Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Kirkjuferðir og jafnrétti

$
0
0

Andrés Helgi Valgarðsson skrifar:

andreshvÞað er komin piparkökulykt í loftið, ljósaseríurnar byrjaðar að spretta á svalahandriðum og í runnum – og vefmiðlar fyllast af umræðu um kirkjuferðir á vegum grunnskólanna.

Jólin eru sumsé farin að nálgast.

Ég held að við getum öll verið sammála um að þessi umræða sé orðin langþreytt, fyrirsjáanleg og útþvæld, en samt sprettur hún upp á hverju ári.

Kristna meirihlutanum á Íslandi þykir að sér sótt. Þeim líður eins og gengið sé á þeirra réttindi, þau látin færa fórnir og hætta hlutum sem þeim þykja fullkomlega eðlilegir, til að þóknast háværum, jafnvel öfgafullum minnihluta.

Þau upplifa það sem svo að það sé bara næstum því bannað að vera kristinn, tala um Guð eða Jesú og að samfélagið sé staðráðið í að þagga niður í þeim og gera þau undirokuðum minnihlutahóp.

Þó þetta sé alrangt, þá skil ég vel að þetta sé upplifunin.

Tilfinningin sem maður upplifir við það að missa yfirburðastöðu og vera gert að sætta sig við það sama og allir aðrir er nefnilega ekki ósvipuð því að vera undirokaður – eins kaldhæðnislega og það hljómar. Í báðum tilfellum er verið að taka af þér hluti sem þú gengur að sem vísum, minnka stöðu þína og kraft og segja þér að mótspyrna af þinni hálfu sé óréttlát.

Munurinn er þó augljós, þar sem einungis er verið að fjarlægja forréttindi og yfirburðastöðu. En tilfinningin er svipuð.

Viss gjá milli veraldlegs samfélags og trúariðkunar verður sífellt nauðsynlegri eftir því sem samfélagið verður margbreytilegra. Sú gjá felst í því að þótt við séum ósammála um trúarskoðanir, hvort Guð sé til, hvaða Guð það sé eða hvað hann vilji, þá getum við öll treyst því að hið opinbera líti okkur öll jöfnum augum. Að við getum öll treyst á það að vera jöfn fyrir lögum og stofnunum hins opinbera og það sé ekki leynt eða ljóst að setja á okkur þrýsting um að skipta um skoðun.

Hver sá sem upplifir öryggi í því að vita að ríkinu beri skylda til að styrkja og vernda hans trúfélag sérstaklega ætti að reyna að setja sig í spor einhvers sem ekki bara nyti ekki slíks styrks og verndar, heldur vissi það að ríkið væri í liði með einhverjum öðrum. Einhverjum sem trúir á annan eða engan guð og hefur aðra sýn á heiminn.

Það eina sanngjarna er að hið opinbera sé hlutlaust, taki ekki afstöðu. Það á ekki að segja þér að Guð sé til og að Jesú hafi dáið fyrir syndir okkar, og það á ekki að segja þér að Guð sé ekki til.

Ríki og borg, og skólar á þeirra vegum, hafa alveg sérstaka stöðu, þar sem við treystum þeim öll fyrir börnunum okkar stóran hluta æsku þeirra. Þau treysta kennurunum sínum (eða ættu að geta gert það) og ættu ekki að vera sett í þá stöðu að lífsskoðunum sé predikað til þeirra úr þeim stóli.

Og það er þetta sem stór hluti kristinna manna á erfitt með að kyngja, þó þau sjái þetta ekki þannig.

Ekki að þau eigi að vera lægri en aðrir, heldur að þau fái ekki lengur að vera hærri en aðrir.

Ég er fylgjandi jafnrétti fyrir alla, að engin börn eigi að vera skilin útundan eða stimpluð sem ‘öðruvísi’. Að krafti hins opinbera sé ekki beitt til að styrkja stöðu eins tiltekins þjóðfélagshóps á kostnað annarra.

Sérstaklega þegar sá hópur er í yfirburðastöðu varðandi fjölda og stöðu í samfélaginu. Langflestir sem fara með völd tilheyra þjóðkirkjunni. Ráðherrar, þingmenn, forstjórar, lögreglumenn, kennarar, o.s.frv. eru upp til hópa kristnir. Enginn hefur nokkru sinni misst vinnuna á íslandi fyrir að vera kristinn, tapað kosningu – eða verið meinað að leigja íbúð.

Kristnir Íslendingar þurfa engar áhyggjur að hafa af því að verða hornsettir eða gerðir að minnipokamönnum. Það er ekki minn tilgangur, eða Reykjavíkurborgar.

Tilgangurinn er að passa að ekki sé stigið á borgararéttindi þeirra sem ekki eru kristnir, í krafti meirihlutans. Sá meirihluti verður einfaldlega að þola að missa þau forréttindi sem hann hefur hingað til gengið að vísum – til að jafnrétti geti orðið að veruleika.

Höfundur er stjórnarmeðlimur Pírata í Reykjavík

Samsett mynd af kirkjunet.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283