Jólin nálgast óðfluga og nú þarf ég ekki lengur að hlusta á jólalögin í laumi, loksins!
Jólin eru mín uppáhalds hátíð og því reyni ég að gera sem mest úr þeim og njóta þeirra í botn. Þetta er eini tími ársins þar sem enginn dæmir mann fyrir að baka smákökur og tertur þrisvar í viku, eða fyrir að sleppa því að mæta í ræktina og sitja frekar uppi í sófa með bolla af rjúkandi heitu súkkulaði á meðan maður horfir á fjórar jóla bíómyndir í röð. Desember mánuður er einnig tími vetrarins þar sem skammdegisþunglyndið dregur sig í hlé og dimmir vetrardagarnir verða heillandi þökk sé fallegu jólaljósunum sem prýða götur og hús landsmanna.
Í gærkvöldi ákvað ég að gefa aðventunni þjófstart og útbúa jólanammi. Ég útbjó bæði klassísku kókoskúlurnar sem við þekkjum flest og súkkulaðiðhjúpað döðlunammi eftir uppskrift sem vinkona mín hefur verið að þróa síðustu vikur. Þetta kom ekkert smá vel út og verður gert aftur á næstu dögum.
Fyrir tveimur árum prófaði ég að búa til jólagjafirnar sjálf í stað þess að þræða búðirnar með debetkortið á lofti í von um að finna eitthvað sem fjölskyldu og vinnum gæti mögulega vantað eða langað í. Ég útbjó jólamöndlur sem ég setti í fallegar krukkur og skreytti. Möndlurnar slógu í gegn og ég áttaði mig á því að það þarf ekki að kosta morðfjár að gleðja ástvinina. Þetta jólanammi væri mjög sniðugt að gefa í jólagjafir og ég held að engin væri svikinn af svona gjöf.
Kókoskúlur
Flest þekkjum við þessar klassísku kókoskúlur. Ég gerði þær fyrst í matreiðslutímum sem barn og hef haldið mig við sömu uppskrift síðan. Stundum bæti ég örlitlu kældu kaffi saman við sem er alveg prýðisgott.
Hráefni:
100g mjólkurlaust smjör
1 dl sykur
3 dl haframjöl
3 msk hrákakó
1 tsk vanillusykur
Örlítið salt
Kókosmjöl
Aðferð:
1. Mér finnst best að byrja á því að þeyta saman smjör og sykur með rafmagnsþeytara þangað til það verður örlítið ljóst. Þetta er alls ekki nauðsynlegt og ég hef oft blandað öllu strax í skál og hnoðað saman. Hinsvegar þykir mér þetta gera kúlurnar aðeins mýkri og betri.
2. Næst bæti ég afgangnum af hráefnunum við og blanda því vel saman.
3. Næst útbý ég kúlurnar og velti þeim upp úr kókosmjölinu.
4. Það er best að geyma kúlurnar í ísskáp í svona klukkutíma áður en þær eru bornar fram.
Súkkulaðihúðað döðlunammi með sjávarsalti
Þessa uppskrift hefur vinkona mín verið að þróa með sér í eldhúsinu síðustu vikur. Ég hef fengið að fylgjast með og smakka og í fyrradag varð uppskriftin fullkomnuð. Þessir molar eru alveg ólýsanlega góðir og blandan af döðlunum, súkkulaðinu og saltinu gerir nammið alveg ómótstæðilegt.
Hráefni:
2, 1/2 dl Ferskar döðlur (Munið að taka steinana úr áður en þær eru settar í matvinnsluvélina)
2 dl saltaðar kasjúhnetur
1 kúfull msk hnetusmör
2 tsp hrákakó
100g dökkt súkkulaði
1 tsk kókosolía
1/4 tsk gróft sjávarsalt
Aðferð:
1. Ég byrjaði á því að taka steinana úr döðlunum og leggja þær í bleyti í 10 mín. Ef þið notið þurrkaðar döðlur myndi ég leyfa þeim að liggja í hálftíma.
2. Á meðan setti ég kasjúhneturnar í matvinnsluvél og púlsaði þær nokkrum sinnum. Ég passaði mig að mylja þær ekki alveg niður. Næst setti ég þær í skál og geymdi til hliðar.
3. Ég setti döðurnar, hnetusmjörið og kakóið í matvinnsluvélina þar til úr varð mjúkt deig.
4. Næst setti ég deigið í stóra skál ásamt hnetunum og blandaði saman.
5. Ég útbjó litlar kúlur og setti þær í frystinn á meðan ég bræddi súkkulaði.
6. Súkkulaðið bræddi ég ásamt kókosolíunni og sjávarsaltinu
7. Að lokum velti ég kúlunum upp úr súkkulaðinu og stráði örlitlu salti yfir.
8. Kúlurnar geymdi ég í ísskápnum í sirka klukkustund áður en ég bar þær fram.
Ég vona að þið njótið!