Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hvernig umgangast skal verðandi…MÆÐUR!

$
0
0

Eva Ruza skrifar:

Að ganga með tvíbura er ansi skrautlegt oft og tíðum. Ég veit það því ég gerði það fyrir 6 árum og fór létt með það… Þau voru reyndar tekin með keisara þannig að ég tók smá Hollywood á annars ferlega fína meðgöngu. Að fá að vita að maður gangi með tvö börn í einu eru gríðarleg forréttindi, sérstaklega í ljósi þess að við hjónin höfðum mikið fyrir því að eignast þau.

Í sónarnum þegar okkur var tilkynnt að laumufarþegi væru um borð, man ég að ég flissaði eins og 15 ára skólastelpa. Þegar út í bíl var komið breyttist flissið í smá sjokk með tilheyrandi grenji og dramatík yfir þessum fréttum sem er held ég fullkomlega eðlilegt … eða er það ekki? Siggi, minn heittelskaði eiginmaður, hélt hins vegar kúlinu alla 7 og 1/2 mánuðina sem voru fram undan hjá okkur – Thank God.

Ég var heppin. Fann lítið sem ekkert fyrir stækkandi bumbu. Ég varð hins vegar vör við ört stækkandi stökkbrettið sem óx framan á mig. Ég bara vissi ekki að brjóst gætu stækkað svona, frá mandarínum yfir í fulla melónustærð.
Hann Siggi minn fékk hins vegar að finna fyrir skapinu. Þessi elska. Greyið. Elsku kallinn. Hetjan mín. Enda ekkert djók að vera með tvöfalda hormónasveiflu í gangi allan liðlangan daginn hjá manneskju sem er að eðlisfari mjög geðgóð, nema þegar hún er svöng.

31v

Eitt skiptið gekk ég þó hættulega nærri eiginmanninum þegar ég kom heim úr óléttuleikfimi gengin um það bil fimm mánuði á leið. Þessi saga endurspeglar svo innilega geðsveiflurnar sem áttu það til að taka sér bólfestu í sálu minni næstu mánuðina og ræna mig öllu andlegu jafnvægi.

Ég kom heim og var gjörsamlega að andast úr hungri. Og þeir sem þekkja mig vita að svöng Eva Ruza er frekar brjáluð manneskja, burtséð frá því hvort hún er ófrísk eða ekki.

Nú, ég kom heim og spurði hann Sigga hvað væri í matinn. Hann horfði blíðlega á mig, líklegast meðvitaður um skap óléttu konunnar sinnar þessa stundina og sagði: „þú mátt ráða, ástin mín!“

Leyfa óléttu konunni bara að ráða hvað hún vildi borða?

Ég leit á hann ill á svip og tilkynnti honum að mig langaði andskotann ekkert að ráða. Hann var fljótur að bregðast við, ennþá ljúfur á svip og segist ætla að stökkva og sækja pitsu. Pitsan kom á innan við hálftíma en ég var komin með risavaxinn kökk í hálsinn.

Pitsusneiðin nálgaðist varir mínar og ég byrja að hágrenja. Sko grenja með ekkasogum.

Siggi sneri sér við og hélt að ég hefði bitið tunguna í tvennt, svo mikill var gráturinn. Hann spurði mig hvað amaði eiginlega að. Ég stamaði milli ekkasoganna: „Ég er bara svo hrikalega mikið svöööööööng.“

Hann horfði á mig hissa og sagði: „Já, en Eva mín þú ert að borða.“

Ég horfði á hann og sagðist alveg gera mér grein fyrir því. Það breytti því ekki að ég væri alveg rosalega svöng og enn að vinna í að sefa þá hræðilegu tilfinningu.

20 mínútum síðar, þegar ég var búin að jafna mig og matur kominn inn í systemið, leit ég með galsa á Sigga og spurði hlæjandi hvort við gætum kannski fengið okkur ís í eftirmat!

Siggi svaraði þessu með svip sem ég mun aldrei gleyma: ,,Þessi manneskja er snarbjáluð,“ en þorði ekki annað en að samþykkja. Sem betur fer – fyrir hann.

Tveimur og hálfum mánuði og nokkrum geðköstum seinna, eða á 34. viku, stigum við inn á Landspítalann, tilbúin að verða foreldrar í fyrsta sinn.

Þetta var allt þess virði.

Ég á það samt til að nota á hann Sigga minn – ef ég þarf að fá einhverju fram – að ég hafi gengið MEÐ TVÖ BÖRN Í EINU! Rétt eins og ég sé eina konan sem hafi gert það. Þetta svínvirkar oftast og ég get því mælt með þessu. Ég hef einnig varað hann við því að ég muni grípa til þessarar setningar þangað til börnin verða 18 ára.

Og bara svona ef einhver er að spá þá varð ég auðvitað hvers manns hugljúfi stuttu eftir fæðingu og Siggi ætti auðvitað að fá einhvers konar verðlaun fyrir að umbera ólétta konuna sína.

IMG_20151019_130137

Ef það eru einhver ljúfmenni þarna úti sem eru í svipuðum pakka þá eru nokkur atriði sem verðandi feður og aðrir andlegir stuðpúðar ættu að hafa í huga:

1. Um leið og frúin mætir inn um dyrnar, þá er langbest að stökkva til og bjóðast til að taka af henni úlpuna / jakkann. Í flestum tilfellum er hún að kafna úr hita og gæti tekið upp á því að fá óstöðvandi grátkast þess vegna.

2. Þegar komið er að kvöldmat og hún spyr hvað ætti að hafa í kvöldmatinn vertu þá tilbúinn með svar. Ekki segja: ,,þú mátt ráða.“ Best er að vera bara búinn að skipuleggja vikumatseðil. Svöng ólétt kona er yfirleitt BRJÁLUÐ ólétt svöng kona.

3. Aldrei herma eftir göngulagi hennar nema þegar að það er öruggt að hún sé í verulegu stuði fyrir mörgæsarbrandarann. Hún er manstu … að búa til líf. Eitthvað sem líkami þinn er ófær um að gera. Best er samt að sleppa mörgæsinni alveg. Hormónarnir, manstu.

4. Bjóddu upp á tásunudd en mundu að það á ekki alltaf við – þú býður ekki upp á tásunudd í Bónus. En mundu samt alltaf að spyrja. Henni gæti þótt pirrandi ef þú færir að vesenast við þetta óvænt yfir bíómyndinni.

5. Hún er súkkulaðikleina. Hún má nánast segja og gera það sem hún vill í níu mánuði. Vertu blíður, strjúktu henni og láttu henni finnast hún vera yndislegasta mannveran sem gengur á þessari jörð.

7. Brjóstin stækka, en það þýðir ekki að þau séu að stækka fyrir þig. Þetta eru mjólkurbú. Fóðurstöðvar fyrir hið nýja líf.

8. Ekki hlæja þegar hún reynir að velta sér fram úr kasólétt á morgana nema að hún hlægi sjálf. En passaðu samt að hlæja ekki hærra en hún. Hláturskastið gæti breyst í öskur og grát á örskotsstundu.

9. Ekki kaupa föt á hana. Gefðu henni frekar blóm. Þau passa í blómavasann. Alltaf.

10. Umfram allt – vertu bara til reiðu. Það er í rauninni það eina sem hún þarf.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283