Danshöfundurinn, leikkonan og dansarinn Chantelle Carey kom til Íslands í júní 2014 til að vinna með strákunum sex sem valdir höfðu verið til að taka að sér hlutverk sjálfs Billy Elliot í samnefndum söngleik. Drengirnir hafa síðan vakið athygli fyrir frábæran leik og dans. Chantelle hefur einnig starfað sem danshöfundur við Grímuverðlaunahátíðina og í þáttunum Iceland Got Talent.
Chantelle hélt síðan í sumar sviðslistanámskeið ásamt fleiri kennurum fyrir börn og voru námskeiðin þéttsetin og vinsæl. Ég gaf börnunum mínum tveimur yngstu kost á því að taka þátt í einu slíku og ég verð að segja að ég var upprifin af þeim árangri sem Chantelle hafði náð með stórum hópi barna á ólíkum aldri á aðeins tveggja vikna námskeiði.
Fagmennskan og aginn var áberandi þótt gleðin væri ekki langt undan. Þetta var alvöru sviðslistanámskeið fyrir börn þar sem miklar kröfur voru gerðar og árangurinn var glæsilegur.
En hver er hún þessi kona og frábæri kennari? Ég ákvað að hafa samband við hana og fræðast eilítið um hana sjálfa og bakgrunn hennar.
Hvaðan ertu og hvar hlaustu menntun sem dansari?
Ég fæddist í Norwich, Norfolk á Englandi. Þegar ég var 11 ára fluttum við til Írlands þar sem móðir mín býr enn. Árið 1999 þegar ég varð sextán ára hóf ég nám í LCPA (Leicester college of performing arts) sem var þriggja ára sviðslistanám.
Chantelle á að baki langan feril sem leikkona, dansari og danshöfundur og hefur starfað víða í Evrópu og á ferilskrá hennar má sjá að hún hefur notið velgengni í starfi.
Þú komst hingað upphaflega til að starfa sem aðstoðardanshöfundur í Borgarleikhúsinu en þú hefur átt farsælum ferli að fagna sem dansari og leikari sjálf og hefur meðal annars komið fram á West End í ýmsum hlutverkum. Ertu sjálf hætt að dansa og koma fram? Viltu núorðið frekar starfa sem danshöfundur og kenna?
Nei, ég er alls ekki hætt að koma fram og tek slíkum tækifærum fagnandi en á hinn bóginn elska ég að kenna og nýt starfs míns sem danshöfundur. Ég er búin að vera að kenna dans síðan ég var 15 ára, mamma rak sinn eigin listaskóla, er sjálf danshöfundur og umboðsmaður þannig að ætli það megi ekki segja að þetta sé í blóðinu.
Hversu mikilvægt er það að hefja nám snemma fyrir þá sem vilja ná langt í söngleikjaleikhúsinu?
Þekking er mikilvæg í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur. Og góð undirstaða er mikilvæg til þess að þú fáir vinnu og tækifæri í framtíðinni. Dansinn er erfið líkamleg vinna og námið krefst áralangrar vinnu til að þú náir tökum á honum. Með réttri þjálfun er hægt að ná þessu jafnvægi svo þú sért reiðubúinn til að gera sviðslistir að atvinnu. En eins og allir sviðslistamenn munu segja þér þá er þetta ekki auðveldasta leiðin til frama.
Hvernig kom samstarf þitt við danshöfundinn Lee Proud til? (Hann er danshöfundur Mary Poppins og Billy Elliot.)
Við Lee þekktumst áður en ég fékk tækifæri til að koma til Íslands. Ég hafði unnið lengi með aðstoðarmanni hans, Anthony Whiteman, og þegar þetta tækifæri gafst taldi Lee að ég myndi henta í starfið.
Þú berð ábyrgð á þjálfun leikaranna ungu sem fara með hlutverk Billy Elliot, hver var mesta áskorunin við þjálfun þeirra?
Mesta áskorunin var sú að við þurftum að byrja alveg frá grunni með strákunum sem höfðu engan bakgrunn í þeim dansi sem verkið krefst. Við vissum heldur ekki hversu lengi þeir yrðu að læra og tileinka sér hlutina sem líka var áhyggjuefni. En að einhverju leyti var þetta líka kostur því þú byrjar með alveg hreint borð og þar af leiðir gátum við mótað strákana danslega algerlega að þörfum verksins.
Þú stóðst fyrir námskeiðum ásamt öðrum í Borgarleikhúsinu í sumar fyrir börn og náðir svo eftir var tekið alveg hreint ótrúlegum árangri með þessum hópum. Hver er galdurinn að baki slíkum árangri með svo ólíka og óreynda einstaklinga innanborðs?
Krakkarnir sem tóku þátt í námskeiðunum stóðu sig frábærlega. Ég reyni að að halda jafnvægi á milli skemmtunar og aga. Ég tel að það tvennt sé mikilvægt ef maður ætlar að skipuleggja námskeið sem ögrar sköpunargleði nemenda en kennir þeim jafnframt fagmennsku og verklag.
Telurðu að það sé þörf á sérstöku söngleikjanámi á Íslandi eins og það sérhæfða nám sem hægt er að leggja stund á í Bretlandi og Bandaríkjunum?
Ísland gæti fært út kvíarnar hvað söngleikjaleikhúsið varðar. Menningarlífið hér er frábært og margt sem stendur listnemum í leiklist, myndlist og tónlist til boða en ég tel að hvað söngleikjaleikhúsið snertir og sjálfan dansinn sé úrval námsleiða takmarkað. Stórsýningar eins og MP og BE hafa hins vegar breytt landslaginu töluvert og opnað dyrnar og ég vona að sú þróun haldi áfram.
Værir þú ekki til í að vera sú sem viðheldur þeirri þróun?
Jú, ég væri til í það og er að leita leiða til að gera það að veruleika.
Þú hefur starfað um hríð á Íslandi og starfað með íslenskum leikurum og leikstjórum. Hver finnst þér munurinn vera á verklaginu hér og til dæmis í Bretlandi þar sem þú þekkir vel til?
Auðvitað eru hlutirnir á margan hátt ólíkir hér, en ég átti nú von á því áður en ég kom. Hvert land hefur sína vinnusiði en það sem ég kann að meta á Íslandi er að þið sníðið ekki stakk leikaranna þröngt og takmarkið þá í sérstaka tegund hlutverka heldur fá þeir tækifæri til að takast á við mjög ólíkar gerðir hlutverka og bæði á sviði, bíó og í sjónvarpi. Þetta er frábært því ef þú hefur hæfileikana, því ættirðu ekki að fá að njóta þín og sína fjölhæfni þína í ólíkum verkefnum? Því miður fá leikarar ekki slík tækifæri í Bretlandi.
Þú stendur fyrir jólanámskeiði fyrir krakka í Borgarleikhúsinu í haust, hverju mega þátttakendur búast við á námskeiðinu?
Þeir mega búast við skemmtilegu og fjölbreyttu námskeiði sem fagnar öllum hliðum jólanna. Við munum æfa söng, leik og dans og við munum hvetja krakkana til að reyna sig á öllum sviðum. Með mér eru frábærir kennarar, þau Guðmundur Elías Knudsen dansari, Gulla Ólafsdóttir mun sjá um söngkennsluna og Örn Árnason verður yfir leiklistarkennslunni. Ég hef það markmið að búa til fjölbreytt sviðslistanámskeið sem verður skemmtilegt og ögrandi en hefur líka menntunargildi.
Svo verður náttúrlega lokasýning þann 13. desember sem verður hápunkturinn og þá býðst vinum og fjölskyldu að koma og sjá krakkana sýna hvað í þeim býr og hvað þau hafa lært að tileinka sér á námskeiðinu.
Við fréttum af því að þú hefðir eignast kærasta á Íslandi. Þýðir það að við munum njóta hæfileika þinna lengur? Gerðu það, segðu já!
Já, satt er það, og eins og ég sagði áður er ég að þreifa fyrir mér með framhaldið. Heimili mitt er auðvitað í London en ég er opin fyrir því að verja meiri tíma á Íslandi.
Með þessu kvöddum við listakonuna Chantelle Carey og óskuðum henni góðs gengis. Jólanámskeiðið í Borgarleikhúsinu hefst 1. nóvember og hægt er að skrá krakka til þátttöku með því að senda Chantelle bréf á songleikjanamskeid@gmail.com.