Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Flokkun og fyrirmyndir

$
0
0

Það er að sumu leyti gott að eiga sér fyrirmynd og að sumu leyti verulega pirrandi. Höktandi í humáttina, nartandi í hælana en vera samt alltaf á eftir. Eðli fyrirmyndanna er að vera alltaf skrefinu eða skrefunum á undan. Oftast langt undan, miklu meira en dagleið. Samt er eiginlega nauðsynlegt að eiga sér fyrirmynd. Það eru fæstir frábærir eins og þeir eru, þó því sé reyndar oft haldið fram. Flestir geta bætt sig eitthvað, mismikið auðvitað og á ýmsum ólíkum sviðum, og enginn er góður í öllu og allir eru góðir í einhverju og allt það, en það er eitt sem við þurfum öll að bæta okkur í og getum öll bætt okkur í. Verum grænni! – ekki grænni af öfund út í fyrirmyndirnar – heldur grænni í allri hugsun og öllum gerðum.

Mágkonur mínar eru duglegar að flokka rusl og ég hef fetað í fótspor þeirra á síðustu árum, en nú ætla ég að greikka sporið og freista þess að taka fram úr þeim. Þess vegna hef ég sótt mér nýjar fyrirmyndir sem eru komnar langt á undan mér. Mínar nýju fyrirmyndir er að finna á Facebook-síðunni  Áhugahópur um endurvinnslu og endurnýtingu og þar gefur heldur betur á að líta. Þar er fólk að leita eftir og deila upplýsingum um moltugerð, umhverfisvænar leiðir við þrif og þvott, rétta flokkun spilliefna og kaup á þurrvöru án umbúða – svo nokkur dæmi séu tekin. Þarna tjáir sig fólk sem er hugmyndaríkt, hugsandi og hjálplegt, og á það sameiginlegt að vera umhugað um umhverfið. Þarna eru mínar nýju fyrirmyndir og ég er þessa dagana að velta fyrir mér hvaða skref ég skuli taka næst, í humátt að grænni lífsstíl.

Það er margt skrýtið – og það er sannarlega skrýtið að hugsa til baka og rifja upp hve stutt er síðan allt rusl fór í eina tunnu og var brennt á öskuhaugunum. Þegar ég var lítil fylgdumst við krakkarnir oft með því þegar Haddi kom á ruslabílnum, losaði svarta ruslapokann af tunnugjörðinni og setti nýjan í staðinn, áður en hann vippaði pokanum upp á pallinn eins og hann væri fis og hélt svo glaðbeittur áfram. Við vissum að öllu var síðan sturtað á ruslahaugana, handan fjarðarins, og þaðan mátti reglulega sjá eldtungur og reykjarmökk, heldur svartan að sjá, og þannig töldum við líklegast að ruslið gufaði upp og væri úr sögunni. Á unglingsárunum komumst við  nær sannleikanum. Í bæjarvinnunni vorum við send í flokkum yfir á strönd að tína rusl og uppgötvuðum að eldurinn var engin töfralausn; hann lét fráleitt allt hverfa. Sumt fauk áður en eldurinn náði taki, annað fauk hálfbrunnið og illa brunnið, sumt brann alls ekki – og þar á meðal voru svörtu ruslapokarnir, sem virtust hafa skilað sér aftur til jarðar eftir að hafa liðast upp í gegnum eld og reyk, kannski bara til að lita hann svartan. Mér fannst ruslahaugarnir ógeðslegir, og seinna – þegar ég vann nokkur sumur sem flokksstjóri unglinganna í bæjarvinnunni – þótti mér agalegt að vita af öllu því sem ekki brann og var þess vegna urðað. Það sem var urðað hafði nefnilega tilhneigingu til að koma upp úr krafsinu. Það glitti í ryðgaða járnahlera í fjörukambinum og gamall ísskápur hafði oltið undan skóflunni og niður í fjöru. Og dekkin virtust alls staðar, ásamt plastbrúsum og netadræsum. Sjórinn tekur kannski alltaf við en hann skilar því að lokum á land.

Það leið samt langur tími áður en ég fór að lifa í samræmi við þessa vitneskju. Tími umhverfisvitundar var ekki almennilega runnin upp þarna og því hélt ég áfram eins og flestir aðrir og tileinkaði mér áhyggjuleysi ungbarnsins; out of sight, out of mind. Þeir kæmu aftur á gröfunni og mokuðu betur yfir þetta – og ísskápinn var búið að draga upp úr fjörunni.

Svo liðu árin. Í takt við samfélagið fór ég að flokka og skila flöskum og dósum, seinna blöðum og pappír og núna nýlega, plastinu einnig. Rafhlöðum söfnum við saman í bílskúrnum, líka ljósaperum, og svo set ég niðursuðudósir, álbakka og form undan sprittkertum út í tunnuna með almenna sorpinu. Það er mjög illa auglýst og því ugglaust fáir sem vita af þeim möguleika, en það stendur þarna samt, sjáiði:

endurvinnsla 001

Mér er sagt að það sé einhver græja sem vinsar álið frá almenna sorpinu og ég þrái að það sé rétt. Ég hef nefnilega ógurlegar umhverfisáhyggjur og þær hafa stigmagnast síðustu misserin.

Við erum að kafna í dóti og drasli – og umbúðum utan af öllu saman. Neysluhyggjan, innkaupagleðin og velmegunin eru hæstráðandi þættir í lífi flestra Vesturlandabúa, og það  – ásamt andvaraleysi, – er okkur lifandi að drepa. Við Íslendingar höfum grobbað okkur af því að eiga hreinasta land í heimi og í því samhengi hefur hið sívinsæla útspil um höfðatöluna ekki verið tekið með í reikninginn, enda hentar það málstaðnum ekki. Íslendingar eru nefnilega umhverfisslóðar upp til hópa (mér fannst umhverfissóðar of gildishlaðið og móðgandi. (Ótrúlegt hverju einn stafur getur breytt)). Við erum einfaldlega hlutfallslega fá miðað við landrými og því dylst druslugangurinn býsna vel, en við erum samt þjóðin sem gleymir sér í alls konar stundaræði; skilur eftir tjöld og svefnpoka að aflokinni góðri útilegu, skiptir út snjallsímum eins og sokkum, sprengir flugelda í tonnavís, sleppir hundruðum helíumblaðra upp í loft, skiptir út innanstokksmunum í samræmi við árstíðabundnar tískusveiflur, hendir út jólatrénu með skrautinu hangandi á og kaupir einnota plastvörur fyrir eins árs afmæli í samræmi við meint áhugasvið barnsins… humm. Þannig rúlla alltof margir.

En þökk sé Áhugahópi um endurvinnslu og endurnýtingu og þeim sem stóðu fyrir umbúðalausa deginum um síðustu helgi hef ég öðlast von. Ég sé líka að þeim fjölgar sem taka með sér margnota poka í búðina og sumir sleppa því að setja ávextina í poka. Þetta telur allt – og ég held að það sé viðsnúningur í þá átt að fólk vilji komast af með minna. Naumhyggja, eða minimalismi, er að ryðja sér til rúms og annar frábær hópur á facebook, Áhugafólk um mínimaliskan lífstíl, heldur úti líflegri og fróðlegri umfjöllun um leiðir til að einfalda líf sitt með minni neyslu og meiri meðvitund. Tvær ungar konur stofnuðu þessa síðu og halda utan um umræðuna og gera það fimlega og kurteislega. Fyrir sumum eru hugmyndirnar þar þó bæði byltinga- og fjarstæðukenndar. Dætur mínar munu læsa fataskápunum sínum þegar ég býðst til að einfalda líf þeirra með því að fjarlægja megnið af fötunum, og sonurinn mun reyna að sannfæra mig um að hann leiki stöðugt með allt dótið sem er í herberginu hans. Kannski ég byrji því bara á fataskápnum mínum og íhugi að láta frá mér stúdentsdragtina eða dragtina sem Fanney saumaði á mig fyrir jólin 1989 …

endurvinnsla 002

Undir merkjum umhverfisverndar er ég búin að stíga ýmis skref á síðustu árum. Sumt hefur gengið vel en annað illa. Það tók mig til dæmis nokkra mánuði að muna eftir að taka margnota pokana mína með í búðina. Núna man ég það langoftast og svo er ég með bráðsnjallan varapoka í töskunni minni, sem yngsta dóttir mín gaf mér í jólagjöf, sem ég nota ef hinir gleymast, og eins ef ég er að versla eitthvað smærra eða koma af bókasafninu. Þessi bleiki hefur því komið í veg fyrir að alls konar plastpokar rati með mér heim.

endurvinnsla 004

Það hefur líka gengið vel að flokka og nú flettum við í sundur allra handa umbúðum og tegundagreinum í pappa, plast og ál. Ytra byrðið á smjörvaöskjunum fer í pappírstunnuna en öskjuna sjálfa og lokið skolum við og flokkum með plastinu. Það er mikið drukkið af lífrænni jógúrt á heimilinu og í sama anda skolum við dollurnar og flokkum eins og smjörvaöskjurnar og vonum að með því sé unnið í þágu umhverfisins. Stundum fallast manni þó hendur, enda virðist sem endalaust falli til af allra handa dóti, en þess á milli kvikna nýjar hugmyndir um umhverfisvænan og vistvænan lífsstíl, sem takast misvel. Fyrir nokkrum árum var það markmið mitt að drekka aldrei framar kaffi úr einnota umbúðum. Það markmið var fljótlega aðlagað að raunveruleikanum og kaffiþorstanum og stefnan sett á að nota það alltaf í skólanum (á þeim tíma var ég í námi). Fína margnota kaffimálinu mínu gleymdi ég hins vegar oftast heima, en stundum í töskunni, og fengi ég ekki kaffi úr glerkönnu fékk ég mér kaffi úr pappamáli – og jafnvel með plastloki – og súpaði með nokkurri skömm (en meiri ánægju). Kaffimálið á ég samt ennþá og stefni enn á að drekka ótæpilega úr því. Og hugsið ykkur hvað það væri hvetjandi og skemmtilegt ef kaffið fengist ódýrara ef viðskiptavinirnir tækju með sér margnota ílát. – Þá hugmynd mætti reyndar heimfæra upp á ýmislegt annað. Mér hefur til dæmis dottið í hug að fara með eldfast mót, með loki á, í fiskbúðina og spara þannig einn álbakka, pappírslokið sem sett er ofan á og plastfilmuna sem vafið er utan um (nú afþakka ég bara plastpokann).

Það er stutt í loftslagsráðstefnuna í París og það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum og ákvörðunum sem þar verða teknar. Loftslag og breytingar á því skiptir okkur öll máli, miklu meira en við sjálfsagt áttum okkur á, en sá forsmekkur sem við höfum fengið og framtíðarspár fræðimanna draga upp dökka mynd. Sérfræðingar hafa bent á orsakasamhengi loftslagsbreytinga og þjóðfélagsbreytinga, og geta þess að hnattræn hlýnun sé nú þegar farin að valda samfélagsbreytingum í ýmsum Afríkuríkjum og geti – ef fram heldur sem horfir –  valdið því að stór landsvæði verði óbyggileg manninum. Sá tilflutningur fólks sem við höfum séð undanfarið kann því að vera aðeins byrjunin á því sem koma skal – og á sama tíma fjölgar jarðarbúum.

Við verðum því að vera grænni, velja okkur fyrirmyndir og feta okkur áfram, taka skrefið frá þeim stað þar sem hver og einn er staddur. Á meðan fyrsta skref hjá einhverjum gæti verið að hætta því að lauma gosflöskum í tunnuna, gætu sumir verið að byrja á moltugerð. Sé skrefið fram á við er það til bóta, hversu lítið sem það kann að vera. Sjálf er ég á leið með að klippa endana af þremur tannkremstúpum, hreinsa og skola og flokka með plastinu. Ég mun vera með hanska við þá framkvæmd.

Brúsa utan af sjampói og hárnæringu er ég þegar búin að skola og flokka í dálítinn tíma og ég er að vinna í því að úthýsa fljótandi sápu af heimilinu og nota sápustykki í staðinn. Sú nýbreytni fór skrautlega af stað. Sápudiskurinn, sem var úr gleri, datt ofan í vaskinn og brotnaði og þar sem sápan tolldi illa á vaskbrúninni greip sonurinn til sinna ráða. Eitt skiptið þegar ég kom inn á bað blasti sápustykkið við, kirfilega tryggt frá því að renna ofan í vaskinn, hugmyndaflugið hafði nefnilega leitt guttann að frumlegri lausn; hann hafði fundið þennan fína sjálflímandi renning í baðskápnum, límt hann á vaskbrúnina og tyllt sápunni ofan á. Hver segir að dömubindi megi ekki nota undir handsápu?

endurvinnsla 005


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283