Eva Ruza skrifar:
Við Íslendingar erum upp til hópa laus við fordóma og flest tökum við fólki opnum örmum.
Sem er gríðarlega mikill mannkostur, því það eiga allir sama tilverurétt hér á jörð, sama hvar þeir fæðast.
Pabbi álpaðist frá Júgóslavíu til Íslands fyrir 44 árum síðan, þegar útlendingar voru ekkert sérlega vinsælir meðal landans og voru ekki margir hér á þeim tíma.
Afi minn heitinn starfaði í lögreglunni og þá í útlendingaeftirlitinu.
Við systur höfum oft heyrt söguna um þegar mamma mætti með þennan útlending (hann pabba) upp á arminn og kynnti hann fyrir afa. Afi rétt leit á hann, horfði á höndina sem stóð þarna útrétt og gekk í burtu.
Mamma lét sér sem betur fer ekki segjast og hélt fast í þennan unga dreng sem hún fann, í útvíðu flauelsbuxunum með permanent. Já, ég veit hvað þið eruð að hugsa og nei, það var ekki hægt að vera svalari en þetta í þá daga.
Afi tók nú þennan útlending með opnum örmum í næstu heimsókn þegar hann sá hversu fínn gaur hann pabbi var svo bara eftir allt saman og urðu þeir tveir bestu vinir … eftir að hann hafði AÐ SJÁLFSÖGÐU flett honum upp til að tékka hvort hann væri nokkuð einhver stórglæpon úr júgóslavnesku mafíunni.
Það gerist sjálfkrafa í flestum tilfellum þegar faðir manns er af erlendu bergi brotinn, að maður fær erlent eftirnafn og stundum nafn sem er ekki alíslenskt.
Við systurnar erum þrjár og erum við tvær sem berum erlent nafn fyrir utan eftirnafnið.
Sú elsta heitir Dubravka Laufey, ég kem í miðjunni með nafnið Eva Ruza og sú yngsta heitir Stefanía Tinna … en gengur bara undir nafninu Tinna. Hún átti að heita Stjepania, í höfuðið á elsku afa mínum í Króatíu, honum afa Stjepan, en það vafðist eitthvað fyrir prestinum fyrir 30 árum og heitir hún því Stefanía.
Hún varð grautfúl við mömmu og pabba þegar hún fékk vit, því hana langaði svo mikið að heita eitthvað útlenskt líka. Hún getur víst kennt prestinum um það, og huggað sig við það að hún fékk töff eftirnafn – eftirnafnið Miljevic.
Við systur fengum að bera nöfnin okkar í friði alla skólagönguna, og reyndar bara alla tíð.
Sem betur fer, því börn geta verið hörð án þess að ætla sér það kannski. Það var enginn sem nennti að stríða okkur út af nöfnunum sem við erum svo heppnar að eiga.
Pabbi hins vegar man að þegar hann var nýkominn til landsins 19 ára gamall, að þá fann hann fyrir að honum fannst óþægilegt að segja nafnið sitt við fólk, og aðallega þá vegna þess hversu mikið útlendingar voru litnir hornauga á þessum tíma. En hann pabbi er harðduglegur og flottur maður sem ber höfuðið hátt þó að í sentimetrum sé hann ekki hár og hefur plummað sig asskoti vel á skerinu.
Þegar hann fékk íslenskan ríkisborgararétt þurfti hann að velja sér íslenskt nafn sem kæmi fyrst. Hann valdi sér nafnið Darri. Þannig að hann heitir Darri Stanko. Sem er í sjálfu sér, ef maður pælir í því, alveg agalegt rugl. Að þurfa 20 og eitthvað ára að velja sér annað nafn til að fá ríkisborgararétt.
En svona voru reglurnar í þá daga og er ég ekki viss um hvort þær séu eins eða breyttar í dag.
Pabbi notar þetta nafn örsjaldan, og eflaust ekki margir sem vita af þessu nafni nema hans nánasta.
Hins vegar hef ég lent í ansi mörgum skondnum atvikum við það að bera stórkostlega nafnið mitt, nú síðast bara um daginn þegar það var hringt í mig frá Gallup.
,,Já góðan daginn – sagt með MJÖG skýrum rómi og frekar hægum – Eva Rrrrr … Eva? Er þetta hún? (hætt við á síðustu stundu að reyna að bera fram Ruzu-nafnið).
Ég brosti með sjálfri mér vitandi hver ástæðan var fyrir hikinu.
„Já, það er hún.“
„Já, komdu sæl, ég hringi frá Gallup, talar þú íslensku?“ sagt mjög kurteislega og hægt.
Ég svaraði að sjálfsögðu eitursvöl:“Já já, ég tala alveg ferlega fína íslensku.“
– smá hik á hinum enda línunnar, og svo öhh, já auðvitað.
Ekki í fyrsta sinn sem ég er spurð þessarar spurningar og alls ekki í síðasta sinn.Sem er bara allt í lagi. Fullkomlega eðlilegt allt saman.
Nú eigum við hjónin tvö börn sem eru nýbyrjuð í 6 ára bekk. Bæði bera þau nöfn sem þurftu að fara fyrir mannanafnanefnd. Mannanafnanefnd er nefnd sem á að mínu mati alveg rétt á sér, þrátt fyrir að við hefðum þurft að skrifa heila ritgerð um ástæðu þess að okkur langaði að skíra börnin okkar nöfnunum sínum.
Sonur minn, Stanko Blær, heitir í höfuðið á afa sínum, afa Stanko, og dóttir mín heitir Marina Mist. Marina með „i“ en ekki „í“. Við þurftum leyfi fyrir þessu „i“ í Marinu nafninu, en nafnið er í höfuðið á yndislegri frænku sem býr í sveitinni okkar í Króatíu.
Ástæðan fyrir því að við máttum skíra son okkar Stanko er einfaldlega sú að seinna nafnið hans „Blær“ fallbeygist og einnig vegna þess að Stanko er ekki út í loftið, heldur í höfuðið á pabba mínum sem er íslenskur ríkisborgari. Ég man að við þurftum að rekja nafnið aftur og í rauninni rökstyðja það af hverju við vildum skíra hann þessu nafni.
Til að þau fengju Miljevic-eftirnafnið með þurftum við að skíra þau því nafni sem mér finnst að ætti bara sjálfkrafa að falla aftur fyrir nafnið þeirra ef það er vilji foreldra. Svo bera þau að sjálfsögðu nafn pabba síns líka. Leyfum honum að vera memm í romsunni
Að bera nafnið Eva Ruza Miljevic er gjörsamlega frábært fyrir manneskju eins og mig, sem reynir að marka spor sín sem víðast, vitandi það að nafninu mun fólk ekki gleyma, eða þið vitið, ég vona að fólk gleymi mér ekki svo glatt. Hef heyrt að ég þjáist af athyglissýki og ég held að sú sjúkdómsgreining sé nokkuð rétt. Og mér er sléttsama – gæti verið verri greining.
Afi einnar bestu vinkonu minnar kallar mig samt alltaf og ævinlega Evu Rósu.
Alveg sama hversu oft ég hef reynt að miðla til hans að ég heiti alls ekki Rósa, heldur Ruza, sem er borið fram Rúsa. Hann bara nær því ekki, eða vill ekki ná því. Sem er líka bara allt í lagi. Ég er ekkert viðkvæm fyrir því þótt fólk geti ekki sagt nafnið mitt. Hefði samt haldið að gamli ætti að vera búinn að ná því eftir ca 25 ára vináttu við barnabarnið hans.
Þannig að ef Gallup hringir, eða ef þið mætið mér úti á götu, þá heilsið þið mér bara:
„Hæ, Eva Ruza (Rúsa)“ og málið er dautt.
Og ég lýk pistlinum eins og hann byrjaði í upphafi.
Miljevic kóngurinn, hann pabbi, er enn giftur stelpunni sem átti löggupabbann – mamma munið þið. Eignaðist með henni þrjár stórkostlegar dætur.
Sko stórkostlegar!
Hefur eignast barnabörn og tengdasyni og lífið er gott.
Hjúkk að pabbi mætti á skerið …. annars hefði Eva Ruza aldrei fæðst.