Víkingur Heiðar Ólafsson skrifar:
Myndum við stofna Ríkisútvarpið í dag? Nei, að sjálfsögðu ekki. Við gætum það ekki. Menningarstofnun á borð við RÚV er ekki þess eðlis að manni detti hún í hug, bara sísona, í öllum sínum margbreytileika, stofni um hana fyrirtæki, skrái á markað og hlakki til arðgreiðslna. Saga RÚV er samofin sögu lýðveldisins. Tími er stundum peningar, en ekki alltaf. Enginn verðmiði nær utan um þau 85 ár af þekkingu og verðmætum sem RÚV byggir á og nýtir til nýsköpunar í dag.
Pólarísering
Dagurinn er að verða ískyggilega stuttur. Þá er maður minntur enn meir en vanalega á þá hefð sem er rótgrónari á Íslandi en annars staðar, þó ekki sé til almennilegt íslenskt orð yfir hana. Pólarísering: listin að etja fólki saman í gagnstæðar fylkingar, þrýsta því út á sitthvorn jaðarinn og minnka líkur á því að sameiginleg niðurstaða náist. Hún er sterkasta vopn sérhagsmunaaðila og bandamaður pólitískra áróðursmanna. Með því að ýkja og setja hlutina vísvitandi í villandi samhengi, og endurtaka það nógu oft, öðlast ósannindi falskan trúverðugleika.
Nokkur dæmi
RÚV hefur á síðustu árum ítrekað verið sakað um hlutdrægni, án þess að fyrir því séu færð haldbær rök. T.d. hefur fréttastofan reglulega verið sökuð um að reka ESB áróður. Hlutlaus skoðun leiddi hins vegar í ljós að RÚV flutti fleiri neikvæðar fréttir af ESB en jákvæðar. RÚV hefur verið sagt illa rekið í dag. Þó hefur verið sýnt fram á algjöran viðsnúning í rekstri hjá nýjum stjórnendum. RÚV hefur verið sagt hafa blásið út á undanförnum árum. Allir sem þekkja til hafa hins vegar horft upp á fjöldauppsagnir og gegndarlausan niðurskurð. RÚV hefur verið sagt njóta hæstra framlaga per capita miðað við nágrannalöndin. Hið rétta er að RÚV fær minnst allra Norðurlandanna í nefskatt per capita, þrátt fyrir smæð þjóðarinnar. Það er hins vegar látið klöngrast á litlum auglýsingamarkaði í miklu ríkari mæli en ríkisfjölmiðlar Norðurlandanna, með tilheyrandi úlfúð samkeppnismiðla, að einhverju leyti skiljanlegri.
Afdrifaríkir tímar
Á Vesturlöndum er mikið rætt um hlutverk ríkisfjölmiðla, gæði, rekstur og framþróun. En ólíkt því sem gerist hér á landi, endar umræðan ekki í spurningum um hvort tilvist BBC, DR eð NRK sé réttlætanleg yfir höfuð. Þeir sem tala fyrir því að leggja niður ríkisfjölmiðlana í Evrópu eru staðsettir yst á jaðri stjórnmálanna. Á Íslandi er áróðurinn gegn RÚV hins vegar farinn að skila árangri. Hann hefur enda staðið yfir í áratug, og með vaxandi styrk. Hugmyndin um að leggja niður RÚV eða selja telst ekki lengur öfgahugmynd í umræðunni, þó um eina mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar sé að ræða. Framundan eru afdrifaríkir tímar.
Að vona
Maður vonar að tillaga um að falla frá frekari lækkun útvarpsgjalds nái fram að ganga við afgreiðslu fjárlaga 2016, svo ekki komi til enn eins blóðugs niðurskurðarins, sjöunda árið í röð. Maður vonar að RÚV verði í framhaldinu tryggður nauðsynlegur starfsfriður með samningum við ríkið um framlög til lengri tíma, svo stjórnendur þurfi ekki árlega að grátbiðja stjórnmálamenn um opinber framlög. Maður vonar að RÚV þurfi í minnkandi mæli að treysta á auglýsingatekjur en fái í staðinn hærri framlög frá ríkinu. Þannig gætu stjórnendur einbeitt sér að því sem þeir vinna þegar að: styrkingu sértækrar, frjórrar og forvitnilegrar dagskrárgerðar útvarps og sjónvarps og því að aðlaga sig breyttu fjölmiðlaneyslumynstri þjóðarinnar. Þannig myndu allir vinna.
Ég skora á þingmenn alla að lúta vilja mikils meirihluta þjóðarinnar, standa vörð um útvarp allra landsmanna og styðja það til góðra verka.
Höfundur er píanóleikari og situr í stjórn Hollvina RÚV.