Enn einu sinni er aukin einkavæðing akstursleiða hjá Strætó bs. boðuð í miðjum kjaraviðræðum. Starfsfólk Strætó hefur árum saman mátt búa við að útboð til einkaaðila séu notuð sem svipa þegar kröfur eru gerðar um betri kjör. Vagnstjórar sem starfa hjá undirverktökum Strætó eiga ekki tilkall til jafnhárra grunnlauna né samskonar réttinda. Í einhverjum tilvikum geta þeir með bónusum og auknu vinnuálagi náð svipuðum eða sömu heildarlaunum. Algengt er að starfsmenn undirverktaka færi sig yfir til Strætó bs. við fyrsta mögulega tækifæri. Stjórn félagsins og kjörnir fulltrúar eru meðvitaðir um að ‘hagræðingin’ í einkarekstri sé að hluta til lögð á herðar launafólks.
Bryndís Haraldsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og stjórnarformaður Strætó, sagði „Útboð eru í eðli sínu gerð til að ná fram hagræði í rekstri“ í samtali við Reykjavík vikublað í október í fyrra. Í samtali við Viðskiptablaðið 12. nóvember síðastliðinn boðar Bryndís að „stjórn Strætó geti ákveðið, óháð úttektinni, að auka vægi útboða í akstri Strætó. Könnun hafi leitt í ljós að það geti verið hagkvæmt fyrir strætó að beita útboðum í auknum mæli, sérstaklega þegar uppgangur er í efnahagslífinu.“
Ummælin falla að þessu sinni samhliða kjaraviðræðum Strætó bs. og Starfsmannafélags Reykjavíkur.
Vagnstjórar sem starfa fyrir undirverktaka Strætó bs. geta búist við lægri launum en þeir sem starfa beint hjá fyrirtækinu. Í dag er um 40% af akstri Strætó bs. í höndum einkafyrirstækjanna Hagvagna og Kynnisferða. Þeir starfsmenn sem þar vinna eru sumir félagsmenn í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni en flestir eru þeir þó í Verkalýðsfélaginu Hlíf. Hótanir um aukin útboð á ferðum Strætó eru reglulegur fylgisfiskur kjaraviðræðna Starfsmannafélagsins og Strætó bs.
Ítrekað hótað með tilfærslu til einkaaðila
„Þegar við ræddum á sínum tíma um launakjör okkar fólks við Strætó þá bentu menn ítrekað á að okkar fólk væri svo dýrt starfsfólk miðað við starfsfólk undirverktaka,“ sagði Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkur, við Reykjavík vikublað í febrúar síðastliðinn, um þá stefnu að Strætó bs. skuli í síauknum mæli bjóða út akstur til einkaaðila.
Áður hafði blaðið fjallað um hvernig einkavæðing leiða Stræó væri nýtt óspart af stjórn og framkvæmdastjórn félagsins sem hótunartæki gegn kjarabótum starfsmanna sem og kvörtunum þegar þeir teldu á sér brotið. Kemur fram að starfsfólki og jafnvel fulltrúum Starfsmannafélags Reykjavíkur sé hótað útboði á störfum þeirra af hálfu Strætó bs. fari þeir fram á bætt kjör.
Þá spurði blaðið Bryndísi út í afstöðu hennar á því hvort rétt væri að hagræðingin væri á bökum starfsfólks. „- Eruð þið í stjórn meðvituð um að þegar þið takið akstur í útboð að ein af afleiðingum þess er að laun starfsmanna á gólfi lækka miðað við laun í sambærilegu starfi hjá Strætó bs.? „Útboð eru í eðli sínu gerð til að ná fram hagræði í rekstri. Það er alveg ljóst að ekinn kílómetri í útboðnum akstri er lægri en ekinn kílómetri í okkar eigin akstri. Þannig að við erum bara sem stjórn að gæta hagsmuna eigenda og sjá til þess að hægt sé að reka Strætó með sem hagkvæmastum hætti,“ segir Bryndís Haraldsdóttir.
– Þú ert þá að segja að þið eruð meðvituð um það að hluti kostnaðarins við hagræðingu er borinn á herðum óbreyttra starfsmanna Strætó í formi verri starfskjara? „Já, ég þekki bara ekki þær tölur. Ég veit bara að einkaðaðilar hafa getað gert þetta með hagkvæmari hætti en við.“
Endalausar tilviljanir…
Bryndís sagði við blaðið að stjórn Strætó bs. ætli að fara yfir þessi mál. Í október eins og nú, þegar hún tjáir sig við Viðskiptablaðið voru kjarasamningaviðræður í gangi. Þá vildi hún ekki kannast við vitneskju um þá samningatækni að vekja máls á auknum einkarekstri til að dempa kröfur starfsmanna. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins er hún ekki spurð hvort áhugi stjórnar nú á útboðum tengist þeim viðræðum sem nú eiga sér stað.
Í október spurði Reykjavík Vikublað: „Strætó er þrátt fyrir allt fyrirtæki í almannaþjónustu, þá spyr maður hvort þessi umræða, um afleiðingar fyrir starfsfólk sem þegar starfar við störf sem ekki eru beinlínis hálaunastörf, hafi átt sér stað innan stjórnar?“ „Umræðan hefur ekki verið tekin út frá þeim grundvelli. Fyrst og fremst erum við bara að gæta hagræðingar í rekstri og við höfum talið það heppilegt fyrir Strætó að hafa hluta af þessu í eigin akstri og hluta hjá öðrum. Það hefur komið hagstætt út fyrir félagið. Ég held að það sé almennur vilji hjá stjórn og eigendum að halda því þannig.“
Um það, hvort Bryndís vissi til þess að aukin yfirfærsla leiða í einkarekstur væri nýtt sem hótunartæki í kjaraviðræðum, sagði hún „Ég get ekki svarað fyrir þetta og þekki ekki þennan hluta. Framkvæmdastjóri fer með starfsmannamál og hefur fullt taust og umboð stjórnar til þess.“ Skömmu eftir viðtalið var Reynir Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, látinn taka pokann sinn vegna trúnaðarbrests sem ekki tengdist framkomu við starfsfólk.
Bílakaup felldu Reyni, ekki framkoma við starfsfólk
Strætó hefur árum saman logað stafna á milli. Frá stofnun byggðasamlagsins hefur samlagið verið einkavætt innanfrá án skýrrar ábyrgðarkeðju né stefnumótunar. Ítarlega og oft var fjallað um þessi mál í Reykjavík Vikublaði. Í september á síðasta ári sagði blaðið frá því að starfsmönnum hefði verið hótað uppsögn í fjöldapósti hefðu þeir athugasemdir við að settar yrðu myndavélar í vagna. „Strætó BS gerir þá kröfu að allir starfsmenn sem sinna farþegaflutningum á vegum fyrirtækisins, hafi umsjón með ökutækjum eða eftirlit í vögnum samþykki búnaðinn,“ segir í tilkynningu sem send var á vagnsstjóra Strætó BS vegna upptöku myndavélabúnaðar í vögnum fyrirtækisins. „Starfsmenn hafa andmælarétt en nýti þeir sér hann leiðir það til starfsmissis,“ segir ennfremur í bréfinu. Þrátt fyrir ítrekaðar fréttir af harðri stjórntækni Reynis, skort á trausti innan fyrirtækisins og að hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur væru kvartanir frá Strætó hlutfallslega langmestar, lýsti stjórn félagsins ítrekað stuðningi við framkvæmdastjórann. Seinna varð Reynir uppvís að því að hafa keypt sér bifreið á kostnað félagsins og stórskemmt hann í laxveiðiferð. Skömmu síðar mátti hann segja starfi sínu lausu.
Minni réttindi
Þeir starfsmenn sem vinna hjá Hagvögnum og Kynnisferðum, undirverktökum Strætó, eru sumir félagsmenn í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni en flestir eru þeir þó í Verkalýðsfélaginu Hlíf. „Okkar menn falla undir kjarasamning á almennum markaði. Aftur á móti er Strætó í Reykjavík undir samningum Reykjavíkur. Þótt grunnlaunin séu lægri þá hafa hér verið borgaðir ýmsir bónusar t.d. tjónlaus bónus og reyklaus bónus,“ hefur Reykjavík Vikublað eftir Kolbeini Gunnarssyni formanni Hlífar sem bætti við að eftir greiðslu bónusanna þá séu tekjurnar nokkuð svipaðar. – Bónusar eru samt ekki jafn traust kjör og grunntaxtar? „Ég gerði nú einhverntíman könnun á þessu og þá voru menn á svipuðum stað. En það er alveg rétt og þess vegna hef ég verið að reyna að gera kröfu um að festa þetta inn í kjarasamninginn. Það hefur bara gengið frekar hægt. Það er alveg rétt þetta er ekki alveg í hendi með bónusum.“
Hann sagði ennfremur „Við erum náttúrulega alltaf að reyna að ná upp laununum í okkar kjarasamningum en því miður hafa laun á almennum markaði verið ívið lægri en hjá Strætó í Reykajvík,“ sagði Kolbeinn og bætti við að almennt telji hann bílstjóra allt of lágt launaða á Íslandi. Starfinu fylgi mikil ábyrgð en að greiðslu vegna hennar sé ekki að finna í launakjörum.
„Það eru að koma nýir samningar og það er verið að fara í þessa vinnu um áramótin – væntanlega byrjar vinnan fyrir áramót. Það á að fara inn í kafla sem varða bílstjóra. Það er eitt af því sem átti að gera við gerð síðustu kjarasamninga en var ekki gert vegna þess að það voru bara stuttir samningar sem gerðir voru í fyrra. Núna er næsta skref að vinna í gerð kjarasamninga fyrir þetta fólk,“ sagði Kolbeinn. – Hvað hefur þessi staða, það er launamunur þrátt fyrir sambærilega vinnu, varað lengi?
„Þetta er búið að vera til nokkurra ára. Það hefur alla tíð verið þessi mismunur á Strætó í Reykjavík og hópferðabílstjórunum hér suður frá. Það hefur gengið mjög tregt að ná að samræma þetta.“
Einungis lítill hluti vagnstjóra er félagar í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni. Reykjavík Vikublað hefur eftir skrifstofu félagsins að félaginu hefði borist það til eyrna að félagsmenn þeirra væru á lægri launum en félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkur. Sleipnir hefði hins vegar ekki tekið frumkvæði í málinu. Þeir starfsmenn sem blaðið ræddi höfðu orð á launamun starfsmanna og sögðu þann mun notaðan til að kæfa gagnrýni á framkvæmdastjórn Strætó og óánægju með laun.