Það sem ég er búin að tjá mig um farsóttir lífs míns. Heldur betur! Búin að grenja úr mér augun og æla úr mér innyflum yfir einelti, allskonar ofbeldi, skilnaði, kvíða, áfallastreituröskun, áfengisnotkun og you name it.
Ég hef legið í volæði og tekið allan skalann sem einhver ykkar kannast eflaust við. Áfall, afneitun, sársauki, reiði, depurð og einmannaleiki! Gvuð hvað ég hef farið langt út á tún og niður í drullu.
Ég hef heldur betur kostað þjóðfélagið skildinginn. Ég hafði svo sem hugsað út í það en í annars frábærum þætti RÚV, Hæpinu, var talað um einmitt það. Óvinnufærni, spítalavist, eftirmeðferð, áfallahjálp. Fyrir nú utan hvað ég hef verið kvíðin og varla treyst mér til að takast á við lífið. Ég er reyndar snillingur í að vaða áfram og brosa mínu breiðasta og tekst með eindæmum vel að sinna skyldum mínum af metnaði og orku. En þess á milli hef ég verið svo brotin.
Hugsið ykkur hvað væri hægt að spara mikinn pening ef við fengjum bara að eiga líkama okkar í friði, eins og meginþorri karlmanna. Hvað mikill aur stæði eftir í menntamál, heilbrigðiskerfi og menningu ef hluti af því fjármagni sem fer í að hjálpa brotaþolum færi í forvarnir. Að kenna börnum og ungu fólki hvar mörkin liggja og auka jafnréttisfræðslu í landinu. Ég er líka að tala um fræðslu í að auka sjálfsvirðingu beggja kynja.
Hversu oft hef ég ekki kennt sjálfri mér um að vera svo hress, kát og opin að ég bauð eiginlega sjálfa mig á silfurfati til nauðgara míns og yfirmannanna sem áreittu mig.
Áfallasálfræðingurinn minn er að reyna að kenna mér að hugsa rökrétt. EN það kostar okkur. Þjóðina okkur.
Djöfull á ég eftir að verða sterk eftir þetta allt saman. Rúlla upp draumastarfi mínu (ef þeir vilja ráða einstæða tattooveraða mömmu með áföll á bakinu en það er önnur saga) og massa móðurhlutverkið með því að vera besta fyrirmynd í heimi.
Það er nefnilega ekki ofsögum sagt að það sem ekki drepur mann gerir mann sterkari. En bara ef maður deyr ekki heldur vinnur í því.
Það er ekki fyrr en á fullorðinsárum (já 15 ár í fimmtugt) að verið er að kenna mér að brotin voru ekki mér að kenna. Að skömmin væri ekki mín.
Þegar ég læri hugræna atferlismeðferð fatta ég loksins að hugsa rökrétt.
Hvernig væri nú að kenna börnum þennan þankagang frá byrjun? Að styrkja sjálfsvirðingu þeirra og sjálfsmat og kenna þeim að stjórna hugsunum sínum á uppbyggjandi hátt? Því það er enginn vafi að það vill ekkert foreldri eiga barn sem verður fyrir kynferðislegu ofbeldi af neinu tagi. En það er heldur ekkert foreldri sem vill eiga barn sem er gerandi!
Og þar liggur lausnin (já ég þykist sannarlega vita hana). Það eru hagsmunir okkar allra að kenna börnum okkar að bera virðingu hvert fyrir öðru. Að kenna þeim mörk, að kenna þeim að standa með sjálfum sér og að öskra hátt og skýrt eins og Reykjavíkurdætur syngja svo vel “Ég á mig sjálf/ur”.
Fjármuni í forvarnir, jafnréttisfræðslu og HAM. Þannig legg ég til að við spörum þjóðinni alla þá aura sem fara í að reyna að „laga“ okkur eftir áföll.
Þannig getum við aukið líkur á færri þolendum OG færri gerendum. Það er allra gróði. Takk fyrir pent.