Frá Geðhjálp:
Nokkrir fjölmiðlar hafa vakið athygli á því að morð í húsi við Miklubraut hafi verið framið í búsetukjarna Reykjavíkurborgar fyrir geðfatlaða. Stjórn Geðhjálpar lítur svo á að með því að tilgreina að morðið hafi verið framið í húsnæði fyrir geðfatlaða sé látið í veðri vaka að geðsjúkdómur hafi valdið verknaðinum. Með því sé kynt undir fordóma um að fólk með geðraskanir beiti fremur ofbeldi en annað fólk þegar slíkt sé alls ekki raunin.
Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk með geðraskanir beiti fólk ekki frekar ofbeldi eða brjóti af sér með öðrum hætti heldur en aðrir. Með sama hætti hefur komið fram að þegar einstaklingar með geðrænan vanda brjóta af sér eigi viðkomandi glæpur oftast rætur að rekja til fleiri og/eða annarra þátta en viðkomandi geðröskunar, t.a.m. vímuefnavanda, fátæktar eða atvinnuleysis. Rétt er að minna á í þessu samhengi að viðkomandi búsetukjarni er ætlaður íbúum með fjölþættan vanda.
Flestir fjölmiðlar fylgja þeirri meginreglu að sjúkdómsgreina ekki meinta gerendur glæpa með sykursýki, krabbamein eða aðra líkamlega sjúkdóma að undanskyldum örfáum tilvikum þegar sjúkdómsgreiningin hefur augljósa þýðingu fyrir viðkomandi frétt. Með sama hætti ættu fjölmiðlar ekki að sjúkdómsgreina meinta gerendur með geðrænan vanda og gefa þannig í skyn að ástæðu glæpsins megi rekja til viðkomandi röskunar því slíkt er sárasjaldan raunin.
Geðhjálp hvetur fjölmiðla til að láta af ofangreindri mismunun gagnvart sjúkdóms- og fötlunarhópum og leggjast þannig á árarnar með samtökunum í baráttu þeirra til að draga úr fordómum gagnvart fólki með geðraskanir.