Klikkaður kókaínsali, pabbi í kjól, slímugur lögfræðingur og fluggáfaðir forritarar með félagshæfni á við orm eru meðal þess sem þú getur skemmt þér við næstu klukkustundirnar eða vikurnar. Framboð á hágæða sjónvarpsefni og leiðum til að horfa á það hefur aldrei verið meira. Lotuáhorf færist í aukana og fólkið í sófanum er orðið sínir eigin dagskrárstjórar. Hér eru nokkrar góðar tillögur að vinsælum og vönduðum sjónvarpsþáttum og leiðum til þess að nálgast þá.
Erlendar efnisveitur líkt og Hulu og Netflix bjóða upp á mikið magn erlends efnis fyrir fasta upphæð á mánuði. Þessar efnisveitur eru ekki þjónustaðar hérlendis í augnablikinu, þannig að þeir sem eiga við þær viðskipti eru að fara á skjön við höfundakerfið með því að notast við hjáleiðir framhjá því. Netflix hefur þó tilkynnt komu sína til landsins og verður áskriftarleiðin þá lögum samkvæmt. Í millitíðinni eru þættir framleiddir af Netflix ekki sýndir á innlendum stöðvum líkt og áður fyrr heldur bíða þess að veitan opni fyrir íslenskan markað.
Innlendar efnisveitur á vegum Símans og Vodafone bjóða upp á aðgang að efni í gegnum myndlykla símafyrirtækjanna gegn gjaldi. Um er að ræða efni sem oft er ekki sýnt í línulegri dagskrá. Til dæmis býður Vodafone upp á Cirkus sem er breskur efnispakki og Vodafone Play sem er efnisveita í anda Netflix. Síminn býður svo upp á pakka með barnaefni (SkjárKrakkar) og pakka með efni frá SkjáEinum auk fjölda annarra þáttaraða (SkjárÞættir). Einnig má nálgast efnið í gegnum tölvur og síma en áskriftin er þó í flestum tilfellum bundin við að viðkomandi sé einnig með myndlykil frá símafélaginu. Sjónvarpsstöðvarnar bjóða svo upp á nánast allt sitt efni í Frelsinu (valmynd í gegnum myndlykil). Misjafnt er milli stöðva hversu lengi efnið er aðgengilegt eftir frumsýningu í línulegri dagskrá. Þess utan reka svo Skjárinn (SkjárBíó) og Vodafone (Leigan) bíómyndaleigur í gegnum myndlykla sína þar sem þú greiðir aðeins fyrir það efni sem þú velur að horfa á hverju sinni.
Halt and catch fire eru Mad Men tölvugeirans. Ekki láta óþjálan titilinn fæla þig burt. Þessir þættir eru líklega það besta í sjónvarpi í dag og segja frá kapphlaupinu við að smíða fyrstu og bestu einkatölvurnar í kringum 1980. Gelaður sölumaður með stálsjarma, nördalegu kláru forritararnir og fluggáfaðar konur sem berjast við að smíða bestu einkatölvuna á viðráðanlegu verði og gera tölvur þannig að heimilistæki.
Sýningaraðili: Óstaðfest hver mun sýna á Íslandi.
Framleiðslustaða: Sería 3 væntanleg.
The affair er nýstárleg sýn á hvernig fólk upplifir sömu hlutina á mismunandi vegu. Efniviðurinn er sálræn áhrif framhjáhalds og eftirleikur sem enginn sá fyrir. Aðalleikarinn er hinn harði Dominic West úr The Wire og hin rauðhærða Ruth Wilson, snarbilaða kvendið úr hinum bresku sjónvarpsþáttum Luther. Þættirnir hafa unnið tvenn Golden Globe-verðlaun og eru hressandi tilbreyting frá gamla sápusullinu. Hágæða drama með öllum óþægilegu tilvísunum raunveruleikans svo úr verður fersk og raunsæ þáttaröð.
Sýningaraðili: SkjárEinn. Sería 2 er aðgengileg í efnisveitu Símans og verður sýnd í vetur á Skjánum.
Framleiðslustaða: Sería 3 óstaðfest.
Fargo eru þættir úr smiðju Coen-bræðra líkt og kvikmyndin Fargo sem þeir eru byggðir á. Fyrsta serían fylgdi í upphafi svipuðum söguþræði og myndin en seinni serían hefur öðlast alveg sjálfstætt líf. Aðalleikarar fyrri seríunnar eru Billy Bob Thornton og Martin Freeman. Í seríu tvö mæta Ted Danson og Kirsten Dunst til leiks ásamt fleiri góðum. Grjóthörð og óvenjuleg þáttaröð í kvikmyndastíl.
Sýningaraðili: SkjárEinn.
Framleiðslustaða: Sería 3 er óstaðfest.
Mr Robot fjallar um ungan netöryggissérfræðing sem ver frítíma sínum í að hakka sig inn í kerfi og fletta ofan af spillingu. Eitt skiptið hakkar hann sig inn í valdamesta hring heims. Upphefst æsispennandi atburðarás þar sem hinn geðþekki Christian Slater poppar upp í formi eldri og reyndari anarkista. Þættirnir eru geysivinsælir og hefur uppljóstrarinn Edward Snowden sagst vera mikill aðdáandi þáttanna. Hvað sem það nú þýðir.
Sýningaraðili: Óstaðfest
Framleiðslustaða: Sería 2 væntanleg.
Better Call Saul eru „spin off“ þættir af Breaking Bad, einum vinsælustu dramaþáttum síðari ára. Sjónvarpsspekúlantar vilja meina að þættirnir séu með best heppnuðu „afkvæmum“ annarra þátta en slíkar afurðir takast oftar en ekki illa. Þættirnir fjalla um lögfræðinginn Saul sem telur það ekki eftir sér að teygja til lögin til að vinna sér inn aukapening. Saul er klæddur eins og fasteignasali og notar fáránlega frasa við öll tækifæri. Hann er slímugur og sleipur og einstaklega góð afþreying.
Sýningaraðili: Stöð 2
Framleiðslustaða: Sería 2 væntanleg.
Empire fjallar um fjölskyldu sem rekur geysistórt og vinsælt plötuútgáfufyrirtæki með tilheyrandi stjörnum og stælum. Mikil vinna er lögð í tónlistina í þáttunum en stórstjarnan Timbaland framleiðir alla tónlistina með hip hop í forgrunni. Fjöldi stórstjarna kemur fram sem gestaleikarar. Má þá helst nefna Naomi Cambell, Courtney Love og Pitt Bull. Drama með miklu blingi og blóti.
Sýningaraðili: Stöð 2
Framleiðslustaða: Sería 2 væntanleg.
True Detective er stjörnum stráð dimmt löggudrama. Hver sería er sjálfstæð með nýjum söguþræði og leikurum. Fyrsta serían státaði meðal annars af Matthew McConaughey, Woddy Harrelson og Ólafi Darra. Sería tvö er ekki verr skipuð með Colin Firth, Rachel McAdams og Vince Vaughn. Báðar seríurnar fjalla um lögreglumenn og spillingu. Hversu langt máttu ganga ef tilgangurinn er góður? Þessir þættir eru ekki fyrir viðkvæma!
Sýningaraðili: Stöð 2
Framleiðslustaða: Sería 3 er óstaðfest.
Limitless eru sjónvarpsþættir í ætt við samnefnda kvikmynd sem kom út árið 2011 með Robert DeNiro og Bradley Cooper í aðalhlutverkum. Bradley leikur í nokkrum þáttum í seríunni ásamt hinni grjóthörðu Jennifer Carpenter sem er betur þekkt sem systir Dexters í samnefndum sjónvarpsþáttum.
Sýningaraðili: Skjár Einn. Þættirnir eru komnir í efnisveitu Símans og verða sýndir á Skjánum í vetur.
Framleiðslustaða: Sería 2 er óstaðfest.
Banshee fjallar um þjóf sem sleppur úr fangelsi eftir 15 ár og villir á sér heimildir og þykist vera nýi lögreglustjórinn sem Bansheebúar áttu von á. Fortíðin nagar hælana á nýja lögreglustjóranum með tilheyrandi spennu og drama. Framleiðandi þáttanna er sá sami og framleiddi True Blood og Six Feet Under og eru þættirnir í svipuðum flokki. Innihalda ofbeldi, kynlíf og taugatitring.
Sýningaraðili: Stöð 2
Framleiðslustaða: Sería 4 er væntanleg.
The third eye eru norskir spennuþættir um lögreglumann sem verður fyrir því áfalli að ung dóttir hans hverfur sporlaust. Árin líða en hann hættir ekki að leita hennar og samfléttast leit hans að dóttur sinni við önnur mál sem hann vinnur að. Raunsæir spennuþættir þar sem ekki allir leikarar hafa farið í tannhvíttun og kolvetniskúrinn vikulega.
Sýningaraðili: Stöð 2
Framleiðslustaða: Sería 2 væntanleg.
Unbreakable Kimmy Schmidt eru ruglaðir grínþættir frá Tinu Fey í framleiðslu Netflix. Þættirnir fjalla um unga konu sem er bjargað frá dómsdagssöfnuði og fær starf sem barnapía hjá snobbaðri yfirstéttardömu sem leikin er af Jane Krakowski (úr 30 Rock og Ally MacBeal). Þættirnir eru kjánalegir, fyndnir og kærkomin afþreying eftir krefjandi dag.
Sýningaraðili: Netflix
Framleiðslustaða: Sería 2 er væntanleg.
The Knick gerist í upphafi tuttugustu aldarinnar á myrkum tímum læknavísindanna. Læknisfræðileg þekking var afar takmörkuð og fáfræðin hafði á köflum skelfilegar afleiðingar. Þættirnir fylgja lífi og limum starfsfólks á Knickerbocker-spítalanum í New York. Breski sjarmörinn Clive Owen fer með aðalhlutverkið sem læknirinn og eiturlyfjaneytandinn Dr. John W. Thackery.
Sýningaraðili: Stöð 2
Framleiðslustaða: Sería 3 óstaðfest.
Narcos rekur sögu kókaínbarónsins Pablo Escobar í Kólumbíu á níunda áratugnum. Þessi tími markar einnig upphaf stríðs bandarískra stjórnvalda gegn fíkniefnum. Þættirnir hafa ekki bara skemmtanagildi heldur eru þeir ágæt skoðun á þessu tímabili í sögu Kólumbíu. Netflix framleiðir þættina sem hafa hlotið frábærar viðtökur og er framhalds þeirra beðið með mikilli eftirvæntingu.
Sýningaraðili: Netflix.
Framleiðslustaða: Sería 2 væntanleg.
Casual fjallar um systkini á „besta“ aldri sem búa saman eftir að systirin kemst að því að eiginmaðurinn er að tríta eina tvítuga á milli mála. Systirin flytur því ásamt unglingsdóttur sinni inn til bróður síns. Hún er sálfræðingur en bróðirinn er þunglyndissjúklingur og á vinsæla stefnumótasíðu sem hann notar óspart í eigin þágu. Skemmtileg sýn á hversu súrsætt það getur verið að verða einhleyp(ur) um fertugt.
Sýningaraðili: Óstaðfest hver sýnir hérlendis.
Framleiðslustaða: Sería 2 væntanleg.
How to get away with murder er ansi mikil sápa á köflum en grunnstoðin í þáttunum er aðalleikkonan Viola Davis. Hún er mikils metin, eldklár lögfræðingur og háskólakennari. Líf hennar hrynur smám saman í gegnum þáttaröðina og sú glæsta ímynd sem hún hefur byggt upp árum saman leysist upp. Það óvenjulega við þættina er að aðalleikkonan er sýnd ómáluð, hárkollulaus og útgrátin. Allt er látið flakka til að sýna hvernig henni líður og hversu þunn glansmyndin er í raun og veru.
Sýningaraðili: SkjárEinn
Framleiðslustaða: Sería 2 væntanleg.
Transparent er líklega sá þáttur sem kemur hvað mest á óvart en hann lætur lítið sem ekkert yfir sér, enda er aðalpersónan ekkert glimmer og gloss. Þættirnir hafa meðal annars unnið Golden Globe-verðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki en það er snillingurinn Jeffrey Tambor úr Arrested Development sem fer með hlutverk hins vansæla föður sem þráir að vera eitthvað allt annað en hann er. Áreynslulaus snilld um fjölskylduleyndarmál og tilraun okkar allra til að fá lífið til að ganga upp. Amazon framleiðir seríuna en þeir framleiða sjónvarpsefni með áherslu á að dreifa því á netinu.
Sýningaraðili: Stöð 2
Framleiðslustaða: Sería 3 væntanleg.