Kristinn Hrafnsson skrifar:
Á fáum sviðum er jafnmikið bil á milli veruleika og skynjunar eins og í hættumati fólks enda ýmis öfl sem spila á óttaskynjun. Óþarft er að fjalla hér um pólitíska misnotkun á óttanum enda flestir meðvitaðir um það kunnuglega stef. Undanfarið hafa margir bent á þá staðreynd að hvað sem líður atburðum síðustu missera hefur hættan á hryðjuverkum í Evrópu snarminnkað á síðustu áratugum.
Á Íslandi virðist óttaskynjun fara vaxandi, hvað sem veldur, en sú skynjun á sér enga tölfræðilega stoð í reynsluheiminum þegar grúskað er í afbrotatölfræði. Hana er hægt að finna með því að raða púslum saman úr ársskýrslum Ríkislögreglustjórans en rétt er að geta þess að tölulegum gögnum þarf alltaf að taka með fyrirvara og sérstaklega á þetta við um afbrotatölfræði.
Þegar rýnt er í tölurnar kemur samt í ljós að ofbeldisbrotum á Íslandi hefur ekki verið að fjölga, ef litið er til síðustu 10 ára. Að vísu hefur þeim fjölgað nokkuð á síðustu fjórum árum, eða frá lægsta punkti 2011 (1078 brot), en það er nokkuð áberandi að Ríkislögreglustjóranum hugnast að miða við það ár. Það sker sig hins vegar úr. Í fyrra voru skráð 1237 ofbeldisbrot en þau voru fleiri öll árin 2005, 2006, 2007 og 2008. Þessum brotum fækkaði svo eftir þetta tímabil en hefur verið að smáfjölga síðan, án þess þó að ná „ógnaröldinni“ árin fyrir Hrun.
Vert er að hafa í huga að 75-85% af öllum þessum ofbeldisbrotum teljast minniháttar líkamsárásir (t.d. um 76% í fyrra).
Yfirleitt er afbrotatölfræði reiknuð sem hlutfall af íbúafjölda og ef það er gert, myndi enn draga úr trúverðugeika þeirra sem vilja meina að heimur fari versnandi. Samkvæmt manntalsupplýsingum Hagstofunnar voru Íslendingar 293.577 árið 2005 en 325. 671 í fyrra. Landsmönnum hefur því fjölgað um ríflega 10% á þessu árabili sem tölurnar um ofbeldisbrotin ná til.
Ef öll hegningarlagabrot á þessu tímabili eru svo skoðuð sést einnig dramatísk þróun. Þau voru í heild um 12 þúsund árið 2005, fjölgaði svo nokkuð eða í 16 þúsund árið 2009 en voru rúmlega 10.800 í fyrra. Ef mönnum hugnast að leita enn aftar í tíma má geta þess að árið 2002 voru hegningarlagabrot um 19.400, eða nærri tvöfalt fleiri en í fyrra. Aftur er rétt að minna á íbúafjölgun um 10% á síðustu 10 árum.
Ógnir gegn lögreglunni
Þegar hugað er að byssuburði lögreglumanna gæti mönnum dottið í hug að þeir vilji geta varið sjálfa sig (og borgarana um leið). Vert er því að skoða þau brot sem beinast að lögreglumönnum. Þessi brot flokkast undir „Brot gegn valdstjórninni“. Þetta eru öll brot sem snúa að lögreglumönnum og raunar öðrum opinberum starfsmönnum. Þar sést svipuð þróun og í ofbeldisbrotum almennt; það er toppur 2007, 2008 og 2009, eftir það fækkar þeim merkjanlega í tvö ár en svo leita þau upp á við aftur. Síðasta ár eru skráð 400 brot í þessum flokki, sem er umtalsverð aukning, sérstaklega frá rólyndisárinu 2011 (295 brot), en hefur enn ekki náð skelfingunni 2007 (427 brot) og 2008 (432 brot).
Það kemur þó ýmislegt fróðlegt í ljós þegar þessar stærðir eru sundurliðaðar hvert ár (og það þarf að fletta hverri einustu ársskýrslu Ríkislögreglustjórans til að fá heildstæða mynd) og tekin eru út bein ofbeldisbrot gegn lögreglumönnum í starfi. Þá kemur á daginn að töluvert hefur dregið úr þessum brotum á seinni helmingi síðasta áratugar. Langflest eru þessi ofbeldisbrot gegn lögreglumönnum í vinnunni árin 2007 og 2008 (120 og 118), en fækkar síðan á næstu árum. Eru á bilinu 69-87 frá 2010-2014.
Þessi mynd er því ekki að sýna að starf lögreglumannsins sé að verða hættulegra nema annað komi til, og þá helst að brotin gegn lögreglumönnunum séu á einhvern hátt grófari eða hættulegri.
Forvitnir gætu einnig séð að 77 brot á liðnu ári eru ekki nema lítill hluti af heildarbrotum gegn valdstjórninni sem töldust 400. Það kemur sum sé á daginn að langstærsti liðurinn í þessum brotaflokki er óhlýðni. Það er sum sé undirbrotaflokkurinn „Fyrirmælum lögreglu er ekki hlýtt“, sem er uppistaðan í brotum gegn valdstjórninni.
Þessi óhlýðni gagnvart laganna vörðum er á svipuðu róli allan áratuginn, á bilinu 30-40% af öllum brotum gegn valdstjórninni, nema síðasta ár sker sig úr. Vel yfir helmingur allra brotanna telst hlýðnivandi sem laganna verðir þurfa að mæta.
Menn geta svo velt vöngum yfir því hvort aukinn vopnaburður sé besta leiðin til að bregðast við óhlýðninni.
Heimildir: hagstofa.is og http://www.logreglan.is/
Ljósmynd/Sigtryggur Ari