Björg Valgeirsdóttir er listahandverkskona sem prjónar, heklar og saumar og hannar allt sjálf frá grunni. Hún póstaði mynd af forláta prjónaðri stelpukápu þann 18. október sl. í prjónahóp á Facebook og viðbrögðin stóðu ekki á sér. Það varð allt bókstaflega vitlaust. Fólk átti ekki orð yfir því hvað kápan var falleg enda algjörlega einstakt listaverk. Þegar þetta er birt voru 4.018 búnir að líka við færsluna og hátt í 800 höfðu skrifað athugasemdir.
Svona var færslan:
Og athugasemdirnar voru allar á einn veg:
„Með því fallegasta sem ég hef séð á þessum prjónasíðum !!“
„Mikið er þetta fallegt. Eitthvað það glæsilegasta prjónadress sem ég hef augum litið. Klapp fyrir þér!“
„Þetta er ekki flott, þetta er listaverk eftir listamann, ekki þekki ég þig neitt get bara ekki hætta að horfa og lýsa honum. Glæsilegt listaverk“
„Nei hættu nú alveg, þetta á ekki að vera hægt?! Kjóllinn er biiilaðslega flottur og kápan ólýsanlega falleg! Antik-bleika litavalið fullkomið og heldur betur að aðstoða við að gefa dressinu þennan ekta konunglega prinsessu-fíling. Það að blúndan á kjólnum kíki niðurundan faldinum á kápunni er svo eeekki að skemma fyrir. Meistaraverk! Til hamingju með þetta“
„24. október er ég enn að jafna mig eftir að hafa séð þetta. Dásamlega yndislegt og það væri gaman að fá mynd af barninu í dressinu seinna.“
Björg ætlar ekki að deila uppskrift að þessari kápu enda er hún ætluð dótturdóttur hennar sem býr á Flórída og Björg segir sposk að prinsessan fái ein að klæðast þessari forláta flík en vera megi að hún deili síðar kápuuppskrift. Stóru fréttirnar eru svo að í Afmælisriti Kvennablaðsins, sem kemur út í lok nóvember, verður uppskrift að telpukjól með gatamynstri eftir Björgu og ég get sagt ykkur að hann er GEGGJAÐUR! Ég bauð Björgu í kaffi af því að mig langaði svo til að skoða kápuna og kynnast konunni á bak við þessi ótrúlegu listaverk.
Þú settir Facebook á hliðina um daginn með því að birta mynd af kápu sem þú hafðir prjónað. Segðu mér aðeins frá því.
Já, þetta var nú bara þannig að ég á lítið barnabarn úti í Flórída og langaði að gera heimaprjónað á hana og maður gerir náttúrlega ekki eitthvert gróft lopaprjón, maður verður að hafa þetta fínt og lekkert í hitanum. Svo er ég búin að vera að prjóna þetta í nokkra mánuði, bara svona eins og ég er vön að gera og svo set ég þetta bara inn á Facebook eins og ég geri vanalega þegar ég er búin að klára eitthvað. Svo fór ég bara að horfa á Netflix alveg róleg og svo heyri ég alltaf svona, bing, bing, og fatta ekkert hvað það var. Svo lít ég á Facebookið mitt og það eiginlega svona titraði. Og þá bara like, like, like, like, like og komment og komment og komment og svo fór ég að lesa kommentin og þau voru svo æðisleg að ég grét við að lesa þessi þau. Þetta var svo frábært og svo er eiginlega búið að vera allt vitlaust síðan. En ég skil þetta bara ekki.
Kápan er eins og áður sagði hönnun Bjargar og ef ykkur finnst kápan falleg á mynd þá get ég sagt ykkur að við nánari kynni verður maður bara ekki samur. Mig langaði bara til að hneigja mig. Þetta var eins og að hitta rómantíska hefðardömu frá öðrum tíma, kápan er svo fínleg og vel prjónuð og yndislega létt og mjúk. Mig langaði til að fræðast frekar um hönnun kápunnar.
Ég eiginlega hanna nánast allt sem ég geri. Ég er með dyslexiu og á mjög erfitt með að lesa uppskriftir og þá finnur maður bara aðra leið, ekki satt? Svo hef ég skrifað sumt niður en ég hef aldrei verið að gefa út en ég á slatta af uppskriftum og þykist nú ætla að fara að gefa eitthvað út með tíð og tíma.
Hvað heldurðu að hafi verið við þessa ákveðnu kápu sem gerði það að verkum að allt varð algerlega brjálað?
Ég veit það ekki og ég skil það ekki. Mér finnst ég alveg hafa gert fullt af fallegum stykkjum og sett fullt af flottum myndum inn. Hvað þessi kápa hefur fram yfir annað, það skil ég ekki. En maður kannski sér hlutina sína allt öðruvísi en aðrir. Kannski var það hversu fínleg hún er? Ég prjóna alltaf á svolítið fínum prjónum og þá verður þetta allt svona þéttara og smærra, þannig að hún er prjónuð á prjóna númer 2.
Hvað varstu með í huga þegar þú varst að búa kápuna til?
Bara barnabarnið mitt. Ég kalla hana venjulega prinsessuna og hún fær bara það fínasta og besta sem hægt er að fá frá ömmu sinni. Ég náttúrlega saumaði silkikjól og bróderaði sem er undir kápunni og ég átti efni og ég var alveg búin að sjá kjólinn. Hún var í rauðum kjól í fyrra og þá passar að vera í ljósum núna. Og sem sagt, kápan þarf að vera í stíl við kjólinn. Og kjóllinn var alveg í hausnum á mér, svona ofsalega lekker og rómantískur og náttúrlega þarf kápan bara að vera þannig líka.
Ég er búin að spyrja þig að þessu en vegna fjölda áskorana ætla ég að spyrja aftur. Þú ætlar ekkert að deila þessari uppskrift að þessari kápu eða hvað – engin pressa?
Nei, ekki þessari kápu. Prinsessan fær bara sérstök föt. Bara einstakt. Björg skellihlær.

Litlar prinsessutær í hekluðum perluskóm hönnuðum af Björgu.
En þú ætlar að vera með uppskrift í afmælisblaðinu okkar núna í nóvember. Segðu okkur aðeins frá henni.
Í byrjun var þetta peysa og er núna kjóll. Þetta eiginlega hannaði ég og gerði þegar ég var ófrísk að dóttur minni fyrir 26 árum síðan en munstrið hafði amma mín kennt mér og þetta er eiginlega eina gatamunstrið sem ég hef lært á ævinni. Amma kenndi mér þetta gatamunstur og ég sé það mjög sjaldan. Ég sé ýmsar aðrar útfærslur sem eru líkar en ekki eins.
Hver var amma þín?
Hún hét Snæbjörg Ólafsdóttir.
Og var hún úr Eyjum eins og þú?
Nei hún var ekki Vestmannaeyingur. Hún var að vestan upphaflega, bjó í Reykjavík og vann í fjölda ára á Árbæjarsafninu þar til hún var 94 ára og dó. Börnin mín sögðu að hún ynni sem safngripur, segir Björg og hlær. En allavega, hún kenndi mér gatamynstrið og síðan tók ég mynstrið og svona aðeins endurhannaði, lék mér að því að breyta stærðunum í því og gera tungu neðan á og svona og þetta er allt hannað af mér og hugmyndir frá mér og þetta er búið að þróast í 26 ár og kannski kominn tími til að hönnunin fái að fara eitthvað fleira en bara á mína prjóna.

Þarna glittir í kjólinn sem verður í afmælistímaritinu.
Þú býrð í Noregi þar sem þú starfar sem kokkur og reyndar líka sem leiðbeinandi á handavinnunámskeiðum. Hvenær fluttirðu frá Eyjum?
Ég flutti þaðan 45 ára gömul, kom við í Reykjavík og hélt að hún væri nafli alheimsins, en skrítið, ég var ekki alveg nógu ánægð og þá bara hugsaði ég; af hverju ekki að prufa Noreg? Og þar er ég ofboðslega ánægð.
Mér verður starsýnt á stóran silfurhring sem Björg ber á fingri sér, stóreflis rós og auðvitað hennar hönnun.
Ég veit að þú getur gert allt í höndunum en hvað ertu að kenna núna?
Ég er bæði að kenna börnum og fullorðnum að sauma.
Og þú ert algerlega sjálfmenntuð?
Já, ég hef aldrei farið á saumanámskeið einu sinni.
Björg starfar eins og áður sagði sem kokkur og stefnir á að taka sveinspróf í kokkinum næsta haust. Hún býr í Stavanger og ég spurði hana út í prjónasamfélagið þar sem hún býr.
Ég er í félagi sem heitir Husflidslag sem að í raun og veru þýðir bara handavinnufélag Noregs. Þetta er svona á milli þess að vera eins og íslenski heimilisiðnaðurinn og kvenfélag. Þetta er fullt af félögum um allan Noreg og það eru starfræktir saumaklúbbar og prjónaklúbbar og gler og keramik og þær eru að stúdera norska búninginn og alls konar. Og svo velur maður hvað maður vill gera. Ég er náttúrlega mest í saumnum og svo hef ég verið að fara á prjónakaffi og hef verið að kenna þeim smávegis. Og einhvern veginn finnst þeim ég eitthvað afskaplega … Ég skil það ekki.
Þú er náttúrlega spennandi Íslendingurinn?
Það er svolítið svoleiðis að handavinnan í Noregi er heldur gamaldags, ofsalega flott reyndar en þær eru kannski svolítið fastar í hefðunum. Að gera týpísku norsku peysurnar, sem eru náttúrlega æðislegar. En við Íslendingar erum svolítið meiri svona hönnuðir. Allir Íslendingar eru listamenn og hönnuðir.

Dótturdóttirin í hekluðum kjól eftir Björgu. Ljósmynd Alexandra Sharon
En það er einhvern veginn allt við þig sem gargar bara að þú sért listamaður. Þessi hringur sem þú ert með á fingrinum, þær flíkur sem ég hef séð myndir af. Hefurðu alla tíð verið að búa eitthvað til í höndunum?
Já, alltaf, segir Björg og leggur áherslu á orð sín. Mamma saumaði mikið. Ömmurnar mínar báðar voru miklar listakonur og föðuramma mín flutti sem sagt til Eyja 18 ára gömul frá Færeyjum. Hafði danskt stúdentspróf. Hún var að kenna konum í Vestmannaeyjum að prjóna dúka og gatamunstur og þá hafði varla sést gatamunstur á Íslandi. Hún bjó líka til silkiblóm og var að selja þetta fyrir jólin og alls konar svona.
Hin amma mín, hún var ofboðslega fátæk að vestan og var svona hreppsómagi sem flutti til Reykjavíkur 16 ára og byrjar mjög fljótt að reyna aðeins að drýgja tekjurnar með handavinnu og var að vinna. Þannig að þetta er alveg í blóðinu. Og ég lærði að hekla og prjóna, held ég bara fyrir gos, en þá var ég sex ára. Ég sat við saumavélina og það þurfti að vera kassi svo ég næði niður á gólfið á pedalann. Ég prjónaði á dúkkur og saumaði alveg frá því ég man eftir mér. Ég var að leika mér í barbíleik alla mína æsku og ég var alltaf að búa til.
Var þetta allt í heimasaumuðu hjá þér?
Já, og það var búinn til plötuspilari úr pappír og plötur til skiptanna og það var búið til umslag utan um plöturnar og þetta var allt svona. Og ég var bara í mínum heimi og ég gat alveg gleymt mér.

Björg og börnin í brúðkaupi annarar dótturinnar. Þær eru auðvitað allar í heimasaumuðu.
Hvað með þín eigin börn, hafa þau erft hæfileikana?
Ég á þrjú börn, tvær dætur og einn son. Þau hafa öll hæfileikana. En nútíminn er aðeins öðruvísi. Miðjan hjá mér er kannski mesti svona hönnuðurinn og fær alveg geggjaðar hugmyndir og það versta við það er að mamma hennar er svo meðvirk að hún framkvæmir allar þessar hugmyndir sem sumar eru ansi flóknar. Einu sinni fékk hún þá hugmynd, hún sá þetta í sjónvarpi eða einhvers staðar, að hana vantaði svona heklaða sokka og þeir áttu að vera úr fínasta garni sem hægt var að fá. Þetta voru klofháir sokkar. Og auðvitað bara gerði ég þetta. Halló!
Klofháa fínheklaða sokka? Ég fæ taugaáfall við tilhugsunina.
Já, ég var reyndar ár að því en það skipti engu.
Ertu alltaf með mörg verkefni í gangi í einu?
Já, já. En ég klára verkefnin mín. Ég er ekki þessi sem safna ókláruðum í kössum. En ég á fullt af ókláruðum sem eru svona spari sem ég kannski tími ekki alveg að klára.
Bara svona eins og maður tímir ekki að klára góða bók?
Já akkúrat – nákvæmlega eins. Og fólk spyr mig svo oft – af hverju gerirðu svona fíngert? Af hverju ertu alltaf að gera svona ofboðslega smátt og fínt? Og það er bara vegna þess að það tekur svo langan tíma og þá get ég notið þess svo lengi. Því þú getur ekki notið verkefnisins þegar þú ert búinn að því.
Ég hugsa um prjónakörfuna mína, prjónar númer 10 og uppúr og ég vel alltaf grófasta garnið í bænum því ég vil alltaf klára strax og sjá árangurinn umsvifalaust.
Það leiðinlegasta sem ég geri er að prjóna lopapeysu og svo bara úps … búin og svo þarf ég strax að hugsa upp á nýju verkefni. Ég nenni því ekkert.

Björg hefur hannað bikíní á frægar fitnessstjörnur.
Hvað hugsarðu um þegar þú ert að prjóna?
Ég er með heyrnartólin og hlusta á sögur. Þú veist … ég týni mér.
Teiknarðu upp hugmyndirnar þínar?
Stundum. Maður hefur náttúrlega margar aðferðir. Stundum sér maður eitthvað og þá kemur eitthvað til manns og þá rissar maður kannski eitthvað á blað eða skrifar jafnvel eitthvað og svo útfærir maður það. Stundum kemur bara hugmyndin og það sem mér finnst svo gaman, það gerði ég einmitt við kápuna, ég er búin að sjá hver stærðin þarf að vera og ég veit hver lykkjufjöldinn þarf að vera og svo leyfi ég þessu svona bara að renna. Mér finnst það svo gaman. Það bara svona rennur áfram. Með kápuna skrifaði ég ekki neitt og það finnst mér eiginlega svona skemmtilegast.
Já, þú hefur þetta bara í fingrunum, hvernig sniðið verður til og svona?
Já, ég held að ef maður hefur saumað mikið þá er maður klár á stærðum og vanur að rýna í snið. Ég var svo ung þegar ég byrjaði að teikna mín eigin snið og breyta og svona. Og maður fær þessa stærðarhugsun og ég held líka að fólk með dyslexiu, það hugsar, ég segi oft að það hugsar í 3D. Maður sér hlutina öðruvísi. Ég held að allir með dyslexiu hafi þennan hæfileika.
Þannig að kannski er prjón og hekl upplagt fyrir fólk með dyslexiu?
Já og flestir eða margir bestu hönnuðir heimsins eru með dyslexiu.
Segðu mér aðeins meira prjónaslúður frá Noregi. Þú fylgist náttúrlega með þessum prjóna- og heklhópum á Facebook í Noregi og Íslandi? Eru þessar norsku að gera allt, allt aðra hluti?
Já.
Eru þær bara í norsku peysunum? Með útsaumsbekkinn bara hressar yfir brjóstin?
Ég er í tveimur grúppum. Önnur er prjónagrúppa eins og þessi. Svo er Kofte-grúppan og hún finnst mér alveg geggjuð. Og Kofta þýðir eiginlega bara jakkapeysa, munstruð jakkapeysa. Og þar eru þær að stúdera gömlu mynstrin og jafnvel að vinna, það er oft eins og peysur sem voru prjónaðar um 80, þetta er svona stórt og vítt og þær eru að endurhanna, svipað og hefur verið gert hér við lopapeysuna, að endurhanna flottar, gamlar peysur og þær eru að sýna myndir af alls konar gömlum peysum og spurningarnar ganga. Þekkir einhver þetta mynstur? Og ofsaleg svona umræða um þetta og mér finnst alveg æðislegt að fylgjast með þessu.
Ok, þannig að þetta er ákveðin, hvað á ég að segja, svona söguumræða líka?
Já algjörlega, en aftur á móti í prjónagrúppunni, þar er allt mögulegt og þar eru margar alveg geypilega flinkar og það komu sokkar þarna um daginn og kápan mín átti sko ekki sjéns í þessa sokka. Gataprjón og litaprjón saman og þetta var svo flott. Þær hafa líka verið að leika sér með frozen, alveg eins og hér. Þær eru að sauma út Elsu á framstykkið og maður er alveg gapandi hvað þetta er flott. Þannig að þær eru að gera alveg rosalega flotta hluti líka en það er öðruvísi.
Við erum að fara að opna Kvennablaðsklúbb þar sem við munum selja flottar, eldheitar uppskriftir eftir ýmsa hönnuði og geggjað garn og ýmislegt fleira handavinnutengt. Ertu fáanleg til að lofa okkur kannski að fá að deila uppskriftum frá þér í framtíðinni?
Eigum við að segja bara já?
Björg, þetta er akkúrat svarið sem ég vildi fá!
Og þar með kvaddi ég listakonuna Björgu Valgeirsdóttur sem var að fara í flug til Noregs morguninn eftir og þakkaði henni innilega fyrir spjallið.