Nýútkomin er glæpasagan Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur. Lilja hefur áður sent frá sér tvær glæpasögur, Spor og Fyrirgefningu, og árið 2014 hlaut hún Grímuverðlaun fyrir frumraun sína í leikritaskrifum, Stóru börnin, sem valið var leikrit ársins. Í texta frá útgefanda segir um Gildruna:
„Eftir harkalegan skilnað stendur Sonja uppi allslaus og ráðalaus. Það eina sem hún á er sonurinn Tómas sem hún fær ekki að hitta nema þegar pabba hans hentar. Í örvæntingu leiðist hún út í eiturlyfjasmygl; fyrir ágóðann vonast hún til að geta búið Tómasi gott heimili. Og Sonja er snjall smyglari og kemst upp með ótrúlegustu hluti. Allt þar til hún vekur athygli Braga, tollvarðar sem er að fara á eftirlaun. Sonja heitir sjálfri sér því að hver smyglferð sé sú seinasta. Hana langar bara að vera með drengnum sínum og rækta brothætt ástarsamband við bankastarfsmanninn Öglu. En til þess þarf hún að sleppa úr gildrunni …“
Hér birtum við fyrsta kafla bókarinnar. Góða skemmtun!
Gildran – Lilja Sigurðardóttir
1.
„Kaffið var löngu búið úr pappabollanum. Sonja stóð kyrr við kringlótt borðið og þóttist sötra upp um gatið á plastlokinu á meðan hún fylgdist með innritunarröðinni. Það var rólegt á Kastrup svona seint og einungis örfá flugfélög áttu enn eftir að senda vélar á loft. Samsonite-ferðatöskubæklingurinn lá á borðinu fyrir framan hana og hún fletti honum öðru hvoru þó það væri óþarfi. Hún kunni hann utan að og mundi glöggt við hvaða myndir hún hafði merkt síðast þegar hún fór í gegnum þennan flugvöll. Enn voru röskir tveir tímar í brottför til Íslands en Sonja var í huganum farin að búa sig undir að fresta fluginu og nota sætið sem hún átti með morgunvélinni daginn eftir. Varaplan. Það þurfti alltaf að vera varaplan. Það skipti hana engu máli hvort hún færi með kvöldvélinni eða morgunvélinni, allur undirbúningur stóð óhaggaður. Hún hafði oft frestað ferð eða hætt við og tekið aðra flugleið ef eitthvað gekk ekki upp eða ef hún fékk á tilfinninguna að eitthvað væri ekki í lagi. Það bjóst enginn við henni heima og hún var vön að gista á flugvallarhótelum.
Á meðan Sonja gíraði sig inn á varaplanið sá hún konuna koma gangandi inn í flugstöðina. Hún gekk hratt en hægði á sér þegar hún sá að enn var löng röð í innritunina og Sonju fannst hún næstum geta heyrt hana andvarpa af feginleika. Hún virtist vera tilvalin. Hún var hávaxin og ljósskolhærð eins og margir Íslendingar og þegar Sonja kom sér fyrir í röðinni fyrir aftan hana fékk hún sting í magann. Þessi ókunnuga kona hafði ekki gert henni neitt og undir venjulegum kringumstæðum hefði Sonja jafnvel drepið tímann með því að spjalla við hana um daginn og veginn. En það þýddi ekkert að vera með sektarkennd. Konan passaði inn í planið. Út af töskunni sem hún var með. Þetta var silfurlituð Samsonite-titanium flugfreyjutaska og hún hafði aðra smærri handtösku á öxlinni svo það hlaut að þýða að hún ætlaði að innrita Samsonite-töskuna. Það var heppilegt hvað Íslendingar voru tískumiðaðir, meira að segja í ferðatöskum.
Röðin mjakaðist áfram og Sonja fylgdist með konunni á meðan áminningin til farþega um að láta farangurinn sinn ekki eftirlitslausan ómaði í hátalarakerfi flugvallarins. Konan virtist vera annars hugar og annaðhvort heyrði hún ekki tilkynninguna eða tengdi hana ekki við sjálfa sig, því hún hreyfði höfuðið ekki einu sinni til þess að hvarfla augunum á töskuna sína, eins og stór hluti hinna farþeganna gerði líkt og ósjálfrátt þegar tilkynningin glumdi. Það var gott að hún var ekki stressuð týpa. Það gerði Sonju auðveldara um vik.
Hún brosti með sjálfri sér þegar barnafjölskylda bættist aftan við hana í röðina. Þetta ætlaði að verða næstum of auðvelt. „Geriði svo vel,“ sagði hún. „Endilega farið fram fyrir.“ „Í alvöru?“ spurði pabbinn en var þegar farinn að ýta kerrunni með yngra barninu framar. „Sjálfsagt að barnafólk fari á undan,“ sagði Sonja vingjarnlega. „Hvað eru þeir gamlir?“ „Tveggja og sjö,“ svaraði pabbinn og svarinu fylgdi þetta bros sem oft kom fram á varir feðra þegar þeir töluðu um börnin sín. Sonja hafði oft reynt að greina innihaldsefnin í þessu brosi en komst alltaf að þeirri niðurstöðu að meginuppistaðan væri stolt. Hún velti fyrir sér hvort Adam brosti ennþá svona þegar hann talaði um Tómas en hún hafði ekki séð Adam í tvö ár, nema í sjónhendingu. Öll þeirra samskipti fóru fram með smáskilaboðum og snerust bara um klukkan hvað Tómas yrði sóttur og hvenær honum yrði skilað. Hún virti fjölskylduna fyrir sér þar sem þau böksuðu farangrinum og börnunum áfram jafnóðum og röðin mjakaðist og fannst eins og það væru margir áratugir síðan þau Adam voru á ferðalagi í útlöndum með Tómas lítinn. Þau höfðu svo oft verið stressuð út af svo litlu og vissu ekki hversu dýrmætt það var að þurfa ekki að hafa raunverulegar áhyggjur. Smáatriðin sem þau höfðu áhyggjur af þá virtust svo innilega ómerkileg núna. Eftir að Sonja lenti í gildrunni. Það var einkennilegt hvað umhugsunin um fortíðna var ennþá sár. Börn gátu svo auðveldlega slegið hana út af laginu. Eldri drengurinn var bara sjö ára en örugglega jafn stór og Tómas. Síðast þegar hún sá hann, það er að segja. Hann hafði örugglega vaxið síðan. Hann virtist hreinlega stækka í hverri viku.
Ljóshærða konan með Samsonite-töskuna var komin að innritunarborðinu og barnafjölskyldan gaf Sonju færi á að standa nógu lengi í röðinni til þess að hún gæti fullvissað sig um að hún myndi innrita flugfreyjutöskuna. Um leið og sú gráa rann af stað á færibandinu var komið að Sonju að innrita sig og hún fann hjartsláttinn aukast. Fyrst eftir að hún lenti í gildrunni fékk hún alltaf sektarkennd yfir hjartslættinum og spennunni og vellíðaninni sem fylgdi í kjölfarið en núna vissi hún að það var ekki hægt að gera þetta án þess að njóta spennunnar. Þeir sem ekki þoldu álagið fóru að skjálfa og urðu flóttalegir til augnanna og komu þannig upp um sig. Hinir, sem entust í þessu, voru eins og Sonja: Rólegt fólk, fremur venjulegt í útliti og með óvenju háan streituþröskuld. Svo spillti ekki að vera klár og varfærin. Það skipti öllu máli að vera varfærin.
„Enginn farangur?“ spurði innritunardaman og Sonja hristi höfuðið og brosti. Hún rétti konunni vegabréfið sitt og þegar hún tók við því til baka ásamt brottfararspjaldinu gat hún næstum heyrt sinn eigin hjartslátt líkt og taktfast trommustef í eyrunum.“