Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

KK leikur KK

$
0
0

Mér þykir rétt að taka fram í upphafi þessa leikdóms að ég er einlægur aðdáandi KK og þykir allt frábært sem hann gerir. KK kemur mér í gott skap, hann laðar fram hið besta í mér og ef það hendir mig að fara í fýlu þarf ég varla nema hugsa til útvarpsþátta hans, þá birtist brosvipra á andlitinu sem situr svo þar það sem eftir lifir dags. Tónlist KK er í þeim létta og lipra kántrístíl sem hentar minni sál og viðhorf hans til tónlistarinnar og til lífsins eru af sama tagi, skýr, mannleg og full af þeim kærleik sem sannur lífskúnstner býr yfir.

Í Vegbúum sjáum við KK með gítarana sína, hann segir sögu þeirra og hvernig hann eignaðist þá. Og KK stendur fyrir sínu, tilgerðarlaust og fallega. Frásögnin áreynslulaus og létt, KK er hrífandi og hefur frá svo mörgu að segja að það er alveg ljóst að hér hefur þurft að velja og hafna – KK er slíkur hafsjór af sögum að dygði í heilu úthöfin og í stuttri sýningu verður varla nema rétt buslað í fjöru. Þetta eru skilmálar þeirrar sýningar sem byggir á sögunum hans KK og það er hvorki kostur né galli, það er bara að sætta sig við það og þakka fyrir að mega njóta þess að vera gestur KK þann tíma sem það varir.

_JOR0041

KK hefur fallega rödd. Hann talar með sérstökum, mjúkum hljómi sem gælir við eyrun, það er hljómur sem gefur orðunum vægi og ber hugsunina áfram; hann syngur af öryggi í tón, takti og tæmingu og tekst með hárfínum meðulum – draga tóninn hér, hraða innkomu um örskot úr sekúndu þar – að skapa spennu í söng sem skerpir athygli og vitund áheyrandans. Öll lögin, flest velþekkt, hljóma eins og hann sé að flytja þau í fyrsta sinn og við í fyrsta sinn að heyra þau – allt verður óvænt, skemmtilegt og spennandi! Og þá eru ekki síðri taktarnir á strengjum og gítarhálsi – þeir eru ekki margir, gítarleikararnir, sem geta brugðið fingri á hljóðfæri sitt af þvílíkri hógværð og samt náð valdi á fullum sal áhorfenda eins og KK. Upphafsatriði og lokaatriði sýningarinnar nægir til að staðfesta það svo ekki verði um efast!

_JOR0057

Þetta er styrkur sýningarinnar: KK einn á sviðinu, segir okkur sögur og syngur og leikur undir á gítarana sína og okkur finnst við njóta sérstakra forréttinda og heiðurs hinna útvöldu að mega eiga þessa notalegu stund með þessum sérstaka listamanni sem hefur farið svo víða og séð svo margt sem hann deilir með okkur af örlæti og kærleika. Lýsing og leikmynd umvefur KK á viðeigandi hátt og hljóðstjórnin fær sérstakt hrós!

Handritið byggir á sögum KK sjálfs og í leikskrá er upplýst að leikstjórinn Jón Gunnar Þórðarsson hafi útbúið handrit að sýningunni. Í þessu vinnsluferli felast bæði kostir og gallar. Kostirnir eru þeir, að ef vel er skráð eftir KK ber sýningin keim af honum og lifir í krafti hans. Og það gerir hún í mörgum atriðum, einkum þar sem útgangspunkturinn er gítararnir hans KK, hvernig hann eignaðist þá, hvaða eiginleika þeir hafa, hvað þeir segja honum og hvað hann getur við þá gert. KK hefur næmt auga fyrir þeirri hversdagsdramatík, sem gerir smávægilegustu atriði að úrvalsfrásögn. Sögurnar hans eru svo ekta og fullar af mannúð og væntumþykju í garð alls sem lifir og sagðar með svo miklum skilningi á breyskleika mannsins og með svo miklum húmor að sálin í manni malar eins og köttur. Tilfinning KK fyrir hverjum gítar sem til sögunnar er kynntur er ósvikin og styrkist með frásagnarhættinum, meðferðinni á þögnum, breytingum í frásagnarstíl og hvernig unnið er með stef og þemu – það er ósvikin músík líka í hinu talaða máli. Það er gaman í svona leikhúsi!

En nú geta þeir, sem deila aðdáun minni á KK hætt að lesa, því nú kemur að því sem mér þótti miður fara í sýningunni.

_JOR0172

Það bregður nefnilega fyrir fölskum tón sem rekja má til handrits. Höfundur handrits segir í leikskrá að ákveðin tilvitnun hafi orðið kveikja að verkinu: “… þú hefur alltaf gítarinn til að skýla þér.” Útfrá því spinnst svo hugmyndin um söngvaskáldið sem uppreisnar- og baráttumann – um gítarinn má segja eins og stóð skrifað á gítar Woody Guthrie, “This machine kills fascists”. Gítarinn er margbent tæki – hann getur verndað mann og barist fyrir réttlæti og tjáð margskonar tilfinningar, einkum þó ást – og stundum er ekki langt þar á milli. En það verður dálítið þvælið í frásögn KK og þarna hefði t.d. leikstjórinn mátt vera harðari við handritshöfundinn og skipað honum að killa darlingana sína.

Þegar KK segir frá söngvaskáldunum sem myrt hafa verið vegna sannfæringar sinnar og réttlætisbaráttu – Joe Hill, Victor Jara – er eins og botninn detti úr frásögninni (auk þess sem draga má báðar frásagnirnar í efa!). Þessar sögur tilheyra ekki beinlínis reynsluheimi KK – gítarinn bjargaði KK á annan hátt og öðruvísi – og það hefði þurft að koma þeim öðruvísi fyrir innan ramma sýningarinnar til þess að þær þjónuðu þeirri frásögn sem hér er lagt upp með. Hljóðeffektar á borð við skothvelli og skothríð eru á skjön við efnið og skapa enga dramatíska spennu til mótvægis við það, sem hér er margfalt sterkari frásögn: allt, sem KK hefur sjálfur upplifað í Amríkunni, í Svíþjóðinni eða á Dalvík. Þar nær hann hjarta okkar, þar hrífumst við með. Hitt spillir fyrir eins og það er inn í sýninguna sett, nær ekki því flugi sem til er ætlast og verður í raun bara væmið.

Það er synd því KK er listamaður sem hefur auðvitað mótast af þessum söngvaskáldum, rétt eins og öllum þeim sem fá sinn stað í frásögninni. Það ætti hreint ekki að vera flókið að tengja KK raunverulegum böndum við þessi söngvaskáld sem áttu í annars konar baráttu og urðu líka áhrifavaldar í lífi hans. Lausnin væri sú að fara strangari dramatúrgískum höndum um þann hluta sögunnar sem segir frá sögumanninum sjálfum og er rammi sýningarinnar. En meðan það er ekki gert verður fyrir vikið veikari heild en ella, þar sem skapast þær merkilegu aðstæður að KK leikur sjálfan sig sem ógreinilegri karakter en hann í rauninni er.

Borgarleikhúsið
Vegbúar
Höfundar: Kristján Kristjánsson og Jón Gunnar Þórðarson
Leikstjórn: Jón Gunnar Þórðarson
Leikmynd og búningar: Móeiður Helgadóttir
Lýsing: Magnús Helgi Kristjánsson
Tónlist, útsetningar: KK
Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283