Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Áföll eru ógeð

$
0
0

Af einhverjum óskýrum en afdrifaríkum ástæðum er ekki auðvelt að finna sterka hefð á Íslandi nútímans sem líknar og læknar þau í okkar hópi sem verða fyrir yfirþyrmandi áföllum. Eftir að skelfileg snjófljóð féllu á Flateyri og Súðavík þar sem fjöldi fólks lést fyrir 20 árum varð áfallahjálp til sem nýtt hugtak yfir fyrstu viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar. Þetta viðbragð er enn samtal strax eftir að áfallið ríður yfir en ekki heiti á langvinnri, persónulegri og djúpri heilandi hjálp.

Á Íslandi hefur líka einsemdin verið einkennandi félagsleg staða þeirra sem lifa af yfirþyrmandi áfall. Þau sem fyrir slíkum áföllum verða eru, hvernig sem á því stendur, oftar innikróuð af skömm sem samfélagið varpar á þau en ekki umföðmuð þeirri samkennd sem þyrfti.

Þessu hafa lýst jafnt þolendur kynferðisofbeldis, sifjaspells og heimilisofbeldis og líka fórnarlömb slysa, sjúkdóma og árásarglæpa. Í menningunni lúrir illt fræ efasemdarinnar um virði samferðafólksins – að það kunni nú sjálft að hafa boðið áfallinu heim. Einsemd og samúðarskortur þyngir þannig áfallið enn.

Sláandi sögulegt dæmi um þetta menningareinkenni er hvernig Leifur Muller var véfengdur, eini Íslendingurinn sem lifði af illa vist i fangabúðum nasista: Hann var svikinn í fangabúðir af Íslendingi, svikinn um samúð samfélags síns og svikinn í þriðja sinn þegar meingjörðarmaður hans hlaut alla þá hjálp og samkennd sem þurfti til að koma honum frá réttvísinni í Noregi í öruggt skjól á Íslandi.

Sambandið milli áfalla og heilsubrests – The Body Keeps the Score

Heilbrigðisþjónustan á Íslandi tekur áföll ekki nægilega alvarlega enn þann dag í dag. Sambandið milli áfalla og heilsubrests er hvergi í forgrunni meðferða og er sums staðar t.d. í áfengismeðferð að því er virðist jafnvel afneitað. Sálfræðimeðferðir eru ekki þáttur hinnar almennu gjaldfrjálsu heilbrigðisþjónustu og algengustu úrræði lækna er að ávísa svefnlyfjum, kvíðalyfjum og þunglyndislyfjum án eftirfylgni eða djúprar greiningar á persónulegum orsökum og þörfum. Þannig er sársaukinn og skaðinn deyfður en ekki læknaður. Á það hefur verið bent að ef þunglyndislyf væru verulega árangursrík ætti þörfin fyrir þau að hafa minnkað jafnt og þétt á síðustu áratugum. Reyndin er að notkun þeirra breiðist sífellt út og varir lengur í lífi hvers og eins.

Geðlæknisfræði hins stóra heims er þó í hraðri þróun í átt að margslungnari meðferð áfalla. Ný bók eftir Bessel van der Kolk, sem er læknir og prófessor við Bostonháskóla, hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum á þessu ári og verið á metsölulista New York Times. Hún heitir The Body Keeps the Score eða Líkaminn ber þess merki og þar lýsir hann því hvernig rannsóknir síðustu ára á breytingum á heilastarfsemi og taugakerfi fólks við áföll sýni fram á nauðsyn þess að taka miklu alvarlegar heilsubrestina sem áföll valda.

Kjarni málsins er að yfirþyrmandi áfall veldur margbrotinni grundvallarbreytingu á manneskjunni. Breytir líkamanum á margvíslegan djúpstæðan hátt, innstu skynjun, tengslum við umheiminn og samskiptum við annað fólk.

Einmitt svo hefur áföllum reyndar alltaf verið lýst af þeim sem fyrir verða – á íslensku er talað um að verða „aldrei söm og „vera gjörbreyttur maður“ – en læknavísindin og heilbrigðiskerfin hafa á síðari tímum verið harla lokuð fyrir slíkum mannlegum skilningi.

Breytt viðhorf læknisfræðinnar

Í Bandaríkjunum opnuðst vísindin fyrir víðari sýn vegna heimkominna hermanna af vígvöllum víðs vegar um heiminn. Þeir gátu illa eða ekki komist aftur inn í samfélagið bugaðir af áfallastreituröskun. Á Íslandi hafa engir slíkir atburðir orðið til sambærilegrar vakningar.

Áfall umturnar því hvernig hugur og heili nema og skynja. Ekki einungis því hvort hugsað er jákvætt eða neikvætt og um hvað – heldur hvort manneskjan yfirleitt geti beitt hugsun sinni af fullum fyrri krafti.

Síðustu áratugi hefur verið litið svo á að heilunin komi með því að segja sögu sína, en nú er vitað að þó það sé gríðarlega mikilvægt nægir það ekki til. Frásögnin nær nefnilega ekki að umbreyta t.d. ósjálfráðum viðbrögðum taugakerfisins eða streituhormónum sem gera manninn ávallt ofurnæman og lífið sársaukafullt.

Áfall rýfur tengsl manneskjunnar við sjálfa sig. Upplifun atburða leysist því upp í brot og brotabrot. Þau sem lesa verk Nóbelskáldsins Svetlönu Alexíevitsj sjá merki þessa í frásögnum kvenna úr stríði.

Stjórn á vissum tilfinningum hverfur. Sumar tilfinningar eru niðurtroðnar djúpt í doða og ónæmi. Sjálfið hverfur í svarthol sannfæringar um að vera einskis virði. Og lykilatriði er að fólk missir tengsl við líkama sinn.

Hin breytta verund manneskjunnar eftir yfirþyrmandi áfall einkennist af því að viðkomandi manneskju finnst hú ekki finna fyrir líkama sínum, finnst hann óþekkjanlegur og framandi oft skammarlegur og einskis virði.

Van der Kolk segir að lykillinn sé að viðurkenna þessi gríðarmiklu heildaráhrif yfirþyrmandi áfalls. Sjá að áhrifin festast í öllum kerfum líkamans og að það sé þess vegna sem fólk lýsi sér sjálft sem gjörbreyttum manneskjum. Heilun frá grunni byrji á því að endurtengja manneskju og líkama. Manneskjan verði að komast í samband við sjálfa sig með því að komast í samband við líkama sinn og til þess séu margar leiðir.

Kjarnþjálfun er aðferð sem virkar

Kjarnþjálfun er aðferð sem Þórdís Filipsdóttir hefur þróað á 15 árum sem gerir einmitt þetta sem Kolk kallar eftir – auk þess að nýtast við alls konar aðrar aðstæður s.s. ofþjálfuðum íþróttamönnum, fólki með næringarvanda, unglingum í leit að sjálfum sér og eldra fólki í leit að nýrri viðeigandi hreyfingu – í raun hverjum sem vill gera sér gott.

Þórdís notaði aðallega menntun sína í hefðbundinni vestrænni líkamsþjálfun og samtalsmeðferðum og kínverskri læknisfræði, hugleiðslu og hreyfilist auk reynslu sinnar í starfi sínu undanfarin 15 ár til að móta aðferðina. Af reynslunni hefur hún líka lært að þekkja hvað hjálpar hverjum og einum og býr yfir miklum sjóðið staðfestra frásagna þar um.

Úr hefur orðið sérstök aðferð, Kjarnþjálfun sem felur í sér endurnýjun kynna við eigin líkama og kerfi hans s.s. vöðva, blóðrás, taugar, orkubrautir, huga og sál. Samtalið er notað, ekki til að kryfja það sem er búið og gert, heldur til að skapa nýja meðvitund um lifandi líkama og umsköpunarmöguleika hvers og eins. Stöðnun og hindranir leysast upp, ný eðlisbreyting leysir af hólmi þá sem áfallið og yfirþyrmingin þrykkti miskunnarlaust og grimmdarlega í innstu og sárustu kviku.

Þetta tekst vegna þess að allir þættir tilvistarinnar eru tengdir saman. Líkaminn og þar með manneskjan og tilvistin sem unnið er með, sendir skilaboð sem út frá sér til kennarans og inn á við til nemandans. Samtalið fer að snúast um merkingu þessara skilaboða og vilja einstaklingsins til að komast í gegnum hindranir sínar, þ.á m. losna unda fjötrum fyrri áfalla. Þetta er mikilvægt því einstaklingurinn verður sjálfur að vilja.

Meðferðartíminn nógu langur og tímarnir nógu tíðir til að fara djúpt og komast á sífellt á nýja og nýja áfangastaði. Þetta er sjálfskönnun undir handleiðslu, landkönnun með leiðsögn, sáttargjörð í samúðarfullu umhverfi, sprenging til að komast á nýja braut – ný frjáls manneskja.


Herslumunurinn sem skiptir sköpum

Fjöldi fólks ber vitni um slíkan árangur. Hann er einstæður og vandfundinn. Hann nær inn að kjarnanum sem ég heyrði konuna í áfallamiðstöðinni í New York lýsa að sér virtist alltaf enn lúra enn eftir í fólki að hefðbundnum samtalsmeðferðum loknum. Fólkið þyrfti meiri hjálp til viðbótar. Slíkum stuðningsmeðferðum eins og Kjarnþjálfun er hvarvetna í Bandaríkjunum bætt við opinber úrræði heilbrigðiskerfis við áföllum.

Í áfallamiðstöðinni sem Kolk rekur í Boston eru margvíslegar slíkar leiðir í boði og hann lýsir í bók sinni hvernig læknavísindin uppgötva og viðurkenna hratt á okkar tímum í rannsóknum á áhrifum áfalla hvað enn vanti í meðferð og hvaða viðbætur þurfi til að uppræta áhrif áfalla. Við viljum ná herslumuninum sem skiptir sköpum í lífi fólks.

Yfirþyrmandi áföll klessukeyra alla tilvist einstaklingsins, öll kerfi líkamans og sálina með. Áföll eru ógeð.

Kjarnþjálfun tengir manneskjurnar við líkama sinna og kerfi hans á nýjan leik, leysir upp hindranir, eflir styrkleika, styður manneskjuna með samúð og kærleika. Kjarnþjálfun er þannig dýrmæt nýjung á Íslandi – sérstaklega í lífi allra þeirra sem munu njóta.

Viðtal við Þórdísi Filipsdóttur má lesa hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283