Þetta hugtak er annars vegar þekkt sem einkennandi fyrir mormóna og hins vegar úr hernámi Þjóðverja á Danmörku, um Dani sem undir blálok heimsstyrjaldarinnar síðari urðu eldheitir föðurlandsvinir.
Undanfarið hefur verið afar athyglivert að fylgjast með umræðunni um ‘samviskufrelsi’ íslenskra presta, en téð ‘samviskufrelsi’ virðist mér vera sprottið beint úr Deuteronomy, eða fimmtu Mósebók, sem fjallar fjálglega um refsingar þær er beita skal hina vanheilögu:
Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: ‘Vér skulum fara og dýrka aðra guði,’ þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. (5Mós 13.6-10)
Þessa Gamla Testamentis-útgáfu af ‘kristni’ tel ég afar ógeðfellda og – höfum það í huga – GT er pre-kristni! Enginn Kristur er kominn til sögunnar í GT, heldur bara pabbi hans (þótt Rómverjar hafi að vísu bent á að: Pater semper incertus) – í dramakasti, að spá í hvar hann eigi að varpa næstu sprengju – nú eða eldi, brennisteini og plágum. Og það að íslensk ‘þjóðkirkja’ skuli fylgja Gamla testamentisrefsigleði svo fjálglega, gerir að verkum að það starfsfólk hennar sem ætlaði sér að beita ‘samviskufrelsi’ sínu, verðskuldar viðurnefnið ‘síðari daga heilagir’.
Lítum aðeins á tímalínuna: Móses fæddist um árið 1593 f. Kr. og dó, 120 ára gamall árið 1473 f. Kr. (5Mós 34.7.) Hann er talinn hafa samið Mósebækurnar fimm og Jobsbók, á meðan hann var í óbyggðunum og á Moabsléttunni; áður en Ísraelar komust til Fyrirheitna landsins.
Jesús fæddist um árið 2 f. Kr., svo um 1470 ár eru á milli dauða Móse og fæðingu Jesú.
Það sem kemur fram í Mósebókunum er ekki kristni. Og mikið væri fínt ef fólk hætti að vísa í Mósebækurnar sem boð sem á að framfylgja í fúlustu alvöru. Við erum ekki hebreskir þrælar að flýja undan Egyptum. Og heldur ekkert átakanlega ‘kristin’ ef út í það er farið. En ef við tökum nú Ritninguna jafn bókstaflega og klerkarnir taka fimmtu Mósebók, þá segir reyndar í Hebreabréfinu að Nýja testamentið sé nýr sáttmáli Guðs við kristna menn, sem komi í staðinn fyrir lögmál Gamla testamentisins og því sé það fallið úr gildi:
„Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan. Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan.“
(Heb. 8:7 og 8:13)
Þótt ‘samviskufrelsið’ hafi verið afnumið í gær, efast ég um að að allir prestar íslensku þjóðkirkjunnar taki nú skyndilega upp þjónustuboðorðið elskum alla, þjónum öllum. Því miður er líklegra að þeir leggist ‘veikir’ þegar kemur að athöfn sem brýtur í bága við ‘samviskufrelsi’ þeirra í það og það skiptið. Þá gæti verið gagnlegt fyrir þá að fletta upp á Lúkasarguðspjalli (sem er í NT) og lesa:
„Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“
(Lúkas 6:42).
Kristnir menn hafa þó löngum verið duglegir að vitna í valda kafla GT þegar það hentar málflutningi þeirra. Sama gildir reyndar um NT, þar velja kristnir og hafna eftir tíðarandasveiflum, eins og raunin er m.a. í sértrúar- og ofsatrúarsöfnuðum í Bandaríkjunum – og meðal þess ‘kristna’ fólks sem gefur klerkum sínum ‘samviskufrelsi’ til þess að geta nú mismunað sóknarbörnunum ærlega.