heldur „húsnæðisbyrði“. Hvernig er í þennan (húsnæðislána)pott búið? Sem bankarnir byggja niðurstöður sínar á?
Hvernig fá greiningardeildir svona útkomur? Að íslenskur húsnæðiskostnaður sé ekki hár, almennt 17 til 21% af ráðstöfunartekjum? Taka þær allar húsnæðisafborganir landsins og hella þeim í einn pott ? Líka skuldlausar eignir? Og „húsnæðisbyrði“ leigjenda í sér pott? Með þannig Múlakaffismælingum fæst flott útkoma. Þá verður „húsnæðiskostnaður“ ekki hár á Íslandi. Þá eru aðgerðir í húsnæðismálum líka óþarfar.
Ef lögreglumaðurinn úr dæmisögunni býr í leiguíbúð, er húsnæðiskostnaður (leiga) hjá honum skv. greiningu Landsbankans 16,5 % af 284.000 kr. ráðstöfunartekjum. Sem þýðir að hann greiði undir 50.000 kr í leigu á mánuði. Í Reykjavík. Ríma þessar tölur við raunveruleikann?
„Bill Gates „faktor“ í húsnæðisjöfnu bankanna eru húsnæðislán verðbólguáranna upp úr 1970 og fram að verðtryggingu. Á þessu tímabili greip um sig gullæði á byggingamarkaði. Allir sem vettlingi gátu valdið byggðu húsnæði. Vextir voru í raun negatívir, vegna verðbólgu tímabilsins. Andvirði lambs sparifjáreigandans breyttist í lambalæri á nokkrum misserum. Húsbyggjandinn borgaði andvirði eins herbergis eða svo af einbýlishúsaláninu þegar veislan var gerð upp. Fórnarlömbin voru eldra fólk sem horfði á eftir ævisparnaði sínum í þessa löglegu svikamyllu.
Talið er að á fimmta hundrað milljarða að núvirði hafi flust milli kynslóða á þessu tímabili. Næsta kynslóð á eftir tók svo við skröltandi tómum lánastofnunum. Og beisku meðali (verðtryggingunni), sem er oft hættulegri en sjúkdómurinn. Sumir kalla þetta gjöf eða rán á ævisparnaði einnar kynlóðar. Þessi ránsfengur er svo notaður sem reiknigrunnur fyrir yfirburði Íslands í húsnæðismálum Evrópulanda.
Þessi atburðarás er líka skýringin á hvers vegna hlutfall séreignarformsins skrúfaðist upp fyrir skorsteininn á Íslandi. Og varð að trúarbrögðum. Þetta, ásamt skorti á nonprofit leigumarkaði er ástæða rússíbanareiðar húsnæðismarkaðarins á Íslandi. Bólur belgjast út og springa á 7 til 10 ára fresti.
Í hvert sinn sem þessi öfugi pýramídi hrynur endurbyggja stjórnvöld hann. Stein fyrir stein. Skuldaleiðréttingin er bara eitt dæmi um það klassíska ferli.
Hér á eftir má sjá hlutfall séreignar í nokkrum löndum:
Hlufall séreignar á fasteignamarkaði (%)
þýskaland 42
Danmörk 51
Svíþjóð 60
Bandarikin 70
Ísland 85
Út frá svona Múlakaffismælingum álykta svo greiningardeildirnar: Það er allt í þessu fína í húsnæðismálum. Leigjendur geta borið „húsnæðisbyrðar“ sínar sjálfir. Á þessum grunni byggja stjórnvöld svo aðgerðir sínar, öllu heldur aðgerðarleysi í húsnæðismálum. Það er óþarfi að breyta því sem virkar vel. Það er svo ódýrt að búa og lifa á Íslandi.
Húsnæðiskostnaður er undir einum fimmta af ráðstöfunartekjum.
Málsverður í Múlakaffi er milljónasti hluti af mánaðarlaunum millistéttar.
Ekki satt?