„Við köllum þetta einfaldan tölulegan samanburð“
Eyþór Arnalds, formaður nefndar um starfsemi og rekstur RÚV frá 2007, var í Síðdegisútvarpi Rásar 2 fimmtudaginn 29. október. Í skýrslunni er að hans eigin sögn „mikið af tölum“, og má draga af henni margvíslegan lærdóm.
Eyþór lætur sig ekki muna um að leysa fjárhagsvandræði Landspítalans á einu bretti:
„Bara svo við áttum okkur á hvað þetta eru háar tölur – þrír og hálfur milljarður, sem koma semsagt í útvarpsgjaldið á ári – þetta er tala sem myndi duga fyrir fjármögnun á 80 milljarða Ríkisspítala.“
Og hér hélt okkar fávísa þjóð að bygging Þjóðarsjúkrahúss væri eitthvert stórmál! Staðreyndin er sú að við gætum reist glænýtt sjúkrahús frá grunni – eitt með öllu, samanburðarhæft við fremstu sjúkrahús Norðurlanda – og hafist handa strax. Um það leyti sem fyrsti sjúklingurinn hlyti lækningu, kannski árið 2020-’22, myndi ríkissjóður borga fyrstu árlegu afborgunina, u.þ.b. 4 milljarða króna á ári.
Kvennablaðið trúði ekki eigin augum og bar þetta undir fjármálasérfræðinga sem staðfesta mat Eyþórs Arnalds. Glænýtt hátæknisjúkrahús myndi kosta okkur mun minna en síðasta afslátt sem útgerðarmenn fengu af veiðigjöldum og svipaða upphæð og við greiðum árlega til RÚV þegar sá hluti útvarpsgjaldsins sem ríkið notar í óskylda starfsemi hefur verið dreginn frá.
Hér er auðvitað ótalið það fé sem fengist fyrir umfangsmiklar eignir Landspítalans – meira en 150.000 fermetra húsnæðis og stórar lóðir á bestu stöðum í borginni. Söluverðmæti þessara eigna er erfitt að meta en Eyþór Arnalds myndi varla taka minna í mál en 15-20 milljarða. Eftir vel heppnaða eignasölu væri sjúkrahús okkar allra næstum helmingi ódýrara en RÚV okkar allra.
Það má því segja að Eyþór Arnalds og hans vaska nefnd hafi ásamt öðrum störfum sýnt fram á að bygging nýs Landspítala er ekki minnsta vandamál.
Vel gert Eyþór!
Viðtalið við Eyþór Arnalds er að finna í Sarpinum og byrjar á 48:00.