Nú er runninn upp árstími sem margir elska og svipað margir þola illa. Báðir hóparnir hafa eitthvað til síns máls, en álíka erfitt að sameina þessa hópa eins og ólík trúarbrögð.
Snjóbráð og frost
Eitt geta þessir hópar þó verið sammála um, fyrir utan að vera ósammála, en það eru lekavandamál vegna klakamyndunar. Þegar grýlukertin myndast hlýnar mörgum um hjartaræturnar, enda mjög falleg og minna oft á jólastemninguna. Fólk langar til að fá sér heitt kókó og kósífötin ekki víðs fjarri. Ástandið er í lagi meðan enginn verður fyrir því að fá fallandi kerti ofan á höfuð eða aðra líkamsparta. Einnig er ástandið ekki gott til lengdar með tilliti til lekavandamála. Hvers vegna myndast þessi fallegi vágestur?
Hvernig gerist þetta?
Þegar mikill snjór safnast á þakfletinum hefst strax bráðnun. Þegar mikið og langvarandi frost bætist í ferlið frýs einnig í þakrennum. Á þessum tímapunkti fer vatnið að leka yfir klakann í rennunni og droparnir mynda grýlukerti sem teygja sig neðar og neðar. En á vissum tímapunkti nær vatnið ekki neðar eftir kertunum og þá getur vatnið farið að leka inn í húsið. Þetta er sérstaklega hættulegt ef frostið er mikið og þakið illa einangrað. Ef hallinn er mikill og þakkanturinn nær langt frá húsveggjum er minni hætta á leka inn í húsið, grýlukertin verða stærri. Ef þakkantarnir eru stuttir og hallinn lítill, er hætta á að myndist klakatappi sem beinir vatninu inn í húsið.
Hvað er til ráða?
Til eru nokkrar leiðir til að verjast þessu ferli, en ekkert eitt ráð sem hentar öllum. Mörg „flöt“ þök eru þannig búin að settur er hitaþráður á þá staði þar sem snjóbráðin á að safnast og leka niður í rennur eða niðurföll. Þessir hitaþræðir eru varasamir og alltaf þarf að vera á varðbergi um að hann skapi ekki hættu. T.d getur hann særst með tímanum ef hann slæst til í vindi. Sumir taka hann úr sambandi yfir sumartímann og kveikja yfir kaldasta tímann o.s.frv. Aldrei skal setja slíkan þráð nema í samráði við fagmann, þá helst rafvirkja. Í mörgum tilfellum þarf að einangra þökin betur. Sum þök eru einfaldlega ekki einangruð, sem á við um sum eldri hús. Þetta má vel sjá ef horft er uppá þak eftir að snjóar á þau. Ef bráðnun er hröð og snjórinn rennur hratt af þakinu er það illa einangrað. Ef snjórinn heldur svipaðri þykkt á þakinu eins og í garðinum er þakið vel einangrað. Því er lausnin sums staðar að einangra þakið betur. Við þekkjum það sjálf varðandi líkamann, hitinn tapast hratt ef við erum ekki með húfu í miklu frosti.
Hvað get ég gert STRAX!?
Ég mæli ekki með því að fólk fari að klöngrast upp á húsþök. Hættan á því að renna niður þakið er of mikil, við erum mikilvægari en það. Sumir hafa farið með heitt vatn og brætt klakann burtu. Slíkt er gott ef farið er með hitaþráð strax í rennuna á eftir. Sumir hafa sett salt í rennuna og látið saltið um að bræða ísinn hægt og rólega. Slíkt getur verið varasamt í miklum mæli og getur valdið hröðun á tæringu, ef rennur og þakklæðning eru úr járni. Þessi aðferð getur verið góð ef vandinn er bráður og snjóbráðin er farin að leka inn í húsið. Sumir taka grisjur, eins og seldar eru á bensínstöðvum, eða gamla sokka, setja salt í þá og leggja ofan í rennuna. Þessi aðferð varnar því að saltið fjúki eða leki allt niður í garðinn. Í Bandaríkjunum er hægt að kaupa alls kyns kemískar vörur sem henta til að bræða snjó. Kannski er hægt að fá eitthvað af því í Kosti, þeir eru duglegir að taka inn vörur frá USA.
Annars vona ég að fólk sé duglegt að hreinsa grýlukertin neðan af rennum og þá sérstaklega þar sem hætta skapast þegar þau falla niður, farið bara varlega í það. Annars skulum við njóta fegurðarinnar sem þessu fylgir.
Gleðilega hátíð.