Það vakti hörð viðbrögð á dögunum þegar undirrituð sagði í blaðaviðtali að henni þætti bara dásamlegt ef Jesús væri hommi. Tilefni viðtalsins voru orð Óskars Bergssonar borgarfulltrúa um að hann hefði áhyggjur af stöðu kristninnar í grunnskólum landsins og pælingum Jóns Gnarr borgarstjóra um að Jesús hafi hugsanlega verið hommi.
Ég verð að viðurkenna að ég varð dálítið barnslega hissa á viðbrögðunum. Nú fékk þjóðkirkjan mjög öflugt aðhald frá samfélaginu á þeim árum sem hún fékkst við að viðurkenna rétt samkynkynhneigðra til að ganga í hjónaband og sem kirkjunnar þjóni af minni kynslóð fannst mér stundum vandræðalegt hvað samfélagið virtist vera komið lengra en hin þjónandi forysta kirkjunnar. Oft var maður milli steins og sleggju í umræðunni, annars vegar vildi ég vera trú sannfæringu minni um að það væru eðlileg mannréttindi að samkynhneigðir ættu aðild að hjónabandssáttmálanum og hins vegar elska ég kirkjuna mína og mun aldrei snúa baki við henni þó ég sé henni ekki alltaf sammála, þ.e.a.s hinu kirkjulega samfélagi sem samanstendur af venjulegu fólki eins og mér og þér.
Kirkjan er hreyfing sem þolir vel að fá á sig brotsjó annað slagið af því að á endanum er það Jesús Kristur sem tekur við stjórninni og lægir öldurnar með ást sinni sem er dýpri og breiðari en öll heimsins höf. Hann á lokasvarið en leyfir okkur að tuskast svolítið til áður en það lítur dagsins ljós. Þess vegna vorum við mörg ár að finna út úr því hvort hommum og lesbíum væri óhætt að játa ást sína frammi fyrir Guði og mönnum og eiga sömuleiðis aðild að þeim veraldlegu réttindum sem fylgja því að ganga í hjónaband.
Nú hefur öldurnar lægt og allir sjá að það versta sem gat gerst var að heilbrigðar, mannlegar tilfinningar væru viðurkenndar, punktur.
Í ljósi þessa fannst mér mjög merkilegt að fylgjast með viðbrögðum við fréttinni um að það væri bara dásamlegt ef Jesús væri hommi. Nú snerist fréttin ekki um það hvort ég teldi að Jesús væri samkynhneigður heldur um það að ef hann væri það, þá væri það bara í lagi.
Hvernig í ósköpunum ætti mér að þykja eðlilegt og rétt að hommar fengju að giftast ef mér þætti á sama tíma guðlast að hugsa til þess að Jesús væri hommi? Mér finnst einmitt eðlilegt að hommar fái að giftast vegna þess að ég tel tilfinningar þeirra og samstöðu vera Guði þóknanlegar. Mér finnst það í hæsta máta ömurlegt þegar fólk leggur að jöfnu þá hugmynd að Jesús hafi verið samkynhneigður og eitthvað sem er pervertískt og ljótt, líkt og ég sá í kommentakerfum sumra vefmiðla. Það eru þessar „hvað næst“ upphrópanir sem fá mig stundum til að hætta að trúa á mannkynið. „Jesús hommi, já já hvað næst?“ Eins og það að vera samkynhneigður sé svona næsta stig við að vera barnaperri. Ég er svolítið hrædd um að Pútín sé staddur víðar en á vetrarólympíuleikunum í Sotsí.
Skiptir kynhneigð Jesú máli? Ja, kannski ekki persónulega fyrir mig sem er gagnkynhneigð og hef því aldrei þurft að berjast fyrir tilverurétti tilfinninga minna og kynhneigð. En hún gæti skipt heilmiklu máli fyrir 16 ára samkynhneigðan dreng sem er inni í skápnum að vandræðast með tilveru sína og á kannski trú á frelsarann Jesú Krist. Kannski hugsar hann „Góði Guð, er í lagi að vera eins og ég er?“
Ég persónulega á ekki trú vegna þess að ég vilji treysta því að eftir þetta líf taki eitthvað betra við, ég trúi ekki til að verjast ótta við dauðann, eða af því að ég geti ekki hugsað mér að horfast í augu við endalokin. Ég veit ekkert hvað tekur við eftir dauðann, ég trúi því að Guð taki við en hvernig það verði útfært hef ég ekki hugmynd um.
Ég trúi á Guð af því að ég er hrædd við dauðann í lífinu, hrædd við einsemd og útskúfun, óréttlæti og tilfinningalega fjötra. Trú mín byggist á þeirri persónulegu reynslu að Guð gangi með mér þegar enginn annar getur það, þegar enginn manneskja er fær um að skilja mig, þá skilji Guð mig, hann skilur allar furðulegu hugsanirnar og sjálfsmyndarkreppurnar sem regulegu knýja dyra. Trúin færir mér fullvissuna um að mér sé óhætt þrátt fyrir allt og allt.