Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

150 milljónir í PR starf Þjóðkirkjunar mun vega lítið gegn milljörðunum sem ríkið ver í menntun árlega

$
0
0

Þjóðkirkjan ætlar að setja 150 milljónir í að auglýsa sig og blessun guðs á næstunni í þeirri von að fólk hætti að segja sig úr henni. Er þetta talin auðveldari leið en að kirkjunnar menn hætti að hegða sér eins og kjánar. Íslenska ríkið eyðir nú þegar milljörðum í menntamál þannig að þessar 150 milljónir duga nú skammt til að „rugla í liðinu“ eins og sagt er.

„Boðun og predikun kirkjunnar nær ekki til almennings með nægilega áhrifamiklum hætti, þegar hún er orðin hornreka hjá RÚV og lítt áberandi á öðrum fjölmiðlum og á mannamótum öðrum en kirkjulegum athöfnum og messum,“ segir í skýrslu starfshóps sem lögð var fyrir Kirkjuþing Þjóðkirkjunnar um helgina.

Það vekur furðu að jafnvel þótt flestir fermist enn í kirkju og kirkjan hafi greiðan aðgang að ungmennum með boðskap sinn á vettvangi fermingarfræðslunnar er það ekki að duga til að sannfæra þau um að gefa Jesú líf sitt. Að gerast Kristmenn Krossmenn! Augljósasta svarið við því af hverju kirkjan nær ekki að heilaþvo unglingana myndi vera það að boðskapur kirkjunnar er ótrúverðugur og ungt fólk nú á dögum er að jafnaði vel upplýst og betur menntað en kynslóðirnar á undan. Því fermast flestir gjafanna vegna og líta á orð guðs eins og hvað annað bull sem maður neyðist oft til að hlusta á til að fá það sem maður vill.

Baráttan um sálir

Ákveðið var á Kirkjuþingi 2014 að skipa þriggja manna starfshóp sem myndi gera tillögur um það hvernig megi fjölga meðlimum í þjóðkirkjunni. Tillögurnar voru misgóðar. Sú árangurríkasta er sennilega tillagan um að kirkjunnar fólk fari bara einfaldlega að ríða meira. Framleiða börn á færibandi sem hægt er að ala upp í kristinni trú og stjórna með guðsóttanum þangaði til einstaklingarnir hafa varið svo miklum tíma innan kirkjunnar að þau hafni sjálfkrafa öllu sem mælir gegn henni af ótta við að stórum hluta ævinnar hafi verið fórnað á altari tilgangsleysis.

Önnur tillagan var að taka við flóttamönnum hingað til lands gegn því skilyrði að þeir taki kristna trú. Mikil hefð er fyrir slíkri nauðung innan skipulagðra trúarbragða og því er hún einföld í framkvæmd.

Skýrsla starfshópsins frá 2014 var lögð fram á Kirkjuþingi um helgina. Í henni er bent á að þjóðkirkjufólki hafi fækkað um átta þúsund á einum áratug. Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar teljist nú 73,6 prósent þjóðarinnar til þjóðkirkjunnar miðað við 84,6 prósent á árinu 2005. Þar er ekki talinn sá stóri hluti þjóðkirkjufólks sem aðeins er í henni af ótta við að særa aldraða ömmu sína með úrsögn.

„Aukin veraldarhyggja, skynsemishyggja og vísindahyggja hafi meðal annars leitt til hnignunar hefða og aukinnar áherslu á einstaklingsbundin réttindi og valfrelsi í stað samfylgdar á trúarlegum forsendum. Saman hafi þróunin gengið í átt til jaðarsetningar hins trúarlega ásamt hnignun kennivalds kirkjunnar og uppflosnun trúarlegra hefða,“ segir starfshópurinn ennfremur í skýrslu sinni.

Á mannamáli þýðir það að eftir því sem fólk verður greindara og hefur meiri menntun, því ólíklegra er það til að vera kristið. Þá eru skynsemin og vísindin helstu óvinir kirkjunnar en það er svo sem ekkert nýtt og hefur verið frá því á tímum Galileos.

Í skýrslunni kemur einnig fram að mörgum finnst að kirkjan veiti ekki svör við siðferðilegum og félagslegum vandamálum. Það er rétt og einnig má benda á að mörg þessara vandamála eiga beinlínis upptök sín í trúnni eða verið fest í sessi vegna hennar. Að konan skuli vera undirgefin karlinum, fólk skuli bæla inni kynferðislegar langanir og fordómar gegn samkynhneigðum séu kristileg gildi sem við erum enn að glíma við og reyna að losa okkur undan. Í skjóli trúarinnar hafa mannréttindi, sérstaklega kvenna, verið fótum troðin og réttur þeirra til að ráða sjálfar yfir líkama sínum hunsaður.

Í boðorðunum segir að þú skulir ekki girnast konu náunga þíns en hvergi er minnst á eiginmann. Annað hvort mega konur girnast karlmenn að vild eða biblían gerði einfaldlega ekki ráð fyrir þeim möguleika að konur væru líka menn. Fyrir utan það að minnst er á þrælaeign eins og sjálfsagðan hlut og konur gerðar að hverjum öðrum búpening því jafnalvarlegt er að öfunda nágranna þinn af uxa- og asnaeign og eiginkonu hans.

Þó verður að telja Þjóðkirkjunni til tekna að hún hefur sem betur fer vatnsþynnt sína kristni svo  að mesti miðaldahátturinn er farinn af henni. En eftir stendur kirkja með bók sem hún fylgir ekki og það óneitanlega skemmir trúverðugleika hennar. Það að kirkjan sé lifandi þýðir einfaldlega að hún hagræðir seglum eftir vindi. En þó ekki fyrr en hún er næstum búinn að stranda á skeri.

Vantrú og hatursmenn kirkjunnar

„Eftir aldamót hafa svo skotið upp kollinum félög sem leggjast beinlínis gegn þjóðkirkjunni og kristinni trú. Slík félög hafa verið áberandi á seinni árum og rödd þeirra verið hávær, bæði í fjölmiðlum sem og hjá fótgönguliðum sem fara um og hvetja til úrsagnar úr Þjóðkirkjunni – og ganga með þar til gerð eyðublöð á sér – á sama tíma og hvatt er til skráningar í þeirra eigin félög,“ heldur skýrslan áfram.

Við erum þó nokkuð margir einstaklingar sem höfum fengið okkur fullsödd af ríkisstyrktum lygum. Við höfum enga peninga á bak við okkur. Aðeins þrána um betra samfélag þar sem börn eru ekki hrædd með vítislogum, allir eru jafnir og vísindin – sem eru það eina sem nokkurn tíma hefur virkað gegn sjúkdómum – séu efld.

Slys, hörmungar og gæfa hittir alla jafnt hvort sem þeir trúa á guð eða ekki. Þegar einhver þakkar guði fyrir heilsu barns þá er ljóst að eitthvað klikkaði hjá þessum guði þegar annað barn er ekki eins heppið. Allt það sem kirkjan stendur fyrir hrynur til grunna þegar menn líta yfir sviðið og sjá að trúin hefur aldrei orðið mönnum til lífs og ef það er annað líf eftir þetta þá er það ósannanlegt og allt tal um ríkidæmi þar jafn líklegt og að það bíði okkar Valhöll og barátta við jötna fram að Ragnarökum.

Persónunjósnir og gagnanotkun

Að sögn starfshópsins miðast tillögur hans við að draga úr fækkun sóknarbarna og stuðla að nýliðun innan þjóðkirkjunnar. Þrjú meginstef tillagnanna eru í fyrsta lagi aukið fjármagn og aukin áhersla á fræðslu og fjölmiðlun, í öðru lagi notkun félagatals þjóðkirkjunnar í sóknarnefndum og stuðningur við starfsfólk og í þriðja lagi efling æskulýðsfélaga og áhugamanna sem þátttakenda í umræðunni.

„Þjóðkirkjan kaupir aðgang að þjóðskrá fyrir 150 prestsembætti. Þar er hægt að komast að því hverjir eru í þjóðkirkjunni eftir kennitölum og kemur þá upp ef börn innan 18 ára tengjast viðkomandi kennitölum,“ bendir starfshópurinn á.

Kirkjan fer þá í miðaða markaðsetningu og færist sífellt nær 21.öldinni. Allt fjármagn til aukinnar fræðslu og fjölmiðlunar fullyrði ég að sé tilgangslaust. Það vita allir hvað kirkjan stendur fyrir. Boðskapur hennar fer ekki framhjá neinum á Íslandi. Þeim er svo sem í sjálfsvald sett að nota upplýsingar úr félagatali sínu eins og hver annar Lionsklúbbur en þarf að vara sig á því að fara ekki í kjölfarið að mismuna fólki eftir trúarskoðunum þeirra. Hún hefur verið gjörn á að mismuna fólki í gegnum tíðina. Sama hvað kirkjan segir þá eru það allir landsmenn sem borga laun presta. Á meðan það varir og prestar eru embættismenn þá hljóta allir að hafa einhvern rétt gagnvart henni.

Þriðja atriðið er varðar eflingu æskulýðsfélaga og áhugamanna um þátttöku í umræðunni er gott. Við sem ekki trúum höfum mjög gaman að umræðunni um trúmál. Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum. Oft er spurt í gríni hvernig þú vitir að einhver er trúlaus? Svarið er einfalt, hann segir þér það.

Viðbrögð

Vantrú eða aðrir mun varla bregðast á nokkurn hátt við því að aukið fé fari í PR starf kirkjunnar. Kirkjan hefur verið með áróður alstaðar öldum saman og það skiptir engu. Menntun og almenn skynsemi mun hafa bullið undir. Þeim fjölgar sem finnst kirkjan vera sóun á peningum. Jafnvel meira nú þegar eyða á meiri pening í að reyna sína fram á gagnsemi hennar.

Málið er bara að ef kirkjan væri gagnleg, ef hún væri nauðsynlegur þáttur í samfélaginu, ef trúin gerði eitthvert gagn, þá hefðum við orðið þess vör. Þegar fyrrverandi biskup Íslands misnotaði konur og börn þá hefði maður haldið að kirkjan hefði staðið með þeim. Ef guð er til þá hefði maður haldið að hann hefði verið töluvert ósáttur við sinn helsta talsmann hér á Íslandi og hefði gripið inn í. En nei, ef eitthvað er þá verndaði hempan hann og kirkjan og samfélag hennar.

Tími kirkjunnar á Íslandi er að líða undir lok. Ef kirkjan vill halda áfram að ljúga að veikgeðja fólki þá ætti hún að fara að selja fæðubótarefni.

Skýrsla starfshóps til kirkjuráðs frá júlí 2015 Skýrsla starfshóps til kirkjuráðs 2015


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283