Þessa vikuna er holiday í skólanum. Það þýðir að ég er búinn að setja svarta ruslapoka fyrir gluggana í herberginu og þá vakna ég við kolniðamyrkur eins og á fallegum janúarmorgni á Íslandi. Ekki þetta sólskin og 15 gráður eins og er hérna í Danmörku. Það er ekkert verra í lífinu en að vakna við sólskin í augunum. Reyndar var verra í gamla daga þegar mamma sparkaði upp hurðinni á herberginu mínu með sígarettu í hendinni og gargaði á mig að ég væri orðinn of seinn í skólann.
Sara kom til mín á föstudaginn fyrir viku og við erum búin að hafa það kósý. Við eyðum töluverðum tíma á McDonalds og gerum allskonar. Við fórum til dæmis til Kaupmannahafnar á mánudaginn. Við erum með bílaleigubíl og við keyrðum þetta, eða ég keyrði því Sara er búin að gleyma hvernig á að keyra beinskiptan bíl. Þegar við komum til CPH byrjuðum við á því að úða í okkur HardRock burger sem fór vel í mannskapinn. Þegar Sara var orðin södd þá þurftum við að fara á Strikið í H&M völundarhúsið sem leynist þar. Það var auðvitað hræðilegur tími fyrir mig en ég lét mig hafa það því „ef ég myndi nenna þessu þá myndi Sara koma með mér í Tívolí“.
Ég var harðákveðinn að fara í Tívolí þar sem ég er ennþá barn en ekki maður og ég nennti þó ekki að vera gæinn sem fer einn í öll tækin og þarf alltaf að sitja við hliðina á þeim sem er stakur og það er hevy vandræðalegt fyrir alla sem koma að málinu.
Eftir H&M var komið að Söru að standa við sitt og ég keypti tvo miða í Tívolíið í boði LÍN. Sara byrjaði fljótlega að segjast einungis ætla að horfa á mig í tækjunum en eftir að ég setti henni úrslitakosti varðandi áframhaldandi tilvist sambands okkar, samþykkti hún að kíkja í nokkur tæki.
Við byrjuðum á litlu Parísarhjóli sem var ætlað litlum börnum og gömlu fólki og þar bilaðist Sara úr hræðslu og hótaði að fara heim.
Ég tók það ekki í mál og leiddi hana í næstu röð sem lá að „Rólunum“. Fyrir þá sem hafa ekki komið í Tívolí í CPH þá er video af rólunum hér. Ég mæli með að þið athugið það svo þið skiljið hvað ég er að fara.
Sætunum er haldið uppi með ódýrustu keðjunum úr Byko og ég er 120 kg og Sara einhver 60 kg. Þannig að við vorum þarna vel í yfirþyngd ef við berum okkur saman við hin börnin sem voru þarna. Rólurnar fara vel upp í 400 metra hæð og þar var talsverður vindur þannig að við snérumst ekki beint í hringi eins og okkur var ætlað að gera heldur einhvern veginn hentumst við til og frá. Sara missti vitið og byrjaði að hágrenja. „ÉG SAGÐI ÞÉR AÐ ÉG VILDI EKKI FARA Í ÞETTA TÆKI!“, gargaði hún á mig. Vissulega var ég nokkuð skelkaður þarna þar sem vindhviður voru komnar í 40 metrana en ég gat ekki hætt að hlæja að Söru grenjuskjóðu.
Næst fórum við í rússíbana þar sem Sara fór líka að grenja en skemmti sér þó engu að síður.
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Að lokum náði ég að plata dömuna í fallturninn og þar stóð hún sig eins og hetja en ég fékk blóðtappa í fótinn en ég hristi það af mér.
Eftir góðan dag í Köben þá keyrði ÉG aftur heim og Sara hallaði sér aftur.
Núna á miðvikudaginn var stóri dagurinn. Ég vaknaði klukkan 7 út af spenningi. Ég hafði stillt klukkuna á 09.00 en ég gat hreinlega ekki sofið svo lengi. Það var loksins komið að því! Læknistíminn.
Ég brunaði niður á Nørregade og bað um lækninn. Daman þar sýndi mér bara hvernig ég „slide-a“ gula-heilsukortinu mínu eins og kreditkorti í tækið og svo má ég bara fara beint inn á skrifstofuna hjá mínum manni! Það var meira að segja einn mjög gamall kall frammi á biðstofunni sem var alveg að deyja en ég bara þurfti ekkert að pæla í því.
Ég tyllti mér og beið eftir lækninum mínum. Ég þurfti ekki að bíða mikið lengur en mínútu því hérna í Danmörku eru engin verkföll eða neitt og þá kom læknirinn minn inn. Ég missti andlitið og hélt að ég væri kominn til himna. ASIAN DOCTOR! BOOM! What a day fyrir Einar. Kom frá Íslandi þar sem læknar og hjúkkur eru í verkfalli aðra hverja viku og þau geta ekki læknað neitt – mættur til Danmerkur og með einn asískan lækni sem að, let’s face it, eru bestu læknarnir ásamt Indverjum.
Ég útskýrði fyrir honum hvað hefði komið fyrir mig í sumar og að læknarnir heima hefðu bara gefið mér verkjatöflur, „því það er svo gott fyrir bakbrot“. En mínum manni, Asian-Peter (hefði persónulega viljað eitthvað asískara nafn á hann en sætti mig við Asian-Peter), brást ekki bogalistin og hann skipaði mér að fara úr fötunum. Ég hef aldrei verið jafn glaður þegar karlmaður biður mig að afklæðast því núna var hann að fara að lækna mig. Hann þreifaði á bakinu á mér og kom með ályktun. Áður en lengra væri haldið vildi hann senda mig í röntgen.
Eftir nokkrar góðar sögur af ferð hans um Landmannalaugar fyrir ári síðan ákvað ég að drífa mig heim. Loksins átti ég ekki bara asískan vin, heldur asískan lækni.
„When can I get the X-ray? In two – three weeks, Dr.Asian-Peter?“
„You just go right now.“
MÁ FARA BARA BEINT Í MYNDATÖKU Í DANMÖRKU EÐA?
Hann gaf mér leiðbeiningar hvernig ég myndi rata á sjúkrahúsið, því í Danmörku eru ekki allir læknarnir á sjúkrahúsinu heldur eru þeir með skrifstofur úti um allan bæ. Ég brunaði þangað, talaði við konuna þar í afgreiðslunni sem bað mig um að setjast í gulu stólana og bíða eftir röntgen. Fljótlega (því allt gengur eins og smurð vél hér) kemur hún til mín og segir mér að læknirinn hér hafi skoðað gögnin mín og ákveðið að upgrade-a mig í SEGULÓMUN út af því hvað ég var mikið meiddur!! ÓMÆGAD hvað þetta er gott sjúkrahús!
Þá mátti ég fara lengra inn ganginn og núna átti ég að setjast í bláu stólana. Þegar ég var búinn að bíða þar í 40 sekúndur kom CT-SCAN lady og náði í mig. Hún vildi líka hafa mig beran að ofan eins og dr. Asian-Peter og hún henti mér inn í segulómun.
Þegar því var lokið fór ég heim með stútfullt veski að seðlum (í boði LÍN) því ég þurfti ekki að borga fokking krónu.
Asian-Peter heyrir í mér í dag eða á mánudaginn og þá kemur í ljós hvort ég þurfi að fara til sjúkraþjálfara eða hvort draumar mínir rætist og ég geti farið til kíropraktors. Auðvitað allt í boði danska ríkisins.
Þvílík vika hérna í Danmörku!
Sjáumst samt.