Átakið Geðveik jól hóf göngu sína árið 2011 og hefur frá upphafi sett skemmtilegan svip á jólaundirbúning landsmanna. Þar keppa fyrirtæki sín á milli um „geðveikasta jólalagið“ sem ýmist er samið af starfsmönnum þeirra eða saminn er nýr texti við eldra útgefið lag. Um leið er markmið átaksins að næra geðheilsu starfsmanna, hressa upp á móralinn, leyfa starfsmönnum að skína og láta gott af sér leiða. Söfnunarþátturinn fer í loftið annað kvöld á RÚV en vel á aðra milljón hafa safnast nú þegar. Alls taka átta fyrirtæki þátt og velur hvert og eitt þeirra sitt styrktarfélag. Fyrirtækið Bestseller hefur vakið mikla athygli fyrir sitt framlag en fyrirtækið á og rekur margar vinsælustu tískuvöruverslanir landsins.
„Það var haldinn starfsmannafundur þar sem starfsfólk var beðið um að koma með hugmyndir af verkefnum sem þau langaði að styrkja. Niðurstaðan var sú að starfsfólkið vildi styrkja Líf, umræðan var góð og greinilegt að margt af okkar fólki hafði nú þegar nýtt sér þjónustuna á einn eða annan hátt og þótti mikilvægt að leggja málefninu lið,“ segir Lovísa Anna Pálmadóttir, markaðsstjóri Bestseller.
Tilgangur LÍF er að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. „Þó svo að það virðist vera sem málefnið sé mjög kvenlægt þá megum við ekki gleyma því að það eru bæði karlar og konur sem njóta þjónustu kvennadeildarinnar þar sem börn þeirra dvelja á deildinni fyrstu klukkustundir ævi sinnar. Einnig dvelja margir þeirra þar meðan á fæðingu og sængurlegu stendur. Lagið varð fyrir valinu því okkur þótti það svo ofboðslega fallegt, hún Sunna Rán sem samdi við það textann sá fyrir sér hvernig við gætum nýtt allt okkar frábæra starfsfólk til þess að mynda þennan líka flotta BESTSELLER kór.
„Við erum ótrúlega spennt og eftir að hafa rætt við forsvarsmenn Líf, styrktarfélags þá var niðurstaðan sú að okkur langar að safna fyrir svokölluðum therapy stólum fyrir deildina en brýn nauðsyn er að endurnýja þessa stóla sem eru notaðir fyrir konur sem koma í dagönn, en þá er fylgst með ástandi móður og barns. Stólarnir eru dýrir og því þurfum við að taka á honum stóra okkar til þess að koma þessu í gegn og safna. Því skipta framlög fyrirtækja og einstaklinga okkur og Líf gríðarlega miklu máli.“ Lovísa hvetur alla til að horfa á lokaþátt Geðveikra jóla annað kvöld, föstudag, á RÚV þar sem í ljós kemur hver hreppir titilinn Geðveikasta jólalag ársins.