Jóhanna Fjóla Ólafsdóttir og Jóhanna Kristjónsdóttir stóðu fyrir söfnun á fatnaði sem senda á til Sýrlands. Nú er þeirri söfnun lokið og margir sem lögðu hönd á plóginn. Kvennablaðið heyrði í Jóhönnu Kristjónsdóttur.
Til hamingju með söfnunina sem nú er lokið samkvæmt síðu ykkar á Facebook? Hvernig tókst til?
Söfnunin tókst mjög vel og pakkað var í sex tonna gám á fimm og hálfum degi. Mjög margir lögðu verkinu lið, t.d. var sérstakur prjónaklúbbur settur á laggirnar á Facebook til að taka þátt í þessu. Mér fannst augljóst frá fyrstu byrjun að það kallaði það besta fram í fólki að vera með í þessu um leið og síðan „Sendum hlýjan fatnað til Sýrlands“ var stofnuð á Fb. Mörg dæmi um einstakt drenglyndi og meðlíðan í garð nauðstaddra Sýrlendinga birtust í sinni fegurstu mynd.
Alls voru settar í gáminn 15 þúsund flíkur af öllu tagi, hvort sem var fagurlega gert prjónles, bleyjur eða útifatnaður og svo framvegis. Ég nefni aðeins sem dæmi að krakkar á Húsavík tóku sig saman að hvatningu kennara síns og söfnuðu, sjónskert kona, 88 ára gömul á Austfjörðum, sendi kassa af forkunnar fallegum prjónavörum. Og svo mætti auðvitað lengi telja.
Hverjir sjá um flutning og á hvers kostnað?
Rauði krossinn sér um að senda gáminn út enda er verkið unnið í samvinnu við RK, Fatimusjóð og félaga sem skráðu sig á Fbsíðunni.
Fatimusjóðurinn leggur út fyrir flutnings- og dreifingarkostnaði.
Hverjir sjá svo um að koma fötunum í réttar hendur þegar til Sýrlands er komið?
Líbanski Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Líbanon annast það. Það keyrir enginn rakleitt inn í Sýrland um þessar mundir eins og ástandið er. Hluti varningsins fer í sýrlenskar flóttamammabúðir í Líbanon og reynt verður einnig að koma hinum hlutanum inn í Sýrland. Það er erfitt fyrir hjálparstofnanir að vinna þar um þessar mundir eins og ætti að liggja í augum uppi en fullur hugur er í hjálparstarfsmönnum að koma fatnaði þangað þegar leyfi stríðandi manna fæst til að fara á ófriðarstaði. Við munum reyna að fá upplýsingar um það
Er fyrirhugað að standa síðar fyrir annari söfnun?
Nei, ekki að svo komnu. Fatimusjóðurinn hefur á sl. einu og hálfu ári gefið til Sýrlandsverkefna um 15 milljónir og var mestum hluta þeirrar upphæðar varið til að reka litlar heilsugæslustöðvar (mobile) sem hafa sinnt sýrlenskum flóttamönnum.
Kvennablaðið óskar öllum hlutaðeigandi til hamingju með árangurinn, sannkallaður samhugur í verki!