Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Engin landamæri – engar brottvísanir

$
0
0

No Borders Iceland krefst þess að stjórnvöld hætti brottvísunum flóttamanna á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Á meðan tölur yfir flóttamenn í Evrópu hafa ekki verið hærri frá því í síðari heimsstyrjöldinni heldur íslenska ríkið því til streitu að vísa flóttamönnum aftur til annarra Evrópuríkja án þess að skoða mál þeirra hér. Þó svo innanríkisráðherra hafi tilkynnt að tveimur þeirra, Christian og Martin, verði ekki vísað aftur til Ítalíu á meðan mál þeirra verða skoðuð, eru að minnsta kosti þrír aðrir flóttamenn hér á landi sem eiga yfir höfði sér brottvísun á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, Mehdi, Eduard og Reza. Á þessu ári hefur íslenska ríkið vísað fjórum sýrlenskum flóttamönnum úr landi á grundvelli sömu reglu.

Ísland hefur um árabil notað Dyflinnarreglugerðina til að firra sig ábyrgð í málefnum flóttamanna. Hér á landi eru mun færri umsækjendur um alþjóðlega vernd en í löndunum sem við erum að senda flóttamenn aftur til. Þótt aðstæður flóttamanna séu sérlega slæmar á Ítalíu, í Grikklandi og Ungverjalandi, þýðir það ekki að þær séu frábærar í Noregi, Svíþjóð eða Frakklandi, sem eru að taka við 3–10 sinnum fleiri umsækjendum um alþjóðlega vernd en Ísland, miðað við höfðatölu [1].

Nú bíða Mehdi og Reza þess að vera sendir til Noregs, lands sem hefur sett sér það markmið að vísa úr landi 7.800 flóttamönnum í ár [2]. Í fyrra brottvísuðu Norðmenn 428 flóttamönnum aftur til Afganistans, landsins þar sem talibanar eru farnir aftur í sókn og þar sem sjúkrahús eru sprengd í loft upp af bandamönnum okkar. Mehdi og Reza eru þess fullvissir að frá Noregi verði þeir sendir aftur til Írans, og eru skilaboðin til þeirra þau að þeir eigi að halda kjafti um það að vera kristinnar trúar til að forðast ofsóknir. Þess má einnig geta að írönsk stjórnvöld taka oft ekki vel á móti brottvísuðum fyrrum þegnum sínum, ef þeir fást yfir höfuð til að hleypa þeim inn í landið. Eduard á að senda aftur til Frakklands en þar eru aðstæður hans ekki ólíkar þeim sem myndu bíða þeirra sem sendir væru aftur til Ítalíu. Á meðan hann var þar fékk hann hvorki félagslega aðstoð, húsnæði né atvinnuleyfi. Hann fer nú huldu höfði á Íslandi til að forðast að vera sendur úr landi [3].

Málsmeðferð í nágrannaríkjunum er ekki alltaf fullkomin, ekki heldur hjá frændum okkar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Dæmin sýna það líka, því þegar Ísland hefur hætt við endursendingar einstakra flóttamanna á grundvelli Dyflinnarreglunnar (oft eftir þrýsting frá almenningi) hefur þeim oftast verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Þess eru einnig dæmi að þeir flóttamenn sem hafa verið sendir aftur til hinna Norðurlandanna hafi þaðan verið sendir áfram til stríðshrjáðra svæða þar sem engin leið er að vita hver örlög þeirra verða. Seinast í gær bárust fréttir um það að sextán ára drengur sem sendur var aftur til Afganistan frá Danmörku hafi verið myrtur af talibönum [4].

Ísland hefur fulla getu til að taka við þessum flóttamönnum og ætti að gera það fremur en að velta ábyrgðinni yfir á lönd sem taka við margfalt fleiri fjölda umsókna um alþjóðlega vernd. Á meðan staðan er svona er ekki forsvaranlegt að halda áfram beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar og senda fólk fram og til baka innan Evrópu eins og bögglapóst, bíðandi í kerfinu árum saman. Íslensk stjórnvöld geta hætt að beita Dyflinnarreglunni og tekið mál allra flóttamanna sem hingað leita til efnismeðferðar. Það eina sem stoppar það er pólitískur vilji.

Engin landamæri – engar brottvísanir.

[1] Hælisumsóknir á Íslandi eru 0,6 á hverja 1.000 íbúa, 3 á hverja 1.000 íbúa í Noregi og 10 á hverja 1.000 íbúa í Svíþjóð. Til samanburðar má geta að þeir verða líklega 24 á hverja 1.000 íbúa í Þýskalandi í ár. (Heimildir: Norska útlendingastofnunin, UDI, og Migrationsverket í Svíþjóð. Hér var miðað við 200 umsóknir sem var spá UTL í júlí sl.). [2] http://www.theguardian.com/global-development/2015/feb/26/norway-crackdown-asylum-seekers-afganistan-immigration [3] http://www.visir.is/samkynhneigdur-russi-fer-huldu-hofdi-i-reykjavik/article/2015150929273 [4] http://www.thelocal.dk/20151012/teen-expelled-from-denmark-killed-by-taliban

Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283