Út er komin skáldsagan Leiðin út í heim eftir Hermann Stefánsson sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir nýbreytni og frumlega hugsun í skáldskap. Í bókinni bregður höfundur á leik með fræga barnabók Jens Sigsgaard um Palla sem var einn í heiminum en veltir um leið upp tilvistarlegum spurningum. Í fréttatilkynningu frá útgefanda segir um bókina:
„Palli vaknar í rúminu sínu. Hann er einn í herberginu og þar er undarlega kyrrt og hljótt. Hann sest upp. Fötin hans liggja snyrtilega samanbrotin á stólkoll við bláan rúmgaflinn. Undan rúminu skaga uppreimaðir skór. Maðurinn veit að hann dreymdi eitthvað en man ekki hvað það var.
Palli er einn í heiminum en þó ekki því hér eru að lágmarki tveir. Heimurinn innra með manneskjunni og heimurinn fyrir utan hana. Falli heimurinn hið ytra snurðulaust saman við innri heim er maðurinn einn í einum heimi. Það er mikil og dapurleg einsemd. Sé munur á heimunum en ekki milligengt er maðurinn í öðrum heimi.“
Við birtum hér bókarkafla:
Einn í alheiminum
Byrjum á byrjuninni. Maður nokkur vaknar í rúminu sínu. Við skulum kalla hann Pál. Páll er ástríðusál. Hann veit að hann dreymdi eitthvað en man aðeins óljós svipleiftur draumsins.
Hann er einn í herberginu og þar er undarlega kyrrt og hljótt. Herbergið er í lítilli íbúð, íbúðin er í nokkurra hæða húsi og húsið er í borg. Hann sest upp í rúminu og horfir fram fyrir sig. Fötin hans liggja snyrtilega samanbrotin á stólkolli við bláan rúmgaflinn. Undan rúminu skaga uppreimaðir skór.
Hann leggur höfuðið aftur á koddann og reynir að rifja upp drauminn. Koddinn er stór, honum þykir gott að hafa mjúkt og hátt undir höfðinu og þannig sefur hann best. Sængin er hvít eins og koddinn og dúar líkt og fiðrið í henni sé á fleygiferð í vindi, líkt og gusti milli fjaðra.
Draumurinn vill ekki skýrast. Kannski er hann endurtekinn, hann minnir á annan draum – draum úr bernsku.
Einhvern tíma þyrfti Páll að koma sér upp draumadagbók og skrifa í hana draumana áður en þeir hverfa inn í daginn. Þeir gufa upp yfir morgunkaffinu og eru horfnir með öllu á hádegi, ummerkjalaust.
Það er snemma morguns og sól skín inn um rúðuna. Gulblá gluggatjöldin bærast í örlítilli og hljóðlausri golu sem blæs inn um glufuna á glugganum. Pál langar ekki á fætur. Best væri að geta sofið til eilífðarnóns. Hann beitir sig fortölum. Morgunþyngslin þurfa að víkja. Dagurinn er svo glaðlegur og sólskinið minnir á gómsætan íspinna.
Enginn umferðarniður berst inn með blænum. Það er víst mjög snemma morguns og hann gæti allt eins lúrt örlítið lengur, öllum að meinalausu. Sofið á sitt græna eyra.
Skyndilega finnst honum eyrun á sér stærri en þau eiga að sér að vera. Hann veit að ástæðan er sú að allt er svo ósköp hljótt í herberginu. Röndótta rýjamottan gefur ekkert hljóð frá sér. Gæti hann fest svefn að nýju myndi hann kannski ná tangarhaldi á draumnum. En hann er ekki nógu syfjaður til þess. Hvenær sofnaði hann eiginlega í gærkvöldi? Engin bók liggur við hliðina á rúminu svo ekki hefur hann lesið fyrir svefninn.
Á veggnum fyrir ofan rúmið hangir málverk af svörtum fíl sem hann, Páll, notar stundum til þess að koma sér áleiðis inn í draumalandið. Fíllinn stendur í dimmgrænu grasi á myrkum skógarbotni í heimahögunum í Afríku. Trjágrein slúttir yfir ranann á honum og fíllinn gjóar hvítu auga kankvíslega að áhorfandanum. Stundum þegar svefninn lætur á sér standa liggur Páll á bakinu í rúminu og horfir í augað á fílnum og reynir að hverfa inn í það. Þegar inn er komið tekur hann á rás í gegnum skógarþykkni svo skrjáfar í laufinu og smádýr skjótast undan og fuglar fljúga. Framundan er rjóður og þar væri hægt að nugga börk utan af regnhlífartré og naga safaríkt kjötið innan úr baóbab eða leita uppi pylsutréð með sínum sætu ávöxtum.
Þögnin er grunn eins og sundlaugarendinn þar sem ekki má stinga sér. Harður botn yrði fljótt fyrir höfði þess sem styngi sér á kaf í þessa þögn. Hún er þunn eins og skurn á eggi. Maðurinn sem við köllum Pál heyrir ekki í sjálfum sér fyrir utanaðkomandi þögn. Páll fóðrar stundum sína eigin þögn með gömlum blúslögum. Blúslög hefjast á því að einhver vaknar um morgun. Sá nývaknaði í blúsnum er jafnan einmana og blár. En Páll er hvorki einmana né blár. Honum líður prýðilega, myndi ég segja, og það er víst ég sem hef það verkefni með höndum að lýsa því.
Páll skríður fram úr rúminu sínu og fer á stjá.“