Hildur Ýr Ísberg er íslensku- og bókmenntafræðingur. Hún leggur stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum og sérhæfir sig í barnabókmenntum og fantasíum. Hildur er hluti af ritstjórn vefritsins sirkustjaldid.is og skrifar hér um hrylling, ótta og hvort við séum hugsanlega að einfalda barnabókmenntir fram úr hófi. Það eru teikningar eftir Þórarinn M. Baldursson sem skreyta þessa grein.
Hrollvekjur eru sérstakar að því leyti að þær, ólíkt öðrum formum fantasískra bókmennta, eru skilgreindar út frá viðbrögðum lesandans. Ef sagan vekur lesandanum ótta eða hrylling er hún hrollvekja. Hryllingur í sögum fyrir börn er ekki nýtt fyrirbæri, því eins og flestir lesendur þekkja er talsvert um hrylling í þjóðsögum og ævintýrum. Nútíminn reynir þó sitt besta til þess að hlífa börnunum við hryllingi ævintýranna. Vonda nornin sér að sér, fer í fangelsi eða er send burt í stað þess að vera send aðra leiðina niður foss í naglatunnu, vera söltuð í tunnu eða látin dansa á glóandi pyntingaskóm þar til hún dettur dauð niður.
Það dæmi sem sem ég man best er þegar ég settist niður með dóttur minni ungri og las fyrir hana ævintýrið um grísina þrjá í útgáfu Skemmtilegu smábarnabókanna. Í minni æsku var úlfurinn eldaður í súpu sem grísirnir átu með bestu lyst, en í þessari bók var úlfurinn besta skinn sem var að ruglast í lífinu, sá að sér og var boðinn í ljúffenga grænmetissúpu eftir að hafa brennt sig svolítið á rassinum.
Óttinn við hið (ó)þekkta
Börn eru ekki gömul þegar þau kynnast óttanum, þar á meðal óttanum við dauðann. Sálfræðingurinn Bruno Bettelheim segir að þegar börn hlusta á ævintýri fái þau tækifæri til þess að kljást við þennan ótta í öruggu umhverfi, því óttinn á sér birtingarmynd í hinu táknræna ævintýri. Illfygli ævintýranna og skrímsli hrollvekjanna eiga sér þannig tilgang og hlutverk í lífi barna jafnt sem fullorðinna. Freud gerir hrylling í skáldskap að umfjöllunarefni í grein sinni Hið óhugnanlega (þ. Das Unheimliche) sem út kom árið 1919. Þar segir hann að ótti okkar beinist ekki að hinu óþekkta heldur að hinu þekkta sem við höfum bælt innra með okkur. Freud ræðir einnig tvífaraminnið, sem er þekkt minni í hryllingsskáldskap, sem dæmi um þennan ótta við hið þekkta, því hvað þekkir maður betur en sjálfan sig?
Það er ef til vill einmitt þessi ótti við hið þekkta sem gerir það að verkum að það getur verið varasamt að vernda börn um of við hryllingi og grótesku í skáldskap. Óttinn er börnum ekki ókunnugur, hversu vandlega sem þau eru umföðmuð. Það er óhjákvæmilegt og eðlilegt að börn óttist því óttinn er eðlileg viðbrögð við ákveðnu áreiti þó foreldrum sé einnig eðlilegt að vilja vernda börn sín frá hvers kyns vondum tilfinningum.
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Skarpskyggnir lesendur
Hefðbundin flétta hrollvekjunnar felur í sér að kynna skrímslið og staðfesta það fyrir lesandanum, uppgötvunina, þegar aðalpersónur sögunnar komast að því að skrímslið er til, staðfestingu, þegar einhver sem ekki trúði á skrímslið staðfestir tilveru þess og að lokum uppgjör, baráttu við skrímslið sem venjulega er yfirbugað í lokin. Hrollvekjan hefur þannig yfirleitt skírskotanir til hins yfirnáttúrulega. Þessi uppbygging er sígild og mjög algeng og sigurinn á skrímslinu er sérstaklega mikilvægur fyrir unga lesendur því þegar skrímslið er yfirbugað má segja að lesandinn hafi tekist á við ótta sinn og yfirbugað hann, eða ef við orðum þetta melódramatískt, drepið dauðann, ýtt óttanum við hann frá um stundarsakir.
Það verður sífellt algengara að börn séu vernduð fyrir öllu mögulegu sem áður þótti sjálfsagt mál. Sumar þessara varúðarráðstafana eru afar eðlilegar, t.d. aukin öryggisbelta- og hjálmanotkun. Hægt er þó að setja spurningamerki við hvort ástæða sé til að vernda börn fyrir skáldskap? Í frásagnarfræðum fyrir börn verður það sífellt meira áberandi að börnum er einfaldlega ekki treyst sem lesendum. Þeim er ekki treyst til að vinna úr frásögninni, þeim er ekki treyst til að ráða við flókinn orðaforða, þeim er ekki treyst til að lesa á milli línanna og þeim er ekki treyst til að vinna úr hryllingi eða grótesku sem fylgt hefur sögum, ævintýrum og skáldskap fyrir börn um aldaraðir. Flest börn eru skarpskyggnir lesendur og engin ástæða til þess að hlífa þeim við að nota náðargáfur sínar.