Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Ég heiti Vala og er með geðhvörf“

$
0
0

Ég heiti Vala og er með geðhvörf.“ Það væri kannski svolítið asnaleg byrjun á einkamálaauglýsingunni minni en maður spyr sig samt, hvenær væri í lagi að útskýra að ég væri með geðhvörf? Er það á fyrsta, öðru eða þriðja stefnumóti eða skiptir það kannski engu máli? Jú, ég held það skipti svolitlu máli en hvernig myndi hinn aðilinn bregðast við?

Enn þann dag í dag eru allt of margir sem vita lítið sem ekkert um geðsjúkdóma. Ég labba ekki um með auglýsingaskilti en ég fel það heldur ekki að ég sé með geðsjúkdóm.

Ég vil ekki láta eyrnamerkja mig sem geðsjúkling, en hef samt gaman af því að grínast með það að ég sé geðsjúklingur. Orðið geðsjúklingur hefur orðið neikvætt, og hefur kannski alltaf verið neikvætt.

Ég leitaði uppi orðið „geðsjúklingur“ á snara.is og samheitaorðið þar var Kleppsmatur. Ég hef aldrei farið á Klepp og býst aldrei við að fara á Klepp.

Til að útskýra mín geðhvörf þá má segja að ég sé svona „allt eða ekkert“ týpa. Ég fer öfgafullt af stað eða hreyfist ekki úr spori. „Mamma, hvað er vindur?“ er spurt og ég sperrist upp spennt og útskýri með miklum ákafa hvað vindur er, ég kveiki á gólfviftunni og við finnum loftið blása á okkur og förum á vedur.is og skoðum vindaspá næstu daga. Hefði verið spurt viku fyrr hefði svarið verið „ég veit það ekki“ og ástríðan sem yrði viku seinna er jafn mikil og þegar trefill dettur af stólbaki niður á gólfið.

Núna undanfarið hef ég verið eins og uppvakningur, ég hef ekki verið sjálfri mér lík því ég stend í lyfjabreytingum.

Ég fór í klippingu um daginn og ég sat í stólnum og starði bara í spegilinn og sagði varla orð. Aumingjans hárgreiðslukonan var farin að vera vandræðaleg þegar ég gat varla svarað spurningum hennar um hvernig háralit ég vildi.

Við komumst samt að því að við kynntumst báðar mökunum okkar á netinu og ég fékk svipaðan háralit og Hope Logan er með í Glæstum vonum, það verður ekki betra.

Ég hlakka til að losna upp úr uppvaknings-tímabilinu og verða Vala aftur, verða súper-Vala. Vala sem hefur áhuga á því hvað vindur er og Vala sem stoppar til að horfa á laufin falla af öspunum við sundlaugina.

Hin Vala kemur samt alltaf aftur inn á milli, en stoppar yfirleitt stutt. Það sem ég þarf að passa er að vera meðvituð um öll merki um hvort lægð sé í vændum og passa upp á rútínu. Þetta er ekki alltaf auðvelt og skiptin hversu oft mig hefur langað að gefast upp eru óteljanleg, en ég þrauka og mun alltaf þrauka í gegnum erfiðu dagana, þessir góðu eru fleiri og þeir eru þess virði.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283