Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Faceland

$
0
0

Þriðjudagsfundur í Kaliforníu
Áhrifamesti frétta- og umræðuvettvangur Íslands er með höfuðstöðvar í Kaliforníu. Hann skilur ekki íslensku, þekkir ekki íslensk lög né menningarsamhengi og er slétt sama um lýðræði. Íslendingar hafa gengið lengra en margir aðrir í að yfirfæra almannarými og -róm til Facebook. Fundarstjórinn Facebook stjórnast af algóritma sem hannaður er til að halda okkur föstum við skjáinn. Markmiðið er að selja auglýsingar og ýta undir fíkn, ekki góða umræðu.

Hvern þriðjudag hittast um tuttugu verk- og gagnafræðingar í höfuðstöðvum Facebook og fara yfir þá milljarða læka, athugasemda og smella sem notendur Facebook hafa hamast við að smíða vikuna áður. Verkefni hópsins er að fá þig til að smella, deila, læka og vafra meira. Daglega sitja rúmlega 30 manns í Knoxville í herbergi fullu af tölvum og skima í gegnum fréttaveituna Facebook. Hver stöðufærsla, hlekkur og athugasemd eru metin, einkunn gefin og stutt lýsing gerð á því hversu vel efnið hélt starfsmanninum við skjáinn. Þessar skýrslur, ásamt svipuðum skýrslum frá 700 manna hópi notenda víðsvegar í Bandaríkjunum, eru svo á dagskrá þriðjudagsfunda fundastjóra Facebook. Næst er algórtima fréttaveitunar breytt í samræmi við niðurstöðurnar. Eins og alltaf er markmiðið að ýta undir að við ílengjumst á Facebook til þess að selja auglýsingar.

Bandarískir notendur samfélagsmiðilsins eyða að meðaltali 40 mínútum dag hvern á Facebook. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Needham er meðaltími allra 1,5 milljarða notenda Facebook um 20 mínútur á dag. Það er um fimmtungur þess tíma sem sama fólk eyðir á netinu. Hver einasta breyting verkfræðingahópsins miðar að því að lengja þennan tíma.

Heimsmet í Facebook
Árið 2010 voru átta af hverjum tíu Íslendingum skráðir á Facebook. Í umfjöllun Time um Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, sama ár kemur fram að íslenskir notendur séu 265.420. Þá voru Íslendingar skráðir um 318 þúsund hjá Hagstofunni. Átta af tíu íslendingum voru því samkvæmt þessu með notanda á Facebook. Í umfjöllun Time kemur fram að Íslendingar geri tæplega 14 þúsund athugasemdir á klukkustund. Sendi sex þúsund skilaboð, hali upp fjögur þúsund myndum og deili 1.500 tenglum. Hafa skal í huga að margt hefur breyst á fimm árum. Notendafjöldi Facebook hefur vaxið úr tæpum sex hundruð milljónum í rúmlega 1,5 milljarð. Daglega notar milljarður fólks síðuna. Magnið hefur frekar aukist en minnkað.

Yfirfærsla almannarýmis og umræðu á síður Facebook hefur að miklu leyti átt sér stað án ítarlegrar umræðu um afleiðingar þess fyrir íslenskt samfélag. Þótt margir þekki til Marks Zuckerberg þá eru færri sem vita hver Sheryl Sandberg, David Wehner, Mike Schroepfer og Chris Cox eru. Hér er þó um hin fimm fræknu að ræða. Efsta lag fyrirtækisins Facebook og þeirra sem taka afdrifaríkar ákvarðanir um íslenska umræðu en alltaf út frá forsendum eigin gróða.

Stjórnarskráin á Facebook
Ný stjórnarskrá var meginkrafa búsáhaldabyltingarinnar. Árið 2010 var blásið til stjórnlagaþingskosninga, þar sem landið var eitt kjördæmi og kjósendum var ætlað að velja einstaklinga á eigin lista en ekki flokka eða tilbúinn lista fólks. Facebook átti stóran þátt í kosningunum. „Strax í upphafi kosningabaráttunnar var ljóst að Facebook myndi vera í stóru hlutverki í kynningarmálum. Þetta mátti m.a. sjá á því að fambjóðendum var ófomlega beint inn á „Facebook/á stjórnlagaþing “ og með því að Facebook-tengingar voru á opinberum tilkynningum,“ segir í rannsókn Birgis Guðmundssonar, dósents við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, á kynningarmálum frambjóðenda fyrir stjórnlagaþingskosningar 2010 sem birt var í ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Stjórnlagaþingskosningarnar gerðu að ýmsu leyti óvenjulegar kröfur til frambjóðenda, stjórnvalda og fjölmiðla landsins. Deila má um hvort fjölmiðlar hafi staðist áskorunina. Í fyrstu ákvað RÚV í nafni jafnræðis að fjalla ekki um einstaklinga í framboði til stjórnlagaráðs. Hugmyndin var sú að gæti RÚV ekki talað við alla yrði fremur að tala við engan. Yfirburðir Facebook voru því ýktir á fyrstu stigum kosninganna vegna þess að sterkustu fjölmiðlar landsins virtust ekki kunna að gera einstaklingskosningum með rúmlega 500 frambjóðendum skil. Það þurfti undirskriftalista, blaðagreinar og mótmæli fyrir utan RÚV til að fá almannaútvarpið til að reyna í það minnsta að gera frambjóðendum skil. Í kjölfarið bauð RÚV öllum frambjóðendum að mæta í 5 mínútna viðtal sem spilað yrði á Rás 1 og birt á vef RÚV.

Í rannsókn Birgis segir: „Nær allir, eða rúm 90% frambjóðenda kváðust ætla að nýta sér tilboð RÚV um 5 mínútna viðtal sem sett var inn á heimasíðu RÚV og spilað á Rás 1. Sú dagskrárgerð tók á fjórða tug klukkutíma og voru viðtölin spiluð í klukkutíma þáttum þar sem 10-12 frambjóðendur komu fram í hverjum þætti. Fyrir utan þessar góðu undirtektir við tilboði RÚV – sem að hluta til er birt á vef stofnunarinnar – vekur athygli hversu stór hlutur netmiðla er í þeim leiðum sem frambjóðendur fóru í kynningarstarfi. Aðeins tæplega þriðji hver skrifar grein í hefðbundið dagblað og ríflega fjórði hver skrifar grein í staðbundið blað. Til samanburðar eru rúm 70% frambjóðenda að skrifa greinar á netmiðla og 57% blogga á eigin bloggsíðu. Rétt er að hafa í huga að líklegt er að ýmsir af þeim sem segjast skrifa á eigin bloggsíðu eru þar að vísa til Facebook-síðu sinnar, en af opnum svörum sem komu með sumum spurninganna má ráða að margir frambjóðendur gerðu ekki endilega greinarmun á bloggi og Facebook.“

Lýðræðisbyltingin Facebook
Kosningabarátta frambjóðenda til stjórnlagaþings fór að miklu leyti fram á Facebook. Einhverjir frambjóðendur urðu fyrir skakkaföllum þegar fyrirtækið eyddi síðum þeirra. Fæstir íslenskir hópar á vefnum eru nógu stórir til að vekja nokkra athygli fundarstjóranna. Ólíklegt er að stjórnlagaþing hafi komið til umræðu á þriðjudagsfundi. Þá hefur reynst erfitt fyrir íslenska notendur að fá svör frá fyrirtækinu við kvörtunum. Smári McCarthy, verkefnisstjóri og áhugamaður um skoðana- og tjáningarfrelsi, gagnrýndi á sínum tíma að kosningabaráttan til Stjórnlagaþings væri nánast háð á Facebook. Hann sagði það undarlega stöðu að kosningabaráttan færi fram á vefsíðu fyrirtækis sem gæti ekki staðið meira á sama um stjórnlagaþingskosningar á Íslandi. „Þetta lofsama menn og tala um hvað sé frábært að lýðræðið blómstri á Facebook. Það er algjör fásinna að láta stjórnlagaþingskosningar standa og falla með duttlungum einkafyrirtækis,“ sagði hann í samtali við Smuguna í apríl árið 2011. „Ef við værum með tíu þúsund vefi eins og Facebook sem ekki væru miðstýrðir þá væri hættan á ritskoðun eða þrýstingi frá hagsmunaaðilum ekki mikil,“ sagði hann og bætti við að óábyrgt að tala eins og Facebook sé máttarstólpi lýðræðis og umræðu enda gildi engar sérstakar starfsreglur um samfélagsmiðla. „Fyrirtæki sem reka samfélagsvefi starfa bara eftir hlutafélagalögum og bera því fyrst og fremst ábyrgð gagnvart hluthöfum sínum.“ Hann bendir á að lagnafyrirtæki eins og vatns- og rafveitur starfi eftir ströngum reglum og telur ekki óeðlilegt að sama gilti um samfélagsvefi. Hann er þó sannfærður um að tæknin muni í framtíðinni sjá við ritskoðun. Í samtalinu við Smuguna sagði hann hlut samfélagsvefja líkt og Facebook og Twitter í byltingum í Mið-austurlöndum vera ýktan. Vissulega sé netið mikilvægt tæki til að skipuleggja mótmæli en það sé fjarri lagi að samfélagsvefir valdi byltingu. „Byltingar eru frá fólki komnar ekki frá Facebook. Nánast engin netuppbygging er í Líbíu, samt er bylting þar.“ Hann sagði netið þó vissulega eiga þátt í að koma upplýsingum til fjölmiðla.

Ísmolar eða Ferguson
Skiptir nokkuð af þessu máli? Hefur Facebook ekki fært umræðuna nær almenningi? Jú, að vissu leyti. Flest viljum við finna að á okkur sé hlustað og tekið mark á. Facebook raungerir þá tilhneigingu fólks að leita samþykkis og viðurkenningar. Hvert læk, athugasemd eða deiling gefur ásýnd mælanleika. Áhrif eru huglægt ástand og illmælanleg á meðan baráttan fyrir breytingum stendur yfir. Vissulega eru breytingarnar sjálfar mælikvarði en þær eru endapunktur fremur en upphaf baráttunnar. Við höfum því tilhneigingu til að telja hvert læk, athugasemd og deilingu sem hlutlægan mælikvarða á árangur. Í fjölmiðlum birtast reglulega fréttir af Facebook-síðum og hópum sem eru með þúsundir fylgjenda. Spyrja má hve mikils virði slíkt sé í raun. Algóritmi Facebook spilar svo talsvert inn í málið. Algóritminn sér að hópur vina þinna lætur sér líka við eitthvað efni. Læk er nokkurra punkta virði, athugasemdir meira, deiling enn meir. Þá vigtar algóritminn vini þína. Því meiri virkni sem er ykkar á milli því þyngra vegur efnið sem sá hinn sami deilir á þig. Facebook er í senn rými sem við deilum með öðrum og persónuleg rörsýn með ásýnd sameinaðs rýmis.

Tilraunarottur
Sláandi dæmi um áhrifamátt Facebook er að finna frá árinu 2014. Samfélagsmiðillinn nýtti þá um 700 þúsund notendur sem tilraunarottur í rannsókn á áhrifum Facebook á tilfinningalíf okkar. Tilraunin miðaði að því að kanna hvort jákvæðni og neikvæðni gætu smitast með miðlinum. Tilraunadýrin, Facebook-notendur, voru ekki meðvitaðir um þátttöku sína í rannsókninni fyrr en síðar. Í nokkra daga fékk einn hópur aðeins jákvæð skilaboð á meðan annar fékk neikvæðari. Raunin var sú að Facebook hefur áhrif á tilfinningalíf okkar. Eftir tilraunina mátti finna mælanlegan mun á tilfinningalífi hópanna tveggja. Íslendingar ættu að huga að úrtaksfjöldanum: 700 þúsund, tvöfaldur íbúafjöldi Íslands. Í notendaskilmálum Facebook er tekið fram að samfélagsmiðilinn geti án þinnar vitneskju framkvæmt slíkar tilraunir. Ísland á því á hættu að vera tilraunabú Facebook án vitneskju borgaranna né yfirvalda. Facebook hefur viðurkennt að ef til vill hefði mátt framkvæma tilraunina með öðrum hætti.

Furðulega gagnrýnislaust
Það vekur furðu að íslendingar virðist ekki gagnrýnni á þessa tilfærslu almannarýmis yfir til Facebook en raunin er. Fréttir, aðgerðir, mótmæli, auglýsingar og jafnvel pólitísk stefnumótun fer nú fram á miðli sem er líklegri til að ýta að þér myndböndum af köttum en fréttum af hryðjuverkaárásum eða umhverfismálum. Fræg er tilvitnun í Zuckerberg um að dauður íkorni fyrir framan húsið þitt geti vakið sterkari viðbrögð og skipt þig meira máli en fréttir af dauða fólks í Afríku. Hlutverk algóritma Facebook er fyrst og fremst að dekra við okkar eigið egó – ekki að dreifa upplýsingum. Fæstir gera sér í raun grein fyrir því að verið sé að mata þau með efni sem hannað er til að ýta undir virkni og að fólk ílengist á Facebook.

Í þessu samhengi má nefna að ‘ísfötuáskorunin’ sem vakti athygli um allan heim var að miklu leyti bundin við Facebook en smitaðist svo út í hefbundna fjölmiðla. Á Facebook féll skotárásin í Ferguson í skugga ísfötuárásarinnar vegna þess að algóritminn sá að notendur eyddu meiri tíma, lækuðu oftar, deildu og spjölluðu myndböndum af fólki að hella yfir sig klakavatni en fréttum af morði á svörtum manni.

Veikir fjölmiðlar
Á Íslandi eru fjölmiðlar veikir fyrir. Það ýkir áhrif Facebook, þar sem miðlarnir þurfa stanslaust að elta uppi Facebook-smelli. Flestir miðlar á Íslandi eru frímiðlar og reiða sig því á smelli. Lítil hefð er fyrir öflugum erlendum fréttadeildum. Það vinnur Facebook í hag, enda engir íslenskir fréttamenn staðsettir í Kaliforníu sem eyða tíma sínum í að skrifa um og kanna þær breytingar sem gerðar eru á algóritma Facebook, og um leið íslenskri almannaumræðu, eftir þriðjudagsfundina.

Fundarstjórar íslenskrar lýðræðisumræðu eru semsagt ekki á landinu og starfa ekki eftir skýrum og opinberum reglum. Markmið þeirra eru kannski það eina sem er skýrt: sífellt aukinn gróði. Hvernig næst hann? Með því að lengja stöðugt veru okkar á Facebook. Hver sekúnda er nýtt auglýsingasölutækifæri.

Spurning að henda í umræðuhóp á Facebook. Þurfum við ekki að ræða afleiðingar þessara breytinga? Hvernig kaupir maður svona Facebook-spons svo öruggt sé að umræðan nái til sem flestra?

Myndskreyting: Lára Garðarsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283