Alma Rut Lindudóttir skrifar
Ég þekki mann. Hann er rúmlega fimmtugur. Hann hefur barist við Bakkus og búið lengi á götunni. Hann er alkóhólisti og þjáist af fleiri andlegum og líkamlegum sjúkdómum. Hann getur ekki unnið, er einfaldlega ekki fær um það vegna veikinda sinna. Hann fær fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustunni. Ég man ekki töluna upp á hár en hún er á milli 130-150 þúsund á mánuði. Af því borgar hann meðlag með einu barni svo eftir standa 105 til 125 þúsund. Hann er á tveimur lyfjum þau kosta líka peninga.
Þessi maður hefur sótt um örorkubætur oftar en einu sinni en verið synjað í hvert sinn. Honum er sagt að fara út að vinna þó svo að hann sé ekki fær um það. Hann er óstaðsettur í hús og hefur reynt að fá herbergi á leigu en ekkert hefur gengið. Hugsanlega vegna fordóma þar sem fólk þekkir hann sem „óreglumann“ og vill því ekki leigja honum en kannski vegna þess að hann hefur ekki meðmæli, er ekki í fastri vinnu og útlit hans ber þess merki að hann hafi verið í neyslu.
Fólk sem leigir út íbúðir sínar kannar oft bakgrunn leigjandans, vill meðmæli, tryggingu og reglusemi en hann hefur ekkert af þessu. Eins og staðan er í dag er mun erfiðara að fá íbúðir og herbergi til leigu. Hann er með félagsráðgjafa og er búinn að sækja um félagslega leiguíbúð. Það tekur allt sinn tíma og er hann búin að bíða eftir félagslegu húsnæði í þó nokkurn tíma.
Fjölskylda hans er búin að gefast upp. Þegar fólk er í þessari stöðu, í raun á „byrjunarreit“ í lífinu, hlýtur að vera virkilega erfitt að eiga fáa að því áfengisneyslan hefur gert það að verkum að fólkið hefur lokað dyrunum. Maður í hans stöðu valdi sér líklega ekki þessa leið, hann er með sjúkdóm og er veikur, hann hefur misst tökin. Sjálfsmynd hans er mjög brotin, hann upplifir sig utangarðs og hugsar jafnvel um að enginn vilji hann.
Draumur hans er að komast á rétt ról, hann langar að ná tökum á lífi sínu, hann einfaldlega hefur ekki getað það. Því miður er staðan í dag sú að hann er á götunni að drekka. Hann sefur á gistiskýlinu, úti eða í fangaklefa. Ef hann færi í meðferð, kæmi út og fengi viðeigandi þjónustu strax, gæti farið inn á heimili sem væri sniðið að hans veikindum og þörfum. Ef hann kæmist inn án þess að fara á biðlista, hann þyrfti stað og stuðning í millitíðinni. Það vantar meira öryggisnet fyrir þá einstaklinga sem eiga í engin hús að vernda og eru að koma úr meðferð.
Sumir hugsa kannski að þetta sé aumingjaskapur: „hann kom sér í þetta sjálfur“, „ hann byrjaði að drekka“. Aðrir hugsa að þetta sé hans val, en er það raunin? Ef þú ert alkóhólisti þá er það ekki þitt val því það er sjúkdómur sem þú ákvaðst ekki að vera með. Ef þú ert andlega veikur á öðrum sviðum þá er það líka sjúkdómur sem þú valdir heldur ekki að vera með.
Allir eiga að fá tækifæri til að byrja lífið upp á nýtt en því miður er það erfitt fyrir suma þar sem oft er langur biðlisti í þau úrræði sem eru í boði. Eins og í hans tilfelli þar sem hann vill taka sig á en hefur í raun ekki stuðningsnetið til þess. Mín skoðun er sú að samfélag okkar yrði betra ef við myndum hafa fleiri og fjölbreyttari úrræði fyrir einstaklinga eins og hann og að allir kæmust að þegar þeir þyrftu á því að halda.